Bótaréttur felldur niður í 40 bótadaga. Fellt úr gildi. Bótaréttur þess í stað felldur niður ótímabundið. Er ekki í atvinnuleit.
Nr. 15 - 2007

 

Úrskurður

 

Hinn 4. apríl 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 15/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málavextir er þeir að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 14. mars 2007 að réttur X til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X hafnaði atvinnutilboði frá H ehf. þann 1. febrúar 2007.

 

2.

X kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótt. 13. mars 2007.  Í bréfi sínu segir hún að á sama tíma og atvinnutilboðið hafi borist hafi hún verið að leita sér að atvinnuhúsnæði til kaups eða leigu.  Hún hafi fengið tilboð um leigu á húsnæði en hafi frekar kosið að kaupa það þar sem greiðslubyrðin hafi verið sú sama.  Þetta hafi allt tekið sinn tíma og hafi hún skrifað undir þann 13. mars.  Eðli málsins samkvæmt hafi hún ekki getað tekið vinnunni í H enda hafi hugur hennar alltaf staðið til að opna sitt eigið fyrirtæki en hún sé snyrtifræðingur. Ef hún hefði tekið vinnunni í H þá hefði hún einungis unnið þar í nokkrar vikur, sem hefði einnig verið slæmt fyrir H.  Framkvæmdirnar við húsnæðið muni taka tvo mánuði. Hún stefni að því að hefja starfsemina í byrjun maí.  Það að atvinnuleit hennar sé að fullu lokið skýri að fullu höfnun hennar á vinnunni í H og þess vegna finnist henni rangt að setja hana á 40 daga bið.

Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá 15. janúar 2007 frá H ehf. um starf snyrtifræðings eða afgreiðslustarf í snyrtivöruverslun.  Samkvæmt atvinnutilboðinu hafnaði kærandi starfinu þar sem hún vissi að slæmt orð færi af atvinnurekandanum.    Kærandi skrifaði á atvinnutilboðið að hún treysti sér ekki til að starfa fyrir slíkan atvinnurekanda.   Í samskiptasögu kæranda hjá svæðisvinnumiðlun á Engjateigi segir að kærandi stefni að því að vinna sem snyrtifræðingur í eigin aðstöðu og að hún sé á fullu að undirbúa slíkan rekstur.  Starfsmaður úrskurðarnefndar hringdi í kæranda og fékk það staðfest að kærandi væri ekki lengur í atvinnuleit.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt a-lið 13. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna m.a. að þeir séu í virkri atvinnuleit.  Í 14. gr. laganna er kveðið á um virka atvinnuleit.  Þar segir m.a.eftirfarandi:

 

,,Sá telst vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

a.  er fær til flestra almennra starfa,

b.  hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og uppfyllir skilyrði annarra laga,

c. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,

d.  er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,

e.  er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu.

 

Í 57. gr. er kveðið á um viðurlög við því að hafna starfi eða atvinnuviðtali og segir þar eftirfarandi í 1. 3. mgr.:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.  Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

 

2.

Kærandi fékk tilboð þann 15. janúar um starf snyrtifræðings.  Í atvinnutilboðinu segir að kærandi hafi hafnað starfinu þar sem slæmt orð fari af atvinnurekandanum og að hún treysti sér ekki til að vinna hjá honum.  Í kæru segist kærandi hafa hafnað starfinu þar sem atvinnuleit hennar sé að fullu lokið.  Hún sé á fullu að undirbúa opnun á eigin snyrtistofu eftir tvo mánuði og hún hafi þegar keypt húsnæði undir starfsemina.  Hún áætli að opna í byrjun maí nk.

Skilyrði réttar til atvinnuleysisbóta er að einstaklingur sé í atvinnuleit.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og að sögn kæranda sjálfs er kærandi ekki í atvinnuleit og á því ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar að fella beri úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.  Bótaréttur kæranda er þess í stað felldur niður ótímabundið með vísan tila liðar 13. gr. og c og e liða 14. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.  Bótaréttur X er þess í stað felldur niður ótímabundið.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðaðgerða

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni