Krafa um endurgreiðslu ofgreiddra bóta felld úr gildi.
Nr. 76 - 2006

Úrskurður

 

Þann 20. desember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 76/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 3. október 2006 að Y skyldi gert að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 173.980 ásamt 15% álagi, eða samtals kr. 199.994, á grundvelli 2. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur  í október og nóvember 2005 á sama tíma og hann gaf upp tekjur og greiddi tryggingagjald og staðgreiðslu af þeim til skattstjóra.

 

2.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar var kærð f.h. Y með bréfi dags. 8. nóvember 2006.    Í kærunni er þess krafist að endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi.  Ákvörðunin hafi verið tekin með vísan til 2. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur.  Þau lög hafi tekið gildi 1. júlí 2006, en endurgreiðslukrafan er vegna greiðslna atvinnuleysisbóta í október og nóvember 2005.  Því eigi eldri lög nr. 12/1997 við.  Bann við afturvirkni laga sé meginregla íslensks réttar.  Ákvörðunin sé ónákvæm þar sem ekki hafi verið tekið fram hvort hún sé tekin á grundvelli þess að kærandi hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á eða hvort kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum.  Það sé meginregla stjórnsýsluréttar að stjórnsýsluákvarðanir eigi að vera skýrar og ótvíræðar. 

Vinnumálastofnun byggi ályktun sína um óuppgefnar tekjur kæranda á skattskilum hans og greiðslu tryggingagjalds í október og nóvember 2005.  Sú ályktun sé röng.  Kærandi hafi ekki haft neinar tekjur á þessum tíma sem hann gaf ekki upp lögum samkvæmt til Vinnumálastofnunar.  Yfirlit um greiðslur kæranda til yfirvalda á skatti og tryggingagjaldi geti gefið villandi upplýsingar um raunverulegar tekjur á umræddum tíma.  Skýringin sé einföld.  Kærandi hafi notið listamannalauna í hálft ár á árinu 2005, eða tímabilið apríl til september 2005, sbr. vottorð menntamálaráðuneytisins.  Þau laun hafi verið skattskyld og kærandi hafi greitt af þeim lögboðin gjöld, þ.á.m. staðgreiðslu og tryggingagjald í október og nóvember líkt og hann væri á launum, enda þótt hann væri það ekki.  Þegar hann síðan hafi sótt um atvinnuleysisbætur í haust hafi ranglega mátt ráða af yfirliti um greiðslur hans á sköttum og opinberum gjöldum að hann hefði notið launa umrædda tvo mánuði.   Kærandi hafi greitt skatta og önnur gjöld í október og nóvember 2005 fyrir mistök og einungis vegna þess að hann lét undir höfuð leggjast að afskrá sig af staðgreiðsluskrá.  Hann hafi engra launagreiðslna notið í umræddum tíma sem hann gaf ekki upp til Vinnumálastofnunar.  Kærandi hafi nú lagt fram vottorð um launagreiðslur til sín og væntir þess að hið rétta sé fram komið í málinu.  Ákvörðunin sé byggð á röngum forsendum og því beri að fella hana úr gildi.

Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá menntamálaráðuneytinu dags. 3. október 2006.  Þar segir að Y hafi fengið úthlutað starfslaunum listamanna til  sex mánaða á árinu 2005.  Launin voru greidd til hans tímabilið apríl til september 2005.  Samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá fyrir árið 2005 fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur í október og nóvember, samtals kr. 173.908.  Samkvæmt skilagrein Ríkisskattstjóra reiknaði kærandi sér kr. 135.000 í endurgjald á mánuði þá mánuði og greiddi kr. 8.277 í tryggingagjald

 

.

           

 

           

Niður­staða

1.

           

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

27. gr. laga nr.12/1997 hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

2.

            Endurkrafa á hendur kæranda er vegna atvinnuleysisbóta sem greiddar voru í október og nóvember 2005.  Því gilda ákvæði eldri laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, í máli þessu.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þá var kæranda úthlutað starfslaunum listamanna í sex mánuði á árinu 2005 eða tímabilið apríl til september.  Kærandi reiknaði sér endurgjald og greiddi staðgreiðslu og tryggingagjald þessa mánuði og einnig í október og nóvember enda þótt greiðslum listamannalauna hefði verið lokið.  Í október og nóvember sama ár þáði kærandi atvinnuleysisbætur samhliða því að reikna sér endurgjald.  Kærandi segir að fyrir mistök hafi hann ekki skráð sig af staðgreiðsluskrá strax og því hafi hann greitt skatta og tryggingagjald í tvo mánuði eftir að listamannalaunum lauk.  Hann  hafi þó ekki haft neinar tekjur á þessum tíma sem hann gaf ekki upp hjá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4186/2004 er það skilyrði fyrir beitingu heimilda 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um endurkröfu að sýnt sé með viðhlítandi hætti fram á meðvitaða ætlun bótaþega um að afla sér bóta með þeim hætti sem lýst er  í ákvæðunum.  Þá kemur fram í sama áliti umboðsmanns Alþingis að í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að heimild til afturköllunar slíks réttar sem greiðsla atvinnuleysisbóta er, sem þegar er orðinn virkur samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, verði að vera skýr og glögg.  Samkvæmt ólögfestum reglum eru einnig strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu.  Í 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að skilyrði fyrir beitingu viðurlaga 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sé uppfyllt.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. október 2006 um að Y beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 199.994.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni