Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur felld úr gildi. Stóð skil á tryggingagjaldi.
Nr. 11 - 2007

Úrskurður

 

Hinn 4. apríl 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 11/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 7. mars 2007 að synja umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 5 janúar 2007.  Ákvörðunin var tekin með vísan til h-liðar 18. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar á grundvelli þess að Y hefði ekki staðið skil á tryggingagjaldi.

 

2.

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi dags. 22. febrúar 2007.  Í bréfi sínu segist hann hafa verið launþegi hjá félagi sínu B ehf. allt árið 2005.  Félagið sé nú gjaldþrota.  Hann hafi ekki stundað neina sjálfstæða starfsemi á árinu 2006.  Kærandi segist hafa skráð sig af launagreiðandaskrá og virðisaukaskattskrá og að hann skuldi ekkert tryggingagjald.

Í gögnum málsins liggur fyrir útskrift frá Lánstrausti.  Þar kemur fram að B ehf. hafi verið tekið til  gjaldþrotaskipta þann 9. mars 2006.  Skiptalok eru sögð þann 31. október 2006.  Kærandi var stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Samkvæmt staðfestingu frá sýslumanninum á Húsavík frá 14. mars 2007 greiddi kærandi sér laun í júlí 2004 og frá mars til og með desember á árinu 2005. Kærandi greiddi sér engin laun á árinu 2006.  Samkvæmt skattframtali greiddi kærandi sér laun að fjárhæð kr. 630.000 á árinu 2004 og kr. 3.121.211 á árinu 2005 eða kr. 312.121 á mánuði. Starfsemi kæranda var heildverslun.  Samkvæmt flokki B(5) í reglum skattstjóra um reiknað endurgjald á árinu 2005 átti kærandi að reikna sér kr. 299.000 í endurgjald á mánuði.

 

Niður­staða

 

1.

18. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar fjallar um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. 1. mgr. 18. gr. er svohljóðandi:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., sem uppfyllir eftirtalin skilyrði telst tryggður samkvæmt lögum þessum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra:

a.       er í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr.,

b.      er orðinn 16 ára að aldri en yngri en 70 ára,

c.       er búsettur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla,

d.      hefur heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,

e.       hefur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili skv. 19. gr. og starfsemi hans telst ekki vera hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó  V. kafla,

f.        hefur stöðvað rekstur, sbr. 20. gr.,

g.       leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr., og vottorð frá skóla þegar það á við, sbr. 3. mgr. 19. gr.,

h.       hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar,

i.         hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

 

19. gr. laga nr. 54/2006 fjallar um ávinnslu bótaréttar.  1., 2. og 4. mgr. 19. gr. eru svohljóðandi:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf  mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. skal taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr.

 

 

20. gr. laga nr. 54/2006 fjallar um stöðvun rekstrar og er svohljóðandi:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðandaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð.  Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattskrá ríkisskattstjóra.  Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattskrá vegna eignasölu, enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.

Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann  hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.       

 

            Í 24. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um þau tilvik er réttur til atvinnuleysistrygginga geymist.  1.- 3. mgr. 24. gr. eru svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum. 

Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. telst til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. eftir því sem við á.

Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur stafað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar, enda leiði ekki annað af lögum þessum.

 

 

           

 

2.

Kærandi rak eigið einkahlutafélag og greiddi sér laun í samræmi við reglur skattstjóra um reiknað endurgjald í einn mánuð á árinu 2004 og í 10 mánuði á árinu 2005. Hann stóð skil á tryggingagjaldi og staðgreiðslu af launum sínum þennan tíma.  Kærandi var ekki á vinnumarkaði á árinu 2006.  24. gr. laga nr. 54/2006 um geymdan bótarétt á því við um hann.  Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 54/2006 skal við útreikning á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. sömu laga þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hafði starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.

            Með hliðsjón af ofangreindu er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur felld úr gildi með vísan til f. og h liða 18. gr., 2. mgr. 20. gr. og 1. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 54/2006. Bótaréttur kæranda reiknast 83%.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Felld er úr gildi ákvörðun úrhlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 7. mars 2007 um synjun á umsókn Y um atvinnuleysisbætur.  Bótaréttur Y reiknast 83%.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Elín Blöndal                                          Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni