Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildra ástæðna.
Nr. 47 - 2006

Úrskurður

 

Þann 28. ágúst 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 47/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 23. maí 2006 að fella niður bótarétt Y í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils vegna starfsloka hans hjá S ehf. á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 30. maí 2006.  Hann hafi sagt upp störfum hjá S ehf. í byrjun nóvember 2005.  Hann hafi unnið út uppsagnarfrest sinn og hafi síðasti vinnudagur hans verið 28. febrúar.  Hann hafi farið í nokkur atvinnuviðtöl og reiknaði með því að vera kominn með nýja vinnu skömmu eftir að uppsagnarfresti væri lokið.   En raunin hafi verið önnur og nýtt starf hafi aðeins látið á sér standa.  Ástæður uppsagnar hans hafi verið nokkrar.  Ein ástæðan  hafi verið dónaskapur framkvæmdastjóra fyrirtækisins í hans garð.  Óreiða hafi verið í innri stjórnun fyrirtækisins sem hafi m.a. leitt til þess að hann hafi ekki lengur talið sig geta svarað viðskiptavinum af heilindum um þá þjónustu sem þeir óskuðu eftir.  Mörg dæmi hafi verið um að framkvæmdastjóri hafi sagst hafa sagt hluti sem enginn kannaðist við og hann hafi svarað tölvupósti frá honum er varðaði málefni fyrirtækisins, viðskiptavina eða starfsmanna seint eða alls ekki.  Skrifstofur fyrirtækisins hafi flutt í annað húsnæði.  Verslunin þar sem hann var verslunarstjóri var þó áfram á gamla staðnum.  Ræstingakonan hafi flutt á nýja staðinn.  Þegar hann hafi rætt ræstingarmál við framkvæmdastjórann hafi hann sagt að hann gæti bara sjálfur skúrað búðina sem er vel yfir 300 fermetrar og klósettið, það yrði enginn ráðinn í það starf og það væri útrætt mál.  Y vill einnig nefna að margir starfsmenn hafi sagt upp störfum þau tvö ár sem  hann hafi starfað hjá fyrirtækinu.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitendavottorð dags. 21. apríl 2006 frá S hf.   Þar segir að Y hafi starfað sem verslunarstjóri hjá fyrirtækinu tímabilið 1. nóvember 2003 til 31. janúar 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að Y hafi sjálfur sagt upp störfum.

 


Niður­staða

 

1.

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um at­vinnu­leysis­tryggingar, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997, um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir eftirfarandi: 

 

 

Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

2.

Kærandi sagði upp starfi sínu sem verslunarstjóri hjá S hf. vegna þess að hann var óánægður með yfirmann sinn og innri stjórnun fyrirtækisins.

Í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997.

 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 23. maí 2006 um að Y skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.