Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi vegna verkefnaskorts og óánægju með verkefnaskipan. Staðfest.
Nr. 20 - 2007

Úrskurður

 

Þann 21. júní 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 20/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 21. mars 2007 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 22. febrúar 2007.  Bótaréttur hans var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 54 gr. laga nr. 54/2006.  Ákvörðunin var tekin með vísan upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hans hjá Þ.

 

2.

 

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga með bréfi dags. 24. apríl 2007.   Í bréfi sínu segist hann hafa leitað álits og aðstoðar til stéttarfélags síns og að það sé hans vilji að stéttarfélagið skoði málið með það fyrir augum hvort unnt sé að hnekkja þessum úrskurði.  Í gögnum málsins liggur hins vegar ekkert bréf fyrir frá stéttarfélaginu.  Kærandi segist láta fylgja samantekt unna upp úr bréfaskiptum hans við Vinnumálstofnun.  Aðalástæða uppsagnar hans hafi verið verkefnaskortur. Hann hafi verið ráðinn sem bílstjóri á efnisflutningabíl.  Vinnan hafi dregist mikið saman.  Undir það síðasta hafi hann verið farinn að sópa gólf á verkstæðinu ásamt ýmsu sem til féll.  Skömmu fyrir uppsögn hans hafi hann sótt um vinnu hjá fyrirtæki sem hafi auglýst eftir meiraprófsbílstjórum.  Hann hafi fengið góðar undirtektir og verið beðinn um nafn og símanúmer hjá þáverandi vinnuveitanda og sagt að talað yrði við hann.  Síðar um daginn hafi honum verið tilkynnt að hann fengi ekki vinnuna.  Engin skýring hafi verið gefin og ekkert gefið upp hvað farið hafi milli þáverandi vinnuveitanda hans og þess sem hann sótti um hjá.  Honum hafi fundist að honum væri stillt upp við vegg og ef hann ætlaði að komast í betri vinnu en átta tíma dútl á dag við eitthvað sem hann hafi ekki ráðið sig til, yrði hann að byrja á því að segja upp.  Kærandi segir einnig að meta verði fjarlægð til vinnustaðar er ákvarða á um hvort ástæða til uppsagnar teljist gild eða ekki.  Hann eigi heima á V og vinnan hafi verið á E sem hafi leitt af sér ferðakostnað.  Um samdrátt hafi verið að ræða sem leiddi til þess að tekjumöguleikar hans við áframhaldandi vinnu á þessum vinnustað höfðu rýrnað verulega. 

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Þ ehf. dags. 26. febrúar 2007.  Þar kemur fram að kærandi starfaði hjá félaginu sem vörubílstjóri tímabilið 18. apríl 2006 til 15. febrúar 2007.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hann hafi sjálfur sagt upp störfum.

Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði símsamband við forsvarsmann Þ.  Forsvarsmaðurinn sagði að um lítið fyrirtæki væri að ræða og að starfsmenn þurfi annað slagið að ganga í fleiri störf.  Kærandi hafi verið ráðinn í bílstjórastarf og almenna verkmannavinnu.  Hann var síðan settur í vetrarstarf sem honum líkaði ekki.  Að sögn forsvarsmannsins hefur kæranda verið boðin vinna að nýju hjá fyrirtækinu, en hann hefur ekki látið sjá sig.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru um 135 km leið á milli V og E. 

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr.  laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

           

2.

 

Kærandi var ráðinn sem bílstjóri hjá Þ ehf. en vegna verkefnaskorts var hann í ýmsum öðrum verkefnum með og vann aðeins átta tíma á dag.  Kærandi var óánægður með þetta og sagði upp störfum.  Kærandi hafði í ekkert annað starf að hverfa er hann sagði upp störfum.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Almennt flokkast ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Með hliðsjón af þeim ástæðum sem að framan greinir er það mat úrskurðarnefndar að ástæður þær sem kærandi gefur upp fyrir uppsögn sinni séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Kærandi réði sig í þessa vinnu þrátt fyrir vegalengd milli heimilis og vinnustaðar, og er það mat úrskurðarnefndar að V og E séu eitt og sama atvinnusvæðið.   Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga  um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygging frá 21. mars 2007 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni