Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadga, höfnun starfstilboðs.
Nr. 23 - 2003
Úrskurður
Hinn 17. mars 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 23/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Suðurnes ákvað á fundi sínum þann 3. febrúar 2003, að réttur A skyldi felldur niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 þar sem segir að það valdi missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar. Í bréfi úthlutunarnefndar, dags. 3. febrúar 2003, er vísað til þess að A hafi hafnað atvinnutilboði frá X sem dagsett var þann 24. janúar 2003.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 26. febrúar 2003. Í bréfi hennar segist hún vera ósátt við þessa ákvörðun. Hún hafi kannað málið hjá ASÍ og verið sagt að hún mætti neita tvisvar og síðan hafi þeir hjá svæðisvinnumiðlun sagt að það mætti neita um vinnu fyrstu fjórar vikurnar, en hún hafi aðeins verið búin að vera á bótum í tvær vikur. Síðan hafi henni ekki þótt þetta vera vinna í líkingu við það sem hún hafði verið í, en hún hafi áður unnið í mötuneyti.
3.
Samkvæmt starfsmanni svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja, sbr. bréf dags. 28. febrúar 2003, kemur fram að rætt var við eiginmann kæranda sem tjáði starfsmanninum um að kærandi hefði enga von um að fá vinnu í sinni starfsgrein á næstunni. Í sama bréfi kemur fram að kærandi var settur á bið frá 31. janúar 2003 en þá hafi vantað þrjá daga ummá að kærandi hafi verið á skrá í fjórar vikur. Fram kemur í umsókn kæranda að hún hafi áður unnið við fiskvinnslu.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.
Þá er bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa. Þetta skilyrði er áréttað frekar í a-lið 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
2.
Í 2. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að bótaréttur falli ekki niður þótt sá sem notið hefur bóta í skemmri tíma en fjórar vikur hafni vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, enda séu góðar líkur á að hann muni fá vinnu í sinni starfsgrein. Þessi grein heimilar ekki atvinnuleitanda fortakslaust að hafna vinnu á fyrstu fjórum vikum sem hann hefur notið bóta. Bótaþegi þarf að sýna fram á að hann eigi von á starfi í sinni starfsgrein innan tíðar og getur úthlutunarnefnd í þessu skyni krafist þess að hann leggi fram einhver gögn, s.s. vinnutilboð þessu til staðfestu.
3.
Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta bendir á að í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit sinni stendur. Sú atvinnuleit má ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa komi til greina með þeim hætti að önnur störf séu útilokuð.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta lítur svo á að ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar um skyldu atvinnuleitanda og bótaþega til að taka starfi sem býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar að viðlögðum bótamissi samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 hafi enga þýðingu nema lagt sé að jöfnu bein höfnun á atvinnutilboði og fyrirvari gagnvart starfi sem lýtur að verksviði eða starfslýsingu. Að mati úrskurðarnefndar var hér um að ræða almennt starf á íslenskum vinnumarkaði sem var sambærilegt starfi sem kærandi hafði unnið áður. Engin gögn liggja fyrir sem sýna fram á það að góðar líkur hafi verið á því að kærandi mundi fá vinnu í þeirri starfsgrein sem hún óskaði eftir, þ.e.a.s. mötuneyti eða verslun, á næstunni. Það er því mat úrskurðarnefndar að kæranda hafi borið að þiggja starfið.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Suðurnes frá 3. febrúar 2003 um niðurfellingu bótaréttar A til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka