Niðurfelling bótaréttar í 60 bótadaga. Missir starf af ástæðum sem hún á sjálf sök á. Ítrekun. Staðfest.
Nr. 68 - 2006

Úrskurður

 

Þann 21. nóvember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 68/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta samþykkti á fundi sínum þann 26. september 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 7. júlí 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 7. september 2006 um starfslok hennar hjá V ehf. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 60 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 5. október 2006.   Í bréfinu segist hún telja að önnur ástæða en mætingar hafi legið að baki því að henni var sagt upp störfum.  Þegar hún hafi komið of seint hafi hún alltaf unnið lengur í staðinn.  Hún hafi starfað í tvo mánuði í sumar hjá fyrirtækinu.  X segir að hún  hafi unnið vel og að vinnuveitandinn hafi tjáð henni það.  Eftir sumarið hafi hins vegar engin stór verkefni verið framundan.  Fyrirtækið hafi því ekki þurft á starfskröftum hennar að halda lengur og þess vegna hafi henni verið sagt upp.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá V ehf. frá 7. september 2006.  Þar segir að X hafi starfað sem sölumaður hjá fyrirtækinu tímabilið 1. ágúst til 7. september.  Ástæða starfsloka er sögð uppsögn.  Samkvæmt símtali starfsmanns úrskurðarnefndar við vinnuveitandann staðfesti hann að aðalástæða uppsagnarinnar hafi verið lélegar mætingar þó verkefnin séu reyndar færri yfir vetrartímann.  Í gögnum málsins kemur einnig fram að bótaréttur X var felldur niður í 40 bótadaga þann 1. apríl 2005 vegna starfsloka hjá B.

 


Niður­staða

 

1.

54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur, fjallar um starfslok.  1. mgr. 54. gr. er svohljóðandi:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

 

56. gr. X. kafla laganna  fjallar um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma. 1. mgr. 56. gr. er svohljóðandi:

 

Sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 54. eða 55. gr. eða viðurlögum skv. 57.-59. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og sagt því starfi upp er hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 60 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku seinni umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama á við um þann sem hefur misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.

 

2.

Kærandi vann sem sölumaður hjá V ehf.  Að sögn atvinnurekandans var henni sagt upp vegna þess að hún mætti oft of seint.  Um ítrekun var að ræða þar sem hún hafði hætt starfi án gildra ástæðna á árinu 2005.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur. 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 60 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta frá 26. september 2006 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 60 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni