Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka.
Nr. 57 - 2006
Úrskurður
Þann 28 . ágúst 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 57/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum sem haldinn var 26. júlí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 3. júlí 2006 um starfslok hennar hjá A ehf. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 15. ágúst 2006. Í bréfinu segist hún telja sig hafa haft gilda ástæðu til uppsagnar. Þann 7. febrúar 2005 hafi hún ráðið sig sem launafulltrúa og bókhaldara hjá fyrirtækinu A ehf. Þann 31. mars sl., um klukkustund áður en hún hafi verið að fara í sumarfrí, hafi fyrrverandi yfirmaður hennar tilkynnt henni að búið væri að ráða annan starfsmann í starf hennar og myndi sá vera kominn til starfa þegar hún kæmi aftur. Hún hafi átt að fara í algerlega óskylt starf við innkaupaskráningu. Hún hafi engan ávinning haft af þessum breytingum og hafi ekki verið upplýst um þetta breytta starfsfyrirkomulag á neinn hátt. Engar athugasemdir hafi áður verið gerðar við starf hennar, henni hafi þvert á móti verið tilkynnt í starfsviðtali í nóvember sl. að ánægja væri með störf hennar. Hún hafi gert athugasemdir við yfirmann sinn um þessar breytingar og að hún hafi ekki verið upplýst um þær. Hann hafi sagt að það skipti ekki máli, niðurstaðan hefði orðið sú sama. Í framhaldi af uppsögn sinni hafi hún sent beiðni til fyrrverandi yfirmanns síns þar sem hún bað hann að tiltaka ástæður uppsagnar hennar á vinnuveitandavottorðið. Hann hafi ekki orðið við þeirri beiðni heldur einungis merkt við sagði sjálf upp. X telur samkvæmt ofangreindu að hún eigi rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem hún var launalaus, eða frá 3. júlí þar til hún hóf störf á nýjum vinnustað þann 21. ágúst .
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá A ehf. frá 3. júlí 2007. Þar segir að Íris hafi starfað sem bókari hjá fyrirtækinu tímabilið 7. febrúar 2005 til 30. júní 2006. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp starfinu.
Í gögnum málsins liggur einnig fyrir skýrsla frá VR þar sem segir að X hafi komið á skrifstofu félagsins vegna þess að starfi hennar hafi verið breytt. Engin sérstök skýring hafi verið gefin, en sagt að hún myndi fá önnur verkefni, m.a. frá starfsmanni við tölvuskráningu sem var að fara í barneignafrí. X hafi áður haft umsjón með launavinnslu u.þ.b. 300 starfsmanna. Eftir breytinguna hafi hún átt að sjá um launavinnslu fyrir 30 einstaklinga en mögulegt væri að þeim fjölgaði aftur í nánustu framtíð. X hafi litið á þetta sem vantraust og að starf hennar hafi breyst svo mikið að hún ætti rétt á að hætta störfum og fá laun greidd í uppsagnarfresti. Í ráðningarsamningi hennar sé tiltekið að starfssvið hennar geti breyst með tímanum. Ráðgjöf VR hafi verið sú að hún ætti að leita eftir samningum við fyrirtækið ef hún vildi ekki vinna þar lengur. Haft hafi verið samband við Írisi aftur og þá hafi hún tilkynnt að hún hafi sagt upp starfi sínu. Að endingu segir að málinu sé lokið af hálfu VR.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, en þar segir eftirfarandi:
Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Kærandi vann sem launafulltrúi hjá A ehf. Starfsviði hennar var breytt fyrirvaralaust og annar starfsmaður ráðinn í hennar starf aðallega við tölvuskráningu starfsmanns sem var að fara í barnseignarfrí og að hluta við launavinnslu. Kærandi leit á þetta sem vantraust og sagði upp starfi sínu. Í ráðningarsamningi kæranda stóð þó að starfssvið hennar gæti tekið breytingum. Kærandi leitaði til stéttarfélags síns sem lauk málinu með að ráðleggja henni að semja um starfslokagreiðslur en hún segði upp.
Í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Undantekningartilvik 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 eiga ekki við í máli kæranda og eru því ekki lagaskilyrði til að verða við beiðni kæranda um að fallið verði frá 40 daga niðurfellingu bótaréttar.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 3. júlí 2006 um að X skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka