Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hættir starfi án gildra ástæðna. Vill breyta um vinnutíma. Staðfest.
Nr. 72 - 2006

Úrskurður

 

Þann 21. nóvember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 72/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra samþykkti þann 30. september 2006 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 9. ágúst 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hans hjá A var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 6. október 2006.   Í bréfinu segist hann kæra ákvörðunina vegna þess að hann telji að hún sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum.  Hann telji að hann hafi haft gildar ástæður fyrir uppsögn sinni.  Hann hafi alla tíð unnið þau störf sem boðist hafa, aðallega verkamannastörf ýmisskonar og umönnunarstörf á elliheimilum og sambýlum eins og sambýlinu S þar sem hann starfaði síðast.  Meðfram vinnu hafi hann stundað nám í menntaskóla og háskóla til að reyna að bæta stöðu sína til langframa.  Hann hafi lokið BA gráðu í samfélags- og hagþróunarfræðum í vor, en ástæða þess að hann hafi ekki útskrifast sé að hann áætli að skrifa BA ritgerð í nútímafræði.  Hann telji sig hafa gildar ástæður fyrir uppsögn sinni.  Hann þurfi að finna sér starf þar sem menntun hans nýtist sem best, ekki aðeins honum og fjölskyldu hans, heldur samfélaginu öllu.    Hann þurfi starf sem komi ekki niður á andlegri og líkamlegri heilsu hans.  Hann hafi verið á næturvöktum og þær hafi verið farnar að koma verulega niður á heilsu hans.  Auk þess hafi þau hjónin nýlega eignast dóttur sem sinna þurfi svo þau hafi ákveðið að það væri best fyrir fjölskyldueininguna að hann hætti á næturvöktunum.  Hann hafi verið í virkri atvinnuleit og bíði eftir svari frá nokkrum vinnuveitendum.  Að lokun segir hann að ljóst megi vera að starfinu sem hann hafi haft með höndum sé sinnt í dag, hugsanlega af einhverjum sem komi af atvinnuleysisskrá.  Slík tilfærsla á vinnuafli þyrfti ekki að vera á hans kostnað þar sem hann telji víst að í framhaldinu eigi þessar breytingar eftir að verða til góðs fyrir alla.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 11. ágúst 2006 frá sambýlinu S.  Þar segir að Y hafi m.a. starfað þar í 78,75% starfshlutfalli tímabilið 11. október 2005 til 13. ágúst 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hann hafi sjálfur sagt upp störfum.

 

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

2.

Kærandi vann sem starfsmaður á sambýli á næturvöktum í tæplega 80% starfshlutfalli.  Meðfram starfinu stundaði hann nám.  Að hans sögn sagði hann upp vegna þess að hann var að leita að starfi þar sem hann gæti nýtt menntun sína betur auk þess sem næturvaktirnar hentuðu illa fjölskyldulífi hans og voru farnar að koma niður á heilsu hans

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Launakjör, vinnutími og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra frá 30. september 2006 um að Y skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni