Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna höfnunar starfstilboðs.
Nr. 2 - 2003

Úrskurður

 

Þann 29. janúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 2/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði ákvað á fundi sínum þann 10. desember 2002 að B skyldi sæta 40 bótadaga niðurfellingu bótaréttar samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997.  Þar segi að það valdi missi bótaréttar í 40 bótadaga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.  Ákvörðun úthlutunarnefndar var byggð á því að A hafði hafnað atvinnutilboði frá B hf.

 

2.

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 23. desember 2002.  Í bréfi sínu segir hún að þar sem hún sé búsett á B sé algjörlega útilokað fyrir hana að starfa á P.  Hún geti ekki keyrt á milli að vetrarlagi, yfir tvö mjög hála fjallvegi sé að fara og það komist hún ekki á litlum fólksbíl. Úthlutunarnefndin hafi lagt til að hún flytti til P.  Hún vilji í fyrsta lagi helst ekki flytja til P, í öðru lagi sé hún með mikla búslóð og geti ekki flutt með svo stuttum fyrirvara og í þriðja lagi sé trúlegt að hún fái vinnu á B eftir áramót.

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda að ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.

Þá er einnig bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.

 

A byggir kröfu sína um niðurfellingu á ákvörðun úthlutunarnefndar á því að vegna fjarlægðar milli heimilis hennar og vinnustaðarins hafi ekki verið hægt að ætlast til þess að hún þæði umrætt atvinnutilboð.  Í bréfi frá úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Vestfirði dags. 30. desember 2002 segir að A hafi misst starf sitt við fiskvinnslu á T 30. september 2002.  Rúmum mánuði síðar fékk hún atvinnutilboð frá fiskvinnslunni á P sem sé 16 km frá T en 35 km frá B.  Tilboðinu fylgdu upplýsingar um að þar væri mikið af lausu og ódýru leiguhúsnæði.  Í bréfinu segir að A hafi tjáð starfsmanni svæðisvinnumiðlunar að hún ætti erfitt með að leigja húsnæði á B vegna atvinnuleysis.  Hún sé barnlaus og hafi verið nýflutt á B þrátt fyrir að þar sé enga vinnu að hafa.  Á sama tíma hafi verið næg atvinna á P sem sé aðeins í 16 km fjarlægð frá þeim stað sem hún áður bjó og starfaði á.  Hún hafi hafnað starfinu hjá X þrátt fyrir það að ekki væri annað fyrirsjáanlegt en að meiri samdráttur yrði í atvinnu á B m.a. vegna lokunar rækjuvinnslu.  Hún hafi ekki sett nein skilyrði um staðsetningu í atvinnuumsókn.  Hún hafi áður starfað á T og fengið atvinnutilboð frá næsta þéttbýlisstað í 16 km fjarlægð.  Fram kemur í bréfinu að B og P eru í sama sveitarfélagi, V. 

 

Að teknu tilliti til framanritaðs eru ekki skil­yrði að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta til að fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu á ákvörðun úthlutunarnefndar.  B og P teljast til sama atvinnusvæðis.  Kærandi er ógift og barnlaus 26 ára gömul kona sem hefur aðeins búið skamma hríð á B.  Áður bjó hún á T sem er næsti  þéttbýlisstaður við P, í 16 km fjarlægð.  Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta fyrir Vestfirði frá 10. desember 2002 um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni