Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka. Flytur búferlum vegna fjölskylduástæðna. Fellt úr gildi.
Nr. 75 - 2006

Úrskurður

 

Þann 20. desember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 75/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á Austurlandi samþykkti þann 3. október 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 16. september 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hennar hjá S var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 6. október 2006.   Í bréfinu segist hún ekki vera sátt við þessa ákvörðun.  Hún hafi búið á H þar til í byrjun september.  Þá hafi hún flutt til D og hafið sambúð með manni.  Vegna félagslegra aðstæðna hafi hún ekki séð sér fært að sækja vinnu sína til H sem sé í 100 km. fjarlægð frá D.  Hún sé með þrjú börn, 2ja, 8 og 9 ára, sem öll séu í skóla.  Þau geti ekki bjargað sér sjálf á morgnana og eftir skóla.  Núverandi sambýlismaður hennar á D hafi reynt að selja hús sitt þar til að geta flutt til H en það hafi ekki gengið upp.  Það hafi hins vegar tekist að selja hennar hús á H.  Sambýlismaður hennar sé sjómaður og úti á sjó í allt að 14 sólarhringa.    Vinnutími hennar á H hafi verið frá kl. 8 til kl. 12. 

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá S.  Þar kemur fram að X hafi starfað sem fiskvinnslumaður hjá fyrirtækinu í 50% starfshlutfalli.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum.  Haft var samband við vinnuveitanda X.  Að sögn  hans fór X ekki fram á að fá að breyta vinnutíma sínum. Samkvæmt upplýsingum sem starfsmaður úrskurðarnefndarinnar aflaði frá Vegagerðinni er fjarlægðin milli H og D 104 km.  Samkvæmt Vegagerðinni er ekki yfir heiðar að fara og vegurinn yfirleitt greiðfær.

 

 

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

  

Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 54/2006 segir eftirfarandi um ákvæði það er varð að 54. gr. laganna:

 

                        Ákvæðið er efnislega samhljóða 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að umsækjandi þurfi áfram að sæta 40 virkra daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum þegar sótt er í fyrsta skipti um atvinnuleysisbætur segi hann sjálfur upp starfi án gildra ástæðna eða missi það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Þannig er undirstrikað það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess er ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði.

                        [...]

                        Erfitt hefur reynst í framkvæmd að henda reiður á þeim tilvikum sem teljast til gildra ástæðna. Í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, er sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem talin eru heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annar vegar er um að ræða þau tilvik er maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar eru tilvik þegar uppsögn má rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en er að öðru leyti vinnufær. Er þá gert að skilyrði að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn lét af störfum. Nefndin er fjallaði um efni laga um atvinnuleysistryggingar fjallaði um þetta atriði og komst að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem gætu talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segir störfum sínum lausum eða missir þau geta verið af margvíslegum toga. Er því lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falla að umræddri reglu. Stofnuninni ber því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða eru gerðar ríkar kröfur um að þegar ákvarðanir um biðtíma eru teknar liggi fyrir hvaða ástæður lágu raunverulega að baki því að launamaður sagði upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi enda oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum. Mikilvægt er að þau meginsjónarmið er ákvörðunin byggist á séu tilgreind í rökstuðningi stofnunarinnar.

 

 

2.

 

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. hefur orðalagið gildar ástæður verið skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Launakjör, vinnutími og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. Úrskurðarnefndin telur rétt að miða áfram við þau tilvik sem fjallað er um í reglugerð um atvinnuleysisbætur, þ.e. annars vegar þær aðstæður þegar maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum og hins vegar þau tilvik þegar uppsögn má rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en er að öðru leyti vinnufær.

Þrátt fyrir að lög um atvinnuleysistryggingar gangi út frá þeirri meginforsendu að landið sé eitt vinnusvæði getur fjarlægð vinnustaðar frá heimili verið grundvöllur réttmætrar höfnunar vinnu. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi frá Höfn í Hornafirði þar sem hún stundaði 50% vinnu og til Djúpavogs til að hefja sambúð með barnsföður sínum. Hefur kærandi lýst því að sambýlismaður hennar hafi reynt að selja hús sitt á Djúpavogi til að flytja á Höfn en það hafi ekki gengið. Hins vegar hafi tekist að selja hús hennar á Höfn.

 

Á grundvelli framangreinds og með hliðsjón af atvikum málsins er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum hjá S hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Austurlandi um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, felld úr gildi.

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar á Austurlandi frá 3. október 2006 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.