Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildra ástæðna. Staðfest.
Nr. 77 - 2006

Úrskurður

 

Þann 26. janúar 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 77/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra  samþykkti þann 28. júlí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 10. júní 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 20. júlí sl. um starfslok hennar hjá A var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Stofnunin tók málið fyrir á ný þann 30. september sl. og staðfesti fyrri ákvörðun sína.

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 1. nóvember 2006.   Í bréfinu segist hún hafa sagt starfi sínu lausu sem verkefnastjóri hjá A þann 1. mars 2006 vegna verulegra breytinga á fjölskylduhögum.  Hún hafi í byrjun ráðið sig upp á að um verulega yfirvinnu yrði að ræða og mikla ábyrgð.  Starfið hafi verið þess eðlis að enginn annar hafi haft þekkingu til að sinna því.  Ef eitthvað hafi komið upp á og hún hafi þurft að á fríi að halda eða börnin hafi verið veik hafi verið enn meira að gera þegar hún hafi komið til baka og hafi hún þar af leiðandi oft þurft að vinna langt fram yfir hefðbundinn dagvinnutíma. Þetta starfsfyrirkomulag hafi hentað henni á sínum tíma vegna starfs eiginmanns hennar. Í september 2005 hafi maður hennar veikst illa og í framhaldinu hafi honum verið sagt upp störfum eftir 20 ára starfsferil. Í framhaldi af því hafi hann síðan fengið starf sem hafi krafist mikillar fjarveru og vinni hann aðallega á Austfjörðum. Þau eigi börn á aldrinum 5-10 ára.  Þegar þessar breytingar hafi orðið á lífi þeirra hafi hún reynt allt sem hún hafi getað til að fá breytingu á vinnutíma sínum, fjarvinnslu eða eitthvað annað sem gæti hentað henni betur.  Það hafi ekki fallið í góðan jarðveg hjá deildarstjóra hennar. Hún hafi farið í þrígang á fund með deildarstjóranum en það hafi ekki gengið eftir.  Hún hafi haldið áfram starfi sínu í einhvern tíma, en eftir basl og erfiðleika við að samræma starfið og heimilislífið hafi hún ákveðið að segja starfi sínu lausu.

Bótaréttur hennar hafi í framhaldi verið felldur niður og vísað til þeirrar ástæðu að hún hafi ekki látið reyna á hvort möguleiki væri á breyttum vinnutíma.  Vinnuveitandi hennar hafi að beiðni hennar sent vinnumiðlun bréf þar sem hann hafi staðfest að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra beggja að hún segði starfi sínu lausu vegna mikillar ábyrgðar og yfirvinnu.  X getur þess að lokum að þremur dögum eftir að uppsögn hennar hafi tekið gildi hafi hún endað á sjúkrahúsi með blæðandi magasár sem segi e.t.v. að hluta til hversu mikið álag hafi verið um að ræða.

           

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá A frá 20. júlí 2006. Þar segir að X hafi starfað sem rekstrarhagfræðingur hjá A tímabilið 25. nóvember 2004 til 28. júní 2006 í 100% starfshlutfalli. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum. 

Í bréfi, dags. 5. september 2006, frá deildarstjóra A til Vinnumálstofnunar á Norðurlandi eystra er staðfest að um hafi verið að ræða samkomulag þeirra beggja að X segði starfi sínu lausu vegna eðli starfans, þ.e. ábyrgð og yfirvinnu sem henni hafi verið orðið erfitt að sinna vegna breytinga á högum hennar.

Í umsókn X hjá vinnumiðlun um atvinnu og atvinnuleysisbætur kemur fram að hún hafi fulla gæslu fyrir börnin fyrir 100% vinnutíma.

 

  


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr.  laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.

 

           

2.

 

Kærandi vann sem rekstrarhagfræðingur hjá A.  Í upphafi starfans, eða þann 25. nóvember 2004, réði hún sig upp á mikla yfirvinnu og ábyrgð.  Þetta starfsfyrirkomulag hentaði vel á þessum tíma.  Fjölskylduhagir hennar breyttust hins vegar er maður hennar missti vinnuna.  Hann réði sig til starfs sem krefst mikillar fjarveru, aðallega á Austfjörðum.  Hún fór því ítrekað fram á það við yfirmann sinn að starfsfyrirkomulaginu yrði breytt og að hún þyrfti ekki að vinna yfirvinnu, en þeirri beiðni var hafnað.  Í kjölfarið sagði hún upp starfi sínu.  Kærandi tekur fram að hún hafi fulla gæslu fyrir börn sína eða sem samsvarar 100% starfi.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Kærandi réði sig til starfa sem fylgdi mikil ábyrgð og yfirvinna.  Síðan hentaði henni ekki það fyrirkomulag og sagði hún upp starfi sínu í kjölfarið. Samkvæmt ofansögðu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta  að þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum teljist ekki gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. 

 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra frá 28. júlí 2006 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni