Krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Fellt úr gildi.
Nr. 81 - 2006

Úrskurður

 

Þann 26. janúar 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 81/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun ákvað þann 7. nóvember 2006 að Y bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 581.430.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hefði þegið atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann var óvinnufær og fékk greidda sjúkradagpeninga frá VÍS á tímabilinu 2. desember 2005 til 30. júní 2006.  Hann sé 75% öryrki frá 2005 og hafi ekki lagt fram læknisvottorð um vinnufærni.  Ákvörðunin var tekin með vísan til 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, sem kveða á um að skilyrði laga fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna sé að þeir séu í virkri atvinnuleit og færir til flestra almennra starfa.

 

2.

           

            Y kærði framangreinda ákvörðun með bréfi dags. 26. nóvember 2006.   Í bréfi sínu segist hann í árslok 2005 ekki hafa haft hugmynd um sitt læknisfræðilega ástand.  Hann hafi því talið sig í fullum rétti til að skrá sig atvinnulausan.  Enda hefði hann verið tilbúin til að taka þeirri vinnu sem hentaði ef hún hefði verið í boði.  Fyrri part árs 2006 hafi komið í ljós eftir læknisrannsóknir á vegum VÍS þar sem hann var með slysa- og sjúkdómatryggingu að varanleg örorka hans væri 5%.  Síðar hafi VÍS metið hann með 10% varanlega örorku. Þann 16. júní sl. hafi verið sótt um örorkumat fyrir hann hjá Tryggingastofnun ríkisins og hann verið úrskurðaður 75% öryrki í september 2006.  Hann hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur eftir júní 2006. 

           

 

 

 

 

 

Niður­staða

1.

 

 

            Y þáði atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann fékk greidda sjúkradagpeninga tímabilið 2. desember 2005 til 30. júní 2006, eða fyrir gildistöku laga nr. 54/2006.  Eldri lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, eiga því við í máli Finnboga.

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

27. gr. laga nr.12/1997 hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

2.

            Kærandi var í september 2006 metinn 75% öryrki af Tryggingastofnun ríkisins. Örorkumatið var aftur í tímann eða frá 1. desember 2005.  Fyrri part ársins 2006 var kærandi metinn 5% öryrki af VÍS og síðar árinu 10% öryrki. Kærandi fékk greiddar bætur úr sjúkra- og slysatryggingu frá VÍS frá 2. desember 2005 til 30. júní 2006.  Í ágúst 2006 var hann síðan metinn 75% öryrki af Tryggingastofnun ríkisins og fékk þá greiddar örorkubætur aftur í tímann eða frá 1. desember 2005.  Fyrir þann tíma segist kærandi hafa verið í þeirri trú að hann væri 5% öryrki og  vinnufær.

Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4186/2004 er það skilyrði fyrir beitingu heimilda 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um endurkröfu að sýnt sé með viðhlítandi hætti fram á meðvitaða ætlun bótaþega um að afla sér bóta með þeim hætti sem lýst er  í ákvæðunum.  Þá kemur fram í sama áliti umboðsmanns Alþingis að í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að heimild til afturköllunar slíks réttar sem greiðsla atvinnuleysisbóta er, sem þegar er orðinn virkur samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, verði að vera skýr og glögg.  Samkvæmt ólögfestum reglum eru einnig strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu.  Í 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að skilyrði fyrir beitingu viðurlaga 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sé uppfyllt og telur úrskurðanefndin að vafa þar um beri að meta kæranda í hag. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 7. nóvember 2006 um að Y beri að beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 581.430.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                               Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.