Umsókn um tekjutengdar atvinnuleysisbætur hafnað. Staðfest. Uppfyllir ekki skilyrði.
Nr. 73 - 2006
Úrskurður
Hinn 20. desember 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 73/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 25. september 2006 að synja umsókn Y um tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til bráðabirgðaákvæðis III í lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 10. október 2006. Í bréfi sínu segir hann ekki rétt að grundvalla synjun um tekjutengingu eingöngu á bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 54/2006. Ákvæðið sé ekki þrengjandi heldur víkkandi. Ákvæðið kveði á um að lögin skuli gilda að öllu leyti um þann sem hafi starfað samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur í fyrsta skiptið eftir þann tíma. Hann hafi ekki sótt um atvinnuleysisbætur að nýju eftir 1. júlí, þess vegna varði ákvæðið hann ekki. Ennfremur segi ekkert í bráðabirgðaákvæði III sem skilja megi svo að þar sé takmarkaður eða felldur niður réttur sem veittur sé með öðrum ákvæðum laganna, t.d. með bráðabirgðaákvæði I. Lýsing bráðabirgðaákvæðis I eigi að fullu við um hann og því telji hann sig eiga rétt á tekjutengdum bótum án þess að bráðabirgðaákvæði III hafi nokkur áhrif þar á.
Í gögnum málsins liggur fyrir greiðslusaga Y. Þar kemur fram að hann fékk fyrst atvinnuleysisbætur á árinu 1997. Hann þáði einnig atvinnuleysisbætur á árunum 2002 og 2003 og kom síðan á atvinnuleysisskrá 2. janúar 2006 og hefur þegið bætur síðan.
Niðurstaða
1.
Bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:
Þeim sem hefur í fyrsta skipti skráð sig atvinnulausan hjá svæðisvinnumiðlun 15. nóvember 2005 eða síðar og er skráður atvinnulaus 1. júlí 2006 er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laga þessara fyrir 1. september 2006 og fer þá um réttindi hans og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum þessum. Við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. skal líta á það tímabil sem hann var skráður atvinnulaus sem tímabil skv. 23. gr.
Bráðabirgðaákvæði III er svohljóðandi:
,,Lög þessi skulu gilda að öllu leyti um þann sem hefur verið skráður atvinnulaus fyrir 1. júlí 2006 en hefur starfað samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur í fyrsta skiptið eftir þann tíma. Er þá ekki litið til fyrra bótatímabils hans skv. 9. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.
2.
Bráðabirgðaákvæði I heimilar þeim einstaklingum sem skráðu sig í fyrsta skipti atvinnulausa 15. nóvember 2005 eða síðar að sækja um tekjutengingu. Þar sem kærandi var ekki að skrá sig atvinnulausan í fyrsta skipti eftir 15. nóvember 2005 heldur hafði skráð sig atvinnulausan og þegið atvinnuleysisbætur á árunum 1997, 2002 og 2003 nær heimildin í bráðabirgðaákvæði I ekki til hans.
Bráðabirgðaákvæði III kveður á um að þeir einstaklingar sem hafa áður verið á atvinnuleysisbótum samkvæmt eldri lögum nr. 12/1997, en unnið samfellt í a.m.k. sex mánuði og skráð sig atvinnulausa að nýju eftir 1. júlí 2006 er lög nr. 54/2006 tóku gildi, byrji á nýju bótatímabili samkvæmt lögum nr. 54/2006 og geti því sótt um tekjutengingu. Kærandi hefur verið á atvinnuleysisskrá samfellt síðan í byrjun janúar 2006 og uppfyllir því ekki skilyrði bráðabirgðaáakvæðis III um sex mánaða samfellda vinu eftir 1. júlí 2006.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um tekjutengingu með vísan til bráðabirgðaákvæða I og III í lögum nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu um synjun á umsókn Y frá 25. september 2006 um tekjutengingu.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka