Felld úr gildi krafa um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Staðfest niðurfelling bótaréttar í einn mánuð. Mætir ekki í boðaða skráningu hjá Vinnumiðlun.
Nr. 56 - 2006
Úrskurður
Þann 26. september 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 56/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum sem haldinn var 29. maí 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ákvað nefndin að X skyldi gert að sæta niðurfellingu bóta fyrstu 20 bótadagana. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að í febrúar 2005 hafði X fengið niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka. Fyrir mistök fékk hún greidda 20 fyrstu dagana eða þar til hún hætti að stimpla sig og fór í vinnu. Nefndin ákvað einnig að fella það sem eftir stóð af 40 daga niðurfellingunni úr gildi þar sem X var í vinnu tímabilið mars til ágúst 2005 er hún fór í skóla.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 28. júlí 2006. Í bréfinu segist hún hafa skráð sig atvinnulausa þann 16. maí 2006. Þann 28. júlí eða rúmum tveimur mánuðum síðar hafi hún þó ennþá ekkert fengið greitt. Skýring Eflingar hafi verið sú að hún hafi fengið ofgreidda 20 daga á árinu 2005. X fer fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi sem hún skráði sig. Það hafi verið mistök úthlutunarnefndarinnar ef hún hafi fengið ofgreitt. Hún sjálf hafi ekkert bréf fengið um þetta á sínum tíma og þeir hjá Eflingu gátu ekki fundið neitt bréf sem henni hafi átt að vera sent vegna þessa.
Samkvæmt bréfi dags. 8. febrúar 2005 var bótaréttur X felldur niður í 40 bótadaga vegna starfsloka hennar hjá leikskólanum F. Samkvæmt upplýsingum frá úthlutunarnefnd fékk X þó greiddar atvinnuleysisbætur fyrir mistök í 20 bótadaga eftir ákvörðun úthlutunarnefndar eða þar til hún fór í vinnu. Er hún kom aftur inn á skrá í maí 2006 var ákveðið að hún tæki fyrst út þessa 20 ofgreiddu daga áður en hún fengi greiddar bætur. Eftir 26. maí hafi X ekki komið til stimplunar hjá vinnumiðlun fyrr en 23. júní sbr. fyrirliggjandi greiðslusögu og yfirlit stimplana, og féll því bótaréttur hennar niður þessa daga í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Þann 8. júlí voru 20 virkir bótadagar liðnir og fékk hún greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi og var fyrsta útborgun þann 1. ágúst.
Niðurstaða
1.
Þann 1. júlí sl. tóku gildi ný lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en um mál þetta fer samkvæmt eldri lögum nr. 12/1997, þar sem atvik þess gerast á gildistíma þeirra.
10. gr. reglugerðar nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir og 12. gr. laga nr. 12/1997 fjalla um afleiðingar þess að hinn atvinnulausi skrái sig ekki á tilskyldum tíma hjá vinnumiðlun.
Ákvæði 2.-3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997 er svohljóðandi:
Þeim sem ekki hefur gert starfsleitráætlun er skylt að skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda skal hann láta skrá sig næsta dag sem honum er unnt.
Skrái hinn atvinnulausi sig ekki á tilskildum degi skal hann sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný.
2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998 hljóðar svo:
Atvinnuleitandi sem telur sig eiga rétt til atvinnuleysisbóta skal að jafnaði mæta vikulega til skráningar nema um annað hafi verið samið skv. starfsleitaráætlun. Líði fresturinn án þess að atvinnuleitandi mæti til skráningar skal hann felldur út af skrá yfir atvinnulausa.
15. og 27. gr. laga um nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar fjallar um afleiðingar þess að einstaklingur fái greiddar bætur sem hann ekki á rétt á.
Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:
Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.
Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 1-2 ár.
Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt:
Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
2.
Kærandi virðist hafa fengið fyrir mistök úthlutunarnefndar greiddar bætur í 20 bótadaga eftir að bótaréttur hennar hafði verið felldur niður. Ekkert kemur fram um að kærandi hafi gefið rangar eða villandi eða leynt upplýsingum hjá vinnumiðlun í því skyni að afla sér bóta, því eiga 15. gr. og 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, ekki við í umræddu tilviki. Meta verður þennan vafa kærandi í hag. Samkvæmt ólögfestum reglum eru strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu. Í 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er enda einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta. Þetta átti ekki við um kæranda. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.
Hvað varðar niðurfellingu bóta tímabilið 26. maí til 23. júní er kærandi mætti ekki til stimplunar hjá vinnumiðlun, þá eru skýr lagafyrirmæli í 3. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að bótaþegi skuli sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný. Samkvæmt upplýsingum frá vinnumiðlun er atvinnuleitendum tilkynnt skráningarskylda og hverju það varði að skrá sig ekki, þ.e. bótamissi frá síðustu skráningu nema gildar ástæður liggi fyrir því að viðkomandi skráði sig ekki, og þá er jafnframt brýnt fyrir viðkomandi að láta vita um veikindi og að hann verði að koma til skráningar um leið og veikindum líkur.
Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um að kæranda beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar bætur sem samsvara 20 bótadögum með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997. Hins vegar er staðfest niðurfelling bóta fyrir tímabilið 26. maí til 23. júní með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997.
Úrskurðarorð
Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar nr. 1 frá 29. maí 2006 um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar bætur í 20 bótadaga. Staðfest er niðurfelling bótaréttar fyrir tímabilið 23. maí til 26. júní 2006.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka