Niðurfelliing bótarétttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildrar ástæðu.
Nr. 62 - 2006
Úrskurður
Þann 17. október 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 62/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta samþykkti á fundi sínum sem haldinn var 4. ágúst 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 9. ágúst 2006 um starfslok hennar hjá J var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 1. september 2006. Í bréfinu vísar hún í greinargerð eiginmanns síns þar sem fram komi að hún hafi haft gildar ástæður til að segja upp starfi sínu. Hún hafi þurft að þola óréttmætt álag og verið mjög ósátt með vinnutilhögun. Að auki hafi nýverið komið upp sú krafa að hún framvísi læknisvottorði vegna minnstu fjarveru vegna veikinda. Í greinargerð eiginmanns X kemur fram að hún hafi verið aðstoðarmaður í eldhúsi leikskólans. Síðasta mánuðinn sinn í starfi hafi hún einnig starfað sem kokkur. Einhverju sinni hafi hún farið fram á það við forstöðukonuna að hún bæði starfsfólkið um að raða ekki þungum stöflum af diskum í neðstu hillu matarvagnanna vegna þyngsla við að raða þeim í þvottavélina. Forstöðukonan hafi tekið þessari beiðni illa og sagst vera orðin þreytt á eilífum kvörtunum hennar. X hafi þá spurt hvort hún vildi að hún hætti og fengið þau svör að hún skyldi gera það sem hún vildi. Þetta telji hún þvingaða uppsögn en forstöðukonan túlki þetta svo að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Í bréfi sínu segir eiginmaður X að hann hafi í tvígang talað við starfsmann Eflingar. Annars vegar vegna þess að X hafi ein þurft að vinna tveggja manna starf vikum saman. Hins vegar vegna þess að X hafi þurft að framvísa læknisvottorði vegna minnstu veikinda, og það jafnvel þótt fjarvistir hennar vegna veikinda næðu að meðaltali ekki einum degi í mánuði. Eiginmaður X segist efast um að nokkur annar starfsmaður Reykjavíkurborgar þurfi að sæta slíkum afarkostum.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá J frá 9. ágúst 2006. Þar segir að X hafi starfað sem aðstoðarmatráður tímabilið 1. september 2005 til 3. ágúst 2006. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Samkvæmt upplýsingum forstöðukonu J sagði X upp störfum vegna óánægju í starfi. Venjulega hafi verið starfandi kokkur í eldhúsinu ásamt X. Er hann forfallaðist var X ein í eldhúsinu en þá var venjulega fenginn matur annars staðar frá og ekki eldað á staðnum. Í örfá skipti hafi hún þurft að sjá um matseld, en í þau skipti hafi hún einungis eldað fyrir 25 börn í stað þeirra 100 sem kokkurinn hafði eldað fyrir.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi 1. júlí sl., fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.
2.
Kærandi vann sem aðstoðarmatráður á leikskóla. Samkvæmt forstöðukonu leikskólans valdi kærandi sjálf að segja upp vegna óánægju í starfi. Kærandi leitaði símleiðis til stéttarfélags síns, en samkvæmt starfsmanni Eflingar þáði hún ekki að mæta á fund með stéttarfélaginu. Hún hætti störfum í kjölfarið og hafði ekki frekara samband.
Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar staðfest.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 3. ágúst 2006 um að X skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka