Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi til að fara í skóla. Hættir síðan við skólagöngu. Staðfest.
Nr. 65 - 2006

Úrskurður

 

Þann 17. október 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 65/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd atvinnuleysisbóta samþykkti á fundi sínum sem haldinn var 31. júlí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 4. júlí 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 10. júlí 2006 um starfslok hennar hjá R var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 13. ágúst 2006.   Í bréfinu segist hún ekki vera sátt við að hafa verið sett á 40 daga bið eftir atvinnuleysisbótum á þeim forsendum að hún hafi sagt starfi sínu lausu.  Hún hafi sagt upp starfi sínu vegna þess að hún hafði ætlað sér í skóla í haust, nánar tiltekið á hárgreiðslubraut í Iðnskólanum.  Síðan hafi hún uppgötvað að hún væri þunguð og að áætlaður fæðingardagur væri 11. nóvember.  Hún hafi gert sér grein fyrir því að hún gæti ekki verið í skóla með ungabarn.  Því hafi hún dregið uppsögn sína til baka.  Hún hafi talað við yfirmann sinn á leikskólanum K.  Yfirmaðurinn hafi sagt að uppsögnin stæði og að hún myndi ekki nýtast þeim.  X segist telja að hún hafi staðið sig vel í þessari vinnu þar sem hún hefur starfað sl. tvö ár.  Í byrjun hafi hún verið aðstoðarmaður í eldhúsi og síðan yfirmaður í eldhúsinu.  X segir að ekki hafi enn verið ráðið í starf hennar og lætur auglýsingu um starfið frá  9. ágúst sl. fylgja kæru sinni .  Hún hafi leitað sér að vinnu á ýmsum stöðum en ekkert fengið þar sem atvinnurekendur séu ekki tilbúnir að ráða konur í þeirri stöðu sem hún sé nú í. 

Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði samband við leikskólastjóra K símleiðis þann 13. október sl.  Að sögn leikskólastjórans sagði X upp störfum í febrúar sl. og ætlaði að hætta stöfum þann 1. maí.  Hún hefði sagt að hún ætlaði í skóla um haustið.  Hún hafi komist að því um vorið að hún væri þunguð og hafi þá óskað eftir að fá að draga uppsögnina til baka.  Henni hefði verið boðinn tímabundinn samningur til 17. júlí er leikskólinn lokaði vegna sumarleyfa. X  hafi þá sagt að hún gæti einungis unnið til 16. júní vegna þess að þá væri hún að fara til útlanda með fjölskylduna.  Síðasti vinnudagur hennar hafi verið 16. júní.  Leikskólastjórinn segir einnig að X hafi minnst á það að í fyrri meðgöngu sinni hafi hún verið mikið frá vegna veikinda. 

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá R frá 10. júlí 2006.  Þar segir að X hafi starfað hjá R til 17. júní 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sagt sjálf upp störfum. 

 

Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. nýrra laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi 1. júlí sl.,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

 

2.

Kærandi vann í eldhúsi í leikskóla.  Hún sagði upp starfi sínu í febrúar og ætlaði að hætta 1. maí.  Hún kveðst hafa sagt upp störfum vegna þess að hún væri að fara í skóla.  Hún hafi síðan komist að því að hún væri þunguð og að hún ætti von á sér 11. nóvember.  Hún hafi hætt við skólanámið vegna þungunarinnar og bað um að fá að draga uppsögn sína til baka.  Starfslok kæranda voru þann 16. júní sl., þar sem hún fékk tímabundna ráðningu í framhaldi af því að hún komst að því að hún gengi með barn en kærandi hafði áður áætlað að hætta starfi 1. maí eða fjórum mánuðum áður en hið fyrirhugaða nám átti að  hefjast.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. 

 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta  um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta frá 31. júlí 2006 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.