Synjun á að breyta E-301 vottorði þannig að ekki komi fram að um sjálfstæða starfsemi hafi verið að ræða staðfest.
Nr. 71 - 2006

 

 

Úrskurður

 

Þann 21. nóvember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 71/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að þann 21. febrúar 2006 ákvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga að endurupptaka og fella úr gildi fyrri úrskurð sinn frá 31. mars 2005 um synjun á umsókn X um útgáfu vottorðs E-301 til staðfestingar á íslenskum tryggingatímabilum hennar til aukningar á bótarétti hennar erlendis skv. 67. gr. reglugerðar EBE/1408/71.  Vottorð E-301 var í kjölfarið gefið út þann 3. mars 2006.  Í E-301 vottorðinu var þess getið að tryggingatímabil X á Íslandi hefðu verið við sjálfstæða starfsemi.

 

Í kjölfar útgáfu E-301 vottorðsins þann 3. mars 2006 skrifaði X Atvinnuleysistryggingasjóði bréf þann 9. maí 2006 og óskaði eftir því að vottorðinu yrði breytt með þeim hætti að ekki verði getið þess að tryggingatímabil sem staðfest var í vottorðinu hafi verið vegna sjálfstæðrar starfsemi, heldur einungis sagt þar sem geta á starfsheitis rannsóknir og þróunarstarf í félags- og hugvísindum

Atvinnuleysistryggingasjóður ritaði X bréf þann 3. ágúst 2006 og synjaði umbeðinni breytingu á útfyllingu vottorðsins og vísaði til þess að í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hafi verið kveðið á um að X hafi átt rétt á staðfestingu á starfs- og tryggingatímabilum með vottorði E-301, enda kæmi þar fram að hún hafi áunnið sér tryggingaréttindi hér á landi sem sjálfstætt starfandi.  Það félli síðan undir yfirvöld atvinnuleysistryggingamála erlendis, í tilviki X í Danmörku, að ákvarða hvort nefnd tryggingatímabil hennar hér á landi hefðu gildi sem tryggingatímabil samkvæmt erlendu löggjöfinni.

 

 

2.

 

X kærði ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 28. ágúst 2006 og fór fram á að gefið yrði út nýtt og leiðrétt vottorð um tryggingatímabil hennar á Íslandi árin 2002 til 2004  X segist telja röksemdafærslu Atvinnuleysistryggingasjóðs um útfyllingu vottorðsins ekki hafa verið rétta.  Í úrskurði úrskurðarnefndar hafi ekki komið fram á hvaða lagalegum forsendum þetta byggði.  X segir það beinlínis rangt að hún hafi farið fram á að E-301 vottorðið yrði gefið út til staðfestingar á vinnu hennar sem launþega.  Yfirvöld atvinnuleysistryggingamála í Danmörku hafi haft allar upplýsingar um hverskonar vinna lá að baki þeim tryggingatímabilum hennar á Íslandi sem staðfesta skyldi, þ.á.m. skattlagningu reiknaðs endurgjalds vegna tekna hennar frá R.   Hún fari fram á að gefið verði út gilt vottorð samkvæmt leiðbeiningu um útfyllingu E-301 vottorðins þannig að hún geti nýtt sér rétt sinn í Danmörku.  Í lið 4.1. á vottorðinu sé starf gefið upp sem self employed.   Samkvæmt skýringum  og leiðbeiningum við útfyllingu á þessum lið vottorðsins bæri einungis að tilgreina fjölda vinnustunda á þessum tímabilum.  Ekki væri hægt að mæla fjölda vinnustunda með self employed.  Rannssóknastöðustyrkurinn frá R hafi verið miðaður við heila stöðu og átti því að gefa upp vinnustundir samkvæmt því.  Þær séu heldur ekki gefnar upp við starf hennar sem stundakennari við H, þar sé einungis gefið upp starfshlutfall.

Við lið 5 á E-301 sé gefið dæmi um hvernig gefa skuli upplýsingar um eðli starfsins.  Samkvæmt því skuli gefa upp nákvæma lýsingu á starfi (sbr. múrari en ekki iðnaðarmaður.  Samkvæmt  íslenskri atvinnugreinaflokkun (ÍSAT 95) hafi hún unnið við rannsóknir og þróunarstarf í félags- og hugvísindum og segist X því telja að fræðimaður eða vísindamaður hefði verið rétt skýring á eðli starfsins en ekki self employed sem samsvari því að notað væri iðnaðarmaður.  Í svari Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi komið fram að hægt hefði verið að staðfesta sjálfstætt starfandi fræðimaður eða vísindamaður á vottorðinu, en þess jafnframt getið að það hefði engu breytt um bótaréttinn.  Einnig sé tekið fram að það séu yfirvöld atvinnuleysistryggingamála í Danmörku sem muni ákveða um aukningu á rétti hennar til atvinnuleysisbóta.   Að mati X hljóti Atvinnuleysistryggingasjóður þannig að vera að fara inn á ákvörðunarsvið danskra yfirvalda með því að ákveða að upplýsingar um eðli starfsins á E-301 vottorðinu breyti engu um bótarétt hennar.  Þar sem fram komi í svarinu að hægt sé að staðfesta eðli starfsins sem fræðimaður eða vísindamaður segist X hér með fara fram á að það verði gert og dönskum yfirvöldum verði svo látið eftir á ákvarða um aukningu á bótarétti skv. því.

X fer einnig fram á að ástæður starfsloka í lið 5.1  vottorðinu verði tilgreindar þannig að samningur hennar við R hafi verið útrunninn, og dönskum yfirvöldum verði svo látið eftir að ákvarða um aukningu á bótarétti skv. því.

X segir að hvergi sé gert ráð fyrir að greint sé á milli launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga á E-301 vottorðinu.  Um viðbótarupplýsingar sé að ræða og þarf að geta lagaheimildar ef slíkum upplýsingum sé bætt inn á vottorðið.  X segist einnig fara fram á  að gerð verði nákvæm grein  fyrir eðli starfsemi hennar sem rannsóknastöðustyrkþega R við H og ástæðum skattlagningar styrksins sem reiknaðs endurgjalds.  Það hafi verið eini möguleiki hennar til að ávinna sér rétt til félagslegra trygginga, þ.á.m. atvinnuleysistrygginga, og að auki skuli koma fram að hún hafi ekki verið virðisaukaskattskyld og hafi ekki  haft virðisaukanúmer.

 

Í bréfi dagsettu 24. október 2006 segist X kæra neitun á rétti hennar til atvinnuleysisbóta frá Íslandi tímabilið 1. september 2004 til 30. apríl 2005, og vísar X í bréf frá Atvinnuleysistryggingasjóði frá 3. ágúst sl.

 

Niðurstaða

 

1

 

 Svo sem fyrr segir komst úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 21. febrúar 2006 í máli nr. 85/2005, að heimilt væri að gefa út vottorð E-301 til staðfestingar á tryggingatímabilum í sjálfstæðri starfsemi sem og var gert.  Um þetta segir eftirfarandi í rökstuðningi nefndarinnar:

Í máli þessu er ekki ágreiningur um að kærandi hafi áunnið sér rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta hér landi með greiðslum tryggingagjalds sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Átti hún því rétt á staðfestingu á starfs- og tryggingatímabilum hér á landi með vottorði E-301 hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, enda komi þar fram að hún hafi áunnið sér tryggingaréttindi hér á landi sem sjálfstætt starfandi.  Það fellur síðan undir yfirvöld atvinnuleysistryggingamála í Danmörku að ákvarða hvort tryggingatímabil hennar hér á landi gildi sem tryggingatímabil samkvæmt þeirri löggjöf sem þau starfa eftir, sbr. 1. mgr. 67. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EB.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að ágreiningsmál um þetta efni hefur verið til meðferðar fyrir dönskum stjórnvöldum. Úrskurðarnefndin hefur metið það svo að ekki sé ástæða til annars en að þarlend stjórnvöld hafi allar upplýsingar um forsögu málsins uppi á borðinu. Með hliðsjón af þessu og fyrri niðurstöðu nefndarinnar telur úrskurðarnefndin að sjónarmið kæranda gefi ekki tilefni til að fella úr gildi þá ákvörðun Atvinnuleysistryggingarsjóðs að synja um útgáfu nýs vottorðs E-301 í því formi sem kærandi krefst. Ekki er tilefni til nánari umfjöllunar um kröfugerð kæranda að þessu leyti þar sem ljóst má vera að ekki er á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að blanda sér í málsmeðferð og ákvarðanatöku erlendra stjórnvalda.   

Varðandi ósk kæranda um að viðurkenndur verði réttur hennar til atvinnuleysisbóta frá Íslandi á meðan hún var búsett í Danmörku þá skal tekið fram að kærandi hefur aldrei sótt formlega um atvinnuleysisbætur á Íslandi.  Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 er skilyrði bótaréttar á Íslandi m.a. búseta í landinu.  Í gögnum málsins liggur fyrir að kæranda hafi m.a. verið leiðbeint um þetta atriði.  Með hliðsjón af þessu lítur úrskurðarnefndin svo á að leiðbeiningarskyldu hafi verið fullnægt og að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um bótarétt hér á landi á nefndu tímabili. Úrskurðarnefndin lítur svo á að í nefndu bréfi hafi ekki verið hafnað umsókn um atvinnuleysisbætur heldur fjallað um málið almennt. Af þessu leiðir að vísa ber erindi kæranda frá að þessu leyti.

 

Varðandi staðhæfingar kæranda um að stjórnsýsluréttur hafi verið brotinn á henni þá ber að taka fram eftirfarandi.  Kærandi segir að 7. gr. laga nr. 37/1993 um leiðbeiningaskyldu hafi verið brotin á henni með því að útskýra ekki fyrir henni sérreglu 71. gr. rgl. EBE/1408/71. 71. gr. átti ekki við í máli kæranda, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar frá 21. febrúar 2006.  Það að kæruheimildar hafi ekki verið getið hefur ekki valdið kæranda réttarspjöllum þar sem kæra barst innan kærufrests.  Úrskurðarnefndin tekur undir það að mál þetta hefur tekið óvenjulega langan tíma. Til þess ber þó að líta að málið er nokkuð flókið og töluverð gagnaöflun þurfti að fara fram í því skyni að upplýsa málið. Kæranda var tilkynnt í hvert skipti skriflega er fresta þurfti máli hennar til frekari gagnaöflunar hjá nefndinni.

 

            Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs um synjun á því að gefa út nýtt E-301 vottorð þar sem ekki kæmi fram að tryggingatímabil kæranda á Íslandi hafi verið vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 3. ágúst 2006 um synjun á útgáfu nýs E-301 vottorðs fyrir X.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni