Kærir 34% bótarétt. Vill fá nám metið sem 100% vinnu. 34% bótaréttur staðfestur.
Nr. 59 - 2006

Úrskurður

 

Þann 17. október 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 59/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta samþykkti á fundi sínum sem haldinn var 28. júlí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 7. júlí 2006.  Jafnframt ákvað nefndin að bótahlutfall X væri 34%.

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 23. ágúst 2006. Hún segir að fram hafi komið í rökstuðningi sem fylgdi ákvörðun úthlutunarnefndar að nám hennar hafi ekki verið viðurkennt til hækkunar bótaréttar hennar.  Hún hafi stundað 100% nám við M sl. vetur á félagsfræðibraut.  Með náminu hafi hún unnið 33% starf í Þ.  Hún hafi unnið á vöktum þriðju hverja helgi og alla mánudaga frá kl. 17-22.  Hún telji sig því eiga fullan rétt til atvinnuleysisbóta.  Úthlutunarnefndin telji hins vegar að námið veiti henni engan rétt. Nefndin byggi ákvörðun sína væntanlega á 6. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Þar komi fram að heimilt sé að taka tillit til starfs sem unnið sé með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu launamanns, en þá teljist námið ekki til vinnuframlags hans skv. 3. gr. laganna.  X bendir á að einungis sé um heimild að ræða sbr. frumvarp til laganna.  Í umsögn um 15. gr. segi í frumvarpinu: Hafi námsmaður unnið með námi er honum heimilt að fá það starf metið og kemur sú ávinnsla þá í stað réttindaávinnslu vegna náms skv. 3. mgr.  Af þessum sökum telur X að meta skuli nám hennar sem sé 100% til 100% starfshlutfalls sbr. c-lið 3. gr. sömu laga.  X segist óska eftir því að bótaréttur hennar verði metinn með hliðsjón af þessu. 

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Þ frá 7. júlí 2006.  Þar segir að X hafi starfað sem sundlaugarvörður tímabilið 15. ágúst 2005 til 15. júní 2006 og að hún hafi að meðaltali unnið 41 vinnustundir á mánuði.  Samkvæmt staðfestingu frá M frá 1. ágúst sl. lauk X 21 einingu á haustönn 2005 og 18 einingum á vorönn 2006, sem samsvarar fullu námi.  Samkvæmt umsókn X um atvinnu, þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og atvinnuleysistryggingar, frá 7. júlí 2006, segir X að hún hafi lokið 13. eininga námi sem stuðningsfulltrúi og að hún eigi 33 einingar eftir til stúdentsprófs við M.  Einnig kemur fram í umsókn um atvinnu frá 27. júní 2005 að hún hafi lokið námi sem stuðningsfulltrúi við B árið 2003.  Í tilkynningu X um að atvinnuleit sé hætt frá 23. ágúst 2006 segir hún ástæðuna vera þá að hún sé að fara að ljúka lokaári við M.  Samkvæmt bréfi frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða frá 20. september 2006 segir að X reiknast með 34% bótarétt.  Ekki hafi verið unnt að hækka bótarétt hennar vegna náms þar sem hún hafi ekki lokið námi og er vísað í 15. gr. laga nr. 54/2006.           

 


Niður­staða

 

1.

í 15. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er fjallað um ávinnslu bótaréttar.  1. og 2. mgr. 15. gr. kveða á um ávinnslu bótaréttar launamanna.  Ákvæðin eru svohljóðandi:

 

Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.

 

Launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

 

            Í 3. mgr. 15. gr. er fjallað um ávinnslu bótaréttar vegna náms.  Ákvæðið er svohljóðandi:

Nám, sbr. c-lið 3. gr., sem launamaður hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.  Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað námið og lokið því.  Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr.

 

            6. mgr. 15. gr. hljóðar svo:

            Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu launamanns, en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans skv. 3. mgr.

 

            Í c-lið 3. gr. laganna segir að með námi sé átt við 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, sem standi samfellt í a.m.k. sex mánuði.  29. gr. laganna  fjallar um lengd bótatímabils og segir að hvert bótatímabil geti einungis verið þrjú ár.  Er bótaþegi hefur þegið bætur í samtals þrjú ár getur nýtt þriggja ára bótatímabil fyrst hafist að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hinn tryggði starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk, sbr. 30. gr. laganna.

 

2.

Kærandi vann í 34% starfi með fullu námi.  Bótaréttur kæranda var metinn 34%.  Ekki var tekið tillit til náms kæranda til aukningar á bótarétti, enda segir skýrlega í 3. mgr. 15. gr. laganna að til að meta megi nám til vinnuframlags þá verði náminu sannanlega að hafa verið lokið.  Kærandi hefur ekki lokið stúdentsprófi og því ekki lokið náminu í skilningi laganna sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006.  Samkvæmt umsókn hennar hjá svæðisvinnumiðlun á hún eftir eitt ár í námi áður en hún lýkur stúdentsprófi.  Því voru ekki lagaskilyrði til að meta nám kæranda til vinnuframlags.  Að auki getur fullt nám hæst verið metið til 13 vikna vinnuframlags, sem svarar til 25% bótaréttar.  Samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laganna er heimilt að meta vinnuframlag með námi til bótaréttar, en þá skal ekki meta námið til vinnuframlags.  Það verður því að velja annað hvort námið eða starfið til bótaréttar ef það er stundað á sama tíma, ekki er hægt að nýta bæði samtímis.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta um 34% bótarétt kæranda staðfest með vísan til 2. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta frá 28. júlí 2006 um 34% bótarétt X.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.