Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga ásamt synjun um tekjutengingu. Segir sjálf upp starfi. Staðfest.
Nr. 63 - 2006

Úrskurður

 

Þann 21. nóvember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 63/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu samþykkti þann 23. ágúst 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 8. ágúst 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 8. ágúst sl. um starfslok hennar hjá L var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Úthlutunarnefndin synjaði X einnig um tekjutengingu bóta  með vísan til laganna.

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 6. september 2006.   Í bréfinu segist hún krefjast þess að litið verði á starfslokin sem uppsögn atvinnurekanda.  Það hafi sannarlega legið fyrir gildar ástæður fyrir uppsögninni.  Starfsskilyrði hafi verið slæm á vinnustaðnum og hún hafi þurft að standa við vinnu sína allan daginn.  Af félagslegum ástæðum sem tengjast umönnunarskyldu gagnvart nánum ættingja hafi hún óskað eftir því í desember 2004 að þurfa ekki að vinna yfirvinnu. Hún hafi jafnvel boðist til að skipta um vinnustað ef það hentaði atvinnurekandanum betur.  Hann hafi hafnað bón hennar og m.a.s. aukið yfirvinnu hennar sumarið 2005.  Af þessum sökum hafi hún ekki séð sér annað fært en að segja upp starfi sínu.

           

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá L frá 8. ágúst 2006.  Þar segir að X hafi starfað sem lyfjafræðingur hjá stofnuninni tímabilið 1. september 2003 til 30. apríl 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Einnig liggur fyrir ráðningarsamningur X frá 27. ágúst 2001.  Þar segir að um fullt starf sé að ræða og að laun séu greidd samkvæmt sérstökum samningi.  Ekki er minnst á yfirvinnu í samningnum. Í málinu liggja fyrir launaseðlar X fyrir tímabilið september 2005 til apríl 2006.  Samkvæmt launaseðlunum hefur hún unnið að meðaltali 10 tíma í yfirvinnu á mánuði.

Samkvæmt tölvupósti frá yfirmanni X frá 25. september sl. skipta lyfjafræðingar verslunarinnar með sér yfirvinnunni, en verslunin er opin til kl. 19.  X hafi haustið áður en hún hætti sagst vilja vera í 90% vinnu og hætta kl. 16.  Henni hafi verið sagt að það væri ekki framkvæmanlegt á þessum vinnustað og að ef hún vildi minnka við sig vinnuna yrði að færa hana til innan fyrirtækisins.  Samkvæmt yfirmanninum nefndi X við hann að hún væri óánægð með stjórnendur L, hún hafi reyndar oft beðið um launahækkun en ekki fengið.

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. í X. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

            Ákvæði 32. gr. laganna fjallar um tekjutengdar atvinnuleysisbætur.  9. mgr. 32. gr. er svohljóðandi:

Hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skal ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu.

 

 

 

 

2.

 

Kærandi vann sem lyfjafræðingur hjá L.  Hún vann að meðaltali 10 yfirvinnustundir í mánuði.  Samkvæmt yfirmanni kæranda urðu lyfjafræðingar verslunarinnar að skipta með sér að vera til kl. 19 er verslunin lokaði.  Kærandi fór fram á að fá að sleppa við að vinna yfirvinnu, en þeirri beiðni var hafnað á þeim forsendum að það væri ekki framkvæmanlegt á þessum vinnustað.  Kærandi  sagði í kjölfarið upp starfi sínu.  Að sögn yfirmanns hjá fyrirtækinu hefur það margar verslanir á sínum snærum og telur hann að ekki hefði verið neitt vandamál að færa hana í starfi þar sem ekki var þörf á yfirvinnu.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Samkvæmt ofansögðu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta  að þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum teljist ekki gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. 

 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.  Einnig er staðfest sú ákvörðun að kærandi skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum með vísan til 9. mgr. 32. gr. laganna.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 23. ágúst 2006 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga ásamt synjun á rétti X til tekjutengingar.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni