Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Segir upp starfi. Fellt úr gildi.
Nr. 14 - 2007
Úrskurður
Þann 21. júní 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 14/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu samþykkti þann 22. febrúar 2007 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 4. janúar 2007. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitendavottorði dags. 29. janúar 2007 um starfslok hans hjá K hf. var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða tók málið áður fyrir á fundi sínum þann 4. apríl sl. og ákvað að fresta málinu til frekari gagnaöflunar.
2.
Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags 8. mars 2007. Í bréfi sínu segir hann að þegar hann hafi látið af störfum hjá K hf. hafi hann farið í feðraorlof í sex mánuði. Því hafi lokið í mars 2006. Að loknu fæðingarorlofi hafi hann flutt til Englands með fjölskyldu sinni og hafi því ekki átt kost á að taka við starfi sínu aftur. Ekki hafi verið hugur hjá vinnuveitanda hans að leyfa honum að vinna að verkefnum í fjarvinnu. Það hafi því verið munnlegt samkomulag milli hans og vinnuveitanda hans að hann kæmi ekki aftur til starfa. Hann hafi verið án launatekna frá því að greiðslum úr Fæðingaroflofssjóði lauk og hafi ekki getað skráð sig atvinnulausan fyrr en í byrjun janúar sl. Í tölvubréfi kæranda dags. 29. mars sl. segist hann hafa fengið loforð um vinnu í Englandi við sölu og markaðssetningu á vöru og þjónustu hjá I Ltd. Þrátt fyrir nokkurn undirbúning hafi ekki orðið úr starfinu og því flutti hann ásamt fjölskyldu sinni aftur heim.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá K hf. dags. 29. janúar 2007. Þar kemur fram að hann hafi starfað hjá fyrirtækinu til 31. október 2005. Ástæða starfsloka er sögð sú að hann hafi sjálfur sagt upp störfum og að hann hafi verið í fæðingarorlofi tímabilið 1. nóvember 2005 til 1. apríl 2006. Samkvæmt yfirliti frá fæðingarorlofssjóði var kærandi í fæðingarorlofi frá september 2005 til mars 2006. Fyrir liggur staðfesting frá I Ltd. frá 14. mars 2007 þar sem segir að kæranda hafi verið boðið starf við að undirbúa sölu og markaðssetningu á nýrri framleiðsluvöru. Samkvæmt úrskrift úr þjóðskrá flutti kærandi til Íslands þann 17. desember 2006. Starfsmaður úrskurðarnefndarinnar hafði símsamband við fyrrum vinnuveitanda kæranda og staðfesti hann að kærandi hefði tjáð honum tveimur mánuðum áður en hann fór í fæðingarorlof að hann ætlaði sér að taka starfi sem honum hafi boðist erlendis.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.
2.
Kærandi var starfsmaður K hf. til 31. október 2005 er hann sagði upp starfi sínu og fór í fæðingarorlof til mars 2006. Eftir að fæðingarorlofi lauk, eða í mars 2006, flutti hann til Englands þar sem hann hafði loforð um vinnu við kynningu og markaðsetningu á nýrri vöru. Ekkert varð hins vegar úr því að hann yrði ráðinn þar sem hætt var við markaðssetningu vörunnar. Fyrir liggur staðfesting frá I Ltd. í Englandi um að hann hafi fengið loforð um vinnu hjá fyrirtækinu.
Kærandi sagði upp starfi sínu er hann var í fæðingarorlofi þar sem hann hafði fengið loforð um vinnu erlendis. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að þær ástæður sem kærandi færir fram séu gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga felld úr gildi með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Felld er úr gildi er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 22. febrúar 2007 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka