Umsókn um tekjutengdar bætur synjað. Sótti um fyrir gildistöku laga 54/2006. Hafði áður þegið bætur.
Nr. 54 - 2006
Úrskurður
Hinn 26. september 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 54/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru á þá leið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið synjaði á fundi sínum sem haldinn var þann 9. ágúst sl. umsókn X frá 3. júní um tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 3. ágúst 2006. Í bréfi sínu segir hún að sér hafi verið sagt upp störfum hjá N ehf. þann 31. apríl 2006 vegna samdráttar í fyrirtækinu. Hún tók í kjölfarið þá ákvörðun að leita sér lækninga vegna áfengisvandamáls. Í byrjun maí skráði hún sig atvinnulausa hjá vinnumiðlun en þann 11. maí hafði hún loforð um að komast inn á Vog. Henni var sagt að afskrá sig um leið og hún færi inn á Vog sem hún og gerði. Framhaldsmeðferð lauk þann 20. júní og þann 26. júní skráði hún sig atvinnulausa og sótti um atvinnuleysisbætur hjá vinnumiðlun að nýju. Hún hafi verið boðuð á fund og þar var kynnt fyrir henni að lögin væru að breytast og að hún gæti sótt um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Hún hringdi síðan í VR og fékk þær upplýsingar að umsókn hennar um tekjutengdar atvinnuleysisbætur hafi verið synjað þar sem hún hefði þegið atvinnuleysisbætur fyrir um 14 árum. Og þar sem umsókn hennar um tekjutengdar atvinnuleysisbætur sé frá því fyrir 1. júlí þá hafi hún ekki átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt nýju lögunum. Ef hún hefði hins vegar skráð sig hjá vinnumiðlun eftir 1. júlí hefði hún átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. X segist fara fram á undanþágu frá þessari reglu, það muni hana um kr. 20.000 á mánuði að fá tekjutengingu. Hún tekur fram að hún hafi verið mjög virk í atvinnuleit og hafi t.d sótt um 8 störf á einum mánuði en lágmarkið er 4 störf.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá N ehf. frá 28. apríl 2006. Þar kemur fram að henni hafi verið sagt upp störfum vegna samdráttar þann 30. apríl sl. Einnig liggur fyrir yfirlit yfir greiðslusögu X. Þar kemur fram að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur tímabilið desember 1994 til júlí 1995. Hún sótti fyrst aftur um atvinnuleysisbætur í maí 2006. Samkvæmt læknisvottorði var X vinnufær frá 23. júní 2006.
Niðurstaða
1.
Ný lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, tóku gildi þann 1. júlí sl. 32. gr. laganna hefur að geyma nýmæli. Samkvæmt ákvæðinu öðlast sá sem telst tryggður rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafa verið greiddar í samtals 10 virka daga. Ákvæði þetta tekur til þeirra einstaklinga sem sækja um atvinnuleysisbætur eftir gildistöku laganna. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur skulu samkvæmt lögunum nema 70% af meðaltali heildarlauna, en þó að hámarki kr. 185.400 á mánuði, og skal miða við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus.
Bráðabirgðaákvæði I fjallar um þá sem sækja um atvinnuleysisbætur í tíð fyrri laga nr 12/1997, um atvinnuleysisbætur. Ákvæðið hljóðar svo:
Þeim sem hefur í fyrsta skipti skráð sig atvinnulausan hjá svæðisvinnumiðlun 15. nóvember 2005 eða síðar og er skráður atvinnulaus 1. júlí 2006 er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laga þessara fyrir 1. september 2006 og fer þá um rétttindi hans og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum þessum. Við úrreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv 32. gr. skal líta á það tímabil sem hann var skráður atvinnulaus sem tímabil skv. 23. gr.
9. gr. laganna fjallar almennt um umsókn um atvinnuleysisbætur. 23. grein laganna fjallar um geymdan bótarétt og kveður á um að sá sem hverfur af vinnumarkaði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24. mánuði.
2.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í byrjun maí 2006 eða fyrir gildistöku nýrra laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 l. júlí sl. og gat því sótt um tekjutengdar atvinnuleysisbætur samanber bráðabirgðaákvæði I að uppfylltum þar tilgreindum skilyrðum. Eitt skilyrðið er að bótaþegi hafi ekki þegið atvinnuleysisbætur fyrir 15. nóvember 2005. Kærandi uppfyllti ekki þetta skilyrði þar sem hún hafði áður þegið atvinnuleysisbætur á árunum 1994 og 1995. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að verða við ósk kæranda um tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 um að synja kæranda um tekjutengdar atvinnuleysisbætur staðfest með vísan til bráðabirgðaákvæðis nr. I í lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 9. ágúst 2006 um að synja umsókn X um tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka