Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga felld úr gildi. Var boðin vaktavinna. Er með ungabarn. Fellt úr gildi.
Nr. 66 - 2006

 

Úrskurður

 

Hinn 17. október 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 66/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta ákvað á fundi sínum að réttur X til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X hafnaði atvinnutilboði frá S þann 8. febrúar 2006 á þeirri forsendu að hún væri í endurhæfingu.  Sama dag breytti hún umsókn sinni í 50% starf en áður hafði hún óskað eftir 100% starfi.  Þann 27. mars 2006 breytti hún umsókn sinni aftur og óskaði eftir 100% starfi.  Síðan hafi komið fram í læknisvottorðum dags. 29. júní 2006 og 3. ágúst 2006 að hún hafi ekki leitað læknis vegna slyss eða sjúkdóms á þessum tíma og að hún sé 100% vinnufær.

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 21. september 2006.  Í bréfi sínu segist hún hafa farið á vinnumiðlun og spurst fyrir um vinnu sem hún hafði áhuga á.  Hún hafi einungis verið að spyrjast fyrir um vinnuna en ekki að sækja um hana.  Hún hafi spurt hvar vinnustaðurinn væri og hvernig vinnutímanum væri háttað.  Henni hafi skilist að um tvískiptar vaktir væri að ræða. Mætt væri kl. 8 á morgnana og síðan aftur seinni partinn sama dag. Þar sem hún sé með 18 mánaða gamalt barn og hafi ekki leikskólavist hafi hún ekki getað tekið þessari vinnu.  Hún segist enda aldrei hafa talið sig hafa sótt um þessa vinnu.  Hún hafi aldrei verið boðuð í viðtal vegna vinnunnar og aldrei verið beðin um að tala við yfirmann um hvenær ætti að hefja vinnuna.  Af þessum sökum segist X ekki telja að hún hafi hafnað vinnu. Um mistök við skráningu hafi verið að ræða.

            Í gögnum málsins liggur fyrir verkbeiðni frá S.  Samkvæmt verkbeiðninni er um vaktavinnu við umönnun að ræða, annars vegar frá kl. 8 til 16 og hins vegar frá kl. 15:30 til 23.  Í verkbeiðninni segir að helgarvaktir séu einnig á lausu.  Samkvæmt upplýsingum á dagpeningavottorði dags. 13. febrúar sl. hafnaði hún tilboðinu þar sem hún væri ekki lengur að leita að 100% vinnu heldur 50% vinnu og að hún væri í endurhæfingu.  Í öðru dagpeningavottorði kemur fram að þann 27. mars hafi hún breytt umsókn sinni og óskað eftir 100% vinnu. Einnig kemur fram að hún hafi ekki skilað inn vottorði um endurhæfingu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnurekandanum var verið að leita að fólki til vaktavinnustarfa, þ.e. morgunvaktir og kvöldvaktir til skiptis.  Einnig var gerður áskilnaður um að starfsmaðurinn tæki öðru hvoru að sér helgarvaktir.  X hafi sagt að hún gæti ekki tekið þessu starfi þar sem hún hefði ekki gæslu fyrir ungt barn sitt á þessum tíma.  Samkvæmt atvinnurekandanum var ekki hægt að breyta vinnutímanum þannig að aðeins dagvaktir stæðu til boða.

 

Niður­staða

 

1.

 

Þann 1. júlí sl. tóku gildi ný lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en um mál þetta fer samkvæmt eldri lögum nr. 12/1997, þar sem atvik þess gerast á gildistíma þeirra.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.

Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:

 

,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni.  Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn. 

 

2.

 

Kærandi er missaga um ástæðu þess að hún tók ekki framkomnu atvinnutilboði.  Er hún fékk tilboðið sagðist hún ekki geta tekið vinnunni þar sem hún væri í endurhæfingu og hún væri ekki lengur að sækja um fulla vinnu heldur 50%. Er bótaréttur hennar er síðan felldur niður 28. ágúst 2006 í 40 daga vegna höfnunar á atvinnutilboðinu í febrúar 2006 segir hún að hún hafi ekki getað þegið vinnuna vegna þess að hún hafi ekki haft pössun fyrir ungt barn sitt.  Samkvæmt atvinnurekandanum bar hún fyrir sig skort á barnagæslu er hún hafnaði starfinu.

Ekki verður talið að skortur á dagheimilisplássi sé gild ástæða fyrir starfslokum eða höfnun á vinnu ef um er að ræða vinnu á venjulegum dagvinnutíma.  Venjulegur dagvinnutími telst vera á tímabilinu frá kl. 08:00 til 18:00, og verða bótaþegar að vera reiðubúnir að taka vinnu sem fellur innan þessara tímamarka.  Kæranda var hins vegar boðin vaktavinna, morgun- og kvöldvaktir til skiptis.  Kærandi átti ekki kost á öðrum vinnutíma á þessum vinnustað og hafnaði því tilboðinu þar sem hún hafði ekki barnagæslu. Að mati úrsurðarnefndar atvinnuleysisbóta hafði kærandi því gilda ástæðu til að hafna atvinnutilboðinu.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr 13. gr. og . 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997.

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 28. ágúst 2006 um að X skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga. 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.