Niðurfelling bótaréttar. Bótatímabili lokið. Staðfest.
Nr. 74 - 2006

 

Úrskurður

 

Þann 20. desember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr.74/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru á þau að Vinnumálastofnun á Vestfjörðum felldi niður bótarétt X þann 27. september 2006, með vísan til þess að fimm ára bótatímabili hennar samkvæmt 9. gr. laga nr 12/1997 væri lokið.

 

2.

            Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 6. nóvember 2006.  Í bréfinu segist X hafa starfað hjá S tímabilið 1. júlí til 31. ágúst sl. og síðan tvær vikur í ágúst við ræstingar á leikskóla hjá Í  Vinnutími hennar í S hafi verið frá kl. 13 til kl. 15:30 virka daga.  Vinnutími hennar við ræstingarnar hafi verið frá kl. 16:30 til kl. 18 aðra hvora viku.  Hún hafi ekki gert sér grein fyrir hvaða áhrif þetta hefði á sínar atvinnuleysisbætur.  Ónýttir dagar hennar til atvinnuleysisbóta hafi verið 62 þann 30. júní sl.  X segir að þessir dagar virðist hafa fallið niður þrátt fyrir að hún hafi verið í hlutastarfi í júlí, ágúst og þrjá daga í september.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir greiðslusaga X frá 21. nóvember 2006. Þar kemur fram að þann 27. september 2006 hafi greiddir bótadagar verið 1.301 talsins.  Samkvæmt greiðslusögunni fékk X greiddar kr. 83.793 í atvinnuleysisbætur í júlí sl., kr. 30.226 í ágúst og kr. 59.32 í september.  Með bréfi dags. 16. júní 2006 var X tilkynnt að bótatímabili hennar myndi ljúka þann 26. september og þá yrði hún afskráð hefði hún ekki þegar verið afskráð fyrir þann tíma. 

Í bréfi Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum frá 20. nóvember sl. segir að X hafi verið boðið 50% hlutastarf í sérstöku verkefni tímabilið 1. júlí til 31. ágúst sl. sem hún hafi þegið.  Einnig hafi hún ráðið sig í 40% starf við ræstingar hjá Í.  Bótaréttur hennar hafi verið 100% og hafi hún fengið greiddar hlutabætur á móti þessum störfum til 27. september sl. er bótatímabili hennar lauk. 

 

 

 

Niður­staða

 

1.

            Eldri lög um atvinnuleysistryggingar, lög nr. 12/1997, gilda um bótatímabil kæranda. 9. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

Bótatímabil skal að hámarki vera fimm ár.  Nú fær maður, sem er byrjaður á bótatímabili, launaða vinnu og framlengist þá bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum.  Nýtt bótatímabil getur hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda eigi maður að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að bótatímabili lauk.

 

Fimm ára bótatímabil samsvarar 1300 bótadögum.  Fái maður sem byrjaður er á bótatímabili launaða vinnu og afskráir sig af atvinnuleysisskrá, þá framlengist bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum. Viðkomandi getur því verið eitt tímabilið á atvinnuleysisbótum, það næsta í vinnu og svo koll af kolli í fimm ár.  Hann getur einnig verið samfellt á atvinnuleysisbótum í fimm ár.  Í báðum tilvikum gildir sú regla að þegar hann hefur verið í fimm ár samtals á atvinnuleysisbótum fellur bótaréttur hans sjálfkrafa niður.  Bótatímabil lengist ekki ef  bótaþegi skráir sig ekki af atvinnuleysisskrá og fær hlutabætur greiddar á móti hlutastarfi.   

 

2.

  9. gr. laga nr. 12/1997 er skýrt orðuð.  Eftir að bótaþegi hefur frá upphafi bótatímabils fengið greiddar atvinnuleysisbætur í fimm ár, sem samsvarar 1300 bótadögum, fellur bótaréttur hans niður.  Þann 27. september sl. hafði kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 1301 bótadag.  Samkvæmt því er bótatímabili hennar lokið og bótaréttur hennar fallinn niður.  Samkvæmt 30. gr. núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er bótatímabil þrjú ár.  Er bótatímabili er lokið getur sá sem telst tryggður áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi  hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk.

 

 Samkvæmt ofansögðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda staðfest með vísan til 9. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Nýtt bótatímabil getur fyrst hafist að liðnum 24 mánuðum, sbr. 30 gr. laga nr. 54/2006, að því skilyrði uppfylltu að  kærandi hafi starfað í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra bótatímabili lauk.

  

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum frá 16. júní 2006 um niðurfellingu bótaréttar X.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                               Arnar Þór Jónsson

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.