Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka. Sækir fyrst um bætur sex mánuðum eftir starfslok. Fellt úr gildi.
Nr. 58 - 2006

Úrskurður

 

Þann 17. október 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysisbóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 58/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu samþykkti með ákvörðun sinni þann 31. júlí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur, frá 6. júlí 2006.  Jafnframt ákvað nefndin að X skyldi gert að sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar og með vísan til starfsloka X hjá R er hún kom úr fæðingarloflofi.  

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi 17. ágúst 2006.   Þar segist hún hafa sagt upp störfum hjá R eftir fæðingarorlof.  Ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að hún hafi flutt búferlum erlendis til að fylgja eiginmanni sínum sem hafi verið að fara í nám þar.  Af þessum ástæðum telur X að ekki hafi verið rétt að fella niður bótarétt hennar.  Þau hjónin hafi bæði sótt um atvinnuleysisbætur er þau komu heim eftir námslok eiginmanns hennar í júlí 2006.  Maður hennar hafi strax fengið greiddar atvinnuleysisbætur á þeim forsendum að hann væri að koma frá námi en hún hafi verið sett á bið.  Tímabilið sem um sé að ræða hafi verið frá 6. júlí til 21. ágúst sl. er hún hóf aftur störf hjá R.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta tók mál X fyrir á fundi sínum þann 26. september sl. en ákvað að fresta málinu og afla frekari gagna.

            Í gögnum málsins liggur fyrir starfsvottorð frá R dags. 9. október 2006.  Þar segir að X hafi stundað vinnu á vegum R frá 11. nóvember 2003 til 27. febrúar 2005, í 50% starfi.  Frá 28. febrúar 2005 til 31. ágúst 2005 hafi hún verið í launalausu leyfi.  Þá liggur fyrir bréf X til leikskólans J, móttekið 18. febrúar 2005, þar sem hún óskar eftir launalausu barnseignarleyfi frá 27. febrúar til 1. september 2005 frá starfi sínu sem aðstoðarmanneskja í eldhúsi leikskólans, en fram til 27. febrúar hafði hún verið í sex mánaða fæðingarorlofi.  Samkvæmt greiðsluyfirliti frá fæðingarorlofssjóði fékk X greiðslur úr sjóðnum tímabilið ágúst 2004 til febrúar 2005. 

            Einnig liggur fyrir staðfesting frá Lánasjóði Íslenskra námsmanna að eiginmaður X hafi stundað nám við háskólann í B tímabilið 1. október 2005 til 30. júní 2006. 

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. nýrra laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi 1. júlí sl., , fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

2.

 

Bótaréttur kæranda var felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils vegna þess að hún hefði sagt upp starfi sínu hjá leikskólum R er hún fór í fæðingarorlof, sbr. vinnuveitandavottorð starfsmannaskrifstofu R, dags. 17. júní 2006.  Samkvæmt síðara vinnuveitendavottorði sem vísað er til hér að framan, dags. 9. október 2006, sem leggja verður til grundvallar í máli þessu, hélt kærandi aftur á móti starfi sínu er hún fór í fæðingarorlof og fékk síðan heimild til að taka sex mánaða launalaust orlof í framhaldi af fæðingarorlofinu.  Kærandi sagði síðan upp starfi sínu til að fylgja eiginmanni sínum til náms erlendis. 

Almenn lagarök mæla með því að viðurlagaheimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um 40 daga niðurfellingu bóta skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur, þ.e. að líta megi svo á að viðkomandi hafi í stað þess að vera í starfi tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu og valið þann kost að fara á atvinnuleysisbætur til lengri eða skemmri tíma.

Sjö mánuðir liðu frá því að fæðingarorlofi X lauk þar til þar til eiginmaður hennar hóf nám erlendis.  Samkvæmt vottorði frá R var X í launalausu leyfi sex mánuði af þessum tíma og sótti ekki um aðvinnuleysisbætur á þessum tíma. 

 

Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 6. júlí 2006 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni