Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur vegna skorts á barnagæslu. Fellt úr gildi. Hefur barnagæslu.
Nr. 12 - 2007
Úrskurður
Hinn 4. apríl 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 12/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 27. febrúar 2007 að hafna umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 8. febrúar 2007 á grundvelli 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X væri ekki í virkri atvinnuleit þar sem hún hefði ekki gæslu fyrir barn sitt.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi þann 19. febrúar 2007. Í bréfi sínu segir hún að henni hafi verð synjað um atvinnuleysisbætur vegna þess að hún væri með barn á biðlista eftir leikskólaplássi og því væri talið að hún væri ekki í virkri atvinnuleit. Barnið sem hér um ræði eigi hins vegar tvo forsjáraðila. Hún hafi sótt um bætur daginn eftir að hún flutti til landsins frá Danmörku. Faðir barnsins hafi verið heima þá daga sem sótt var um bætur. Barnið sé þriggja ára gamalt og þau hafi verið með vilyrði fyrir leikskólaplássi á næstu dögum sem og hafi gengið eftir. Barnið byrjaði á leikskóla þann 15. febrúar 2007. Sambýlismaður hennar hafi haft vilyrði fyrir vinnu þegar þau fluttu til landsins. Hann hafi skrifað undir ráðningarsamning þann 14. febrúar sl. og hafið störf sama dag og barnið hóf leikskólagöngu sína. Faðir barnsins hafi því verið til staðar fyrir barnið allan þann tíma sem móðir sótti um atvinnuleysisbætur. Hann hefði einnig auðveldlega getað hafið störf 2-3 dögum seinna til að aðlaga barn sitt að leikskóla hefði móður boðist starf á sama tíma. Kærandi telur sig samkvæmt ofangreindu hafa verið 100% á vinnumarkaði þann tíma sem sótt var um bætur.
Í gögnum málsins liggur fyrir samningur um leikskólapláss hjá leikskólanum A fyrir dóttur kæranda dags. 26. febrúar sl. Þar kemur fram að leikskólagangan hófst þann 15. febrúar 2007. Einnig liggur fyrir ráðningarsamningur sambýlismanns kæranda við E. Þar kemur fram að samningurinn gilti frá 14. febrúar 2007.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 er skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að þeir séu í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna er kveðið á um virka atvinnuleit. Þar segir m.a. eftirfarandi:
,,Sá telst vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
a. er fær til flestra almennra starfa,
b. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og uppfyllir skilyrði annarra laga,
c. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
d. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem á Íslandi,
e. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu.
2.
Kærandi sækir um atvinnuleysisbætur daginn eftir að hún flytur til landsins frá Danmörku eða þann 8. febrúar sl. Kærandi hefur þá vilyrði fyrir leikskólaplássi fyrir barn sitt innan nokkurra daga og stóð það og eftir, barnið byrjaði á leikskóla þann 15. febrúar. Sambýlismaður kæranda var heima til þess dags er barnið byrjaði í leikskóla og hóf störf sama dag og barnið fór í gæslu. Barnið hefði því aldrei verið án gæslu ef móður hefði boðist atvinna á þessum tíma. Verður því ekki annað séð en að hún hafi haft vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. ákvæði c-liðar 14. gr. laga nr. 54/2006.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ekki séu skilyrði til að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeim grundvelli að hún sé ekki í virkri atvinnuleit samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 27. febrúar um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka