Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hættir störfum án gildrar ástæðu. Staðfest.
Nr. 23 - 2007
Úrskurður
Þann 18. maí 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 23/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 21. mars 2007 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 11. janúar 2007. Bótaréttur hans var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, á grundvelli starfsloka hans hjá H.
2.
Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi þann 7. maí 2007. Í bréfi sínu segist hann hafa sótt tímabundið um atvinnuleysisbætur frá því að fæðingarorlofi lauk 31. janúar 2007 þar til hann hefji vinnu hjá N í júlí nk. Hann hafi flutt í A síðasta sumar og því hafi hann sagt upp vinnu sinni hjá H. Hann hafi unnið í tvo mánuði eftir að hann flutti norður en eftir það hafi hann farið í fæðingarorlof tímabilið október til janúar.
Í tölvubréfi kæranda til Vinnumálstofnunar á Norðurlandi eystra frá 19. mars 2007 segist hann hafa gleymt að segja frá því að eftir að hann hætti hjá H þar til hann fór í fæðingarorlof hafi hann starfað við sitt eigið fyrirtæki í tvo mánuði, en hann sé framkvæmdastjóri N ehf. sem sjái um rekstur Veiðiheimilisins í Á. Rekstur fyrirtækisins sé einungis yfir sumartímann.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá H dags. 14. febrúar 2007. Þar segir að kærandi hafi starfað hjá H sem leiðbeinandi við kennslu tímabilin 1. janúar 2005 til 31. júlí 2006. Ástæða starfsloka er sögð sú að kærandi hafi farið í fæðingarorlof. Samkvæmt yfirliti frá Fæðingarorlofssjóði var kærandi í fæðingarorlofi tímabilið október 2006 til og með janúar 2007.
Samkvæmt yfirliti frá Lánstrausti er kærandi stjórnarformaður í N ehf. sem er til heimilis að Á. Tilgangur félagsins er m.a. leiga á veiðiréttindum, sala veiðileyfa, matar og gistingar til veiðimanna. Kærandi er hvorki stofnandi félagsins, framkvæmdastjóri né með prókúruumboð fyrir félagið. Tekjur félagsins á árinu 2005 eru sagðar kr. 270.000. Fyrirtækið hefur ekki verið afskráð.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.
2.
Kærandi sagði upp starfi sínu hjá H er hann fór í fæðingarorlof. Í kæru sinni segist hann hafa sagt upp starfi sínu vegna búferlaflutnings frá H til A. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi haft að öðru starfi að hverfa en því sem fyrr var nefnt hjá Nestorfunni ehf. Að hans sögn er starfsemi félagsins bundin við tvo mánuði á ári. Tekjur félagsins á árinu 2005 voru einungis kr. 270.000. Tekjur kæranda sumarið 2006 hjá félaginu voru aðeins kr. 114.000.
Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.
Með hliðsjóð af ofangreindu er það mat úrskurðarnefndar að ástæður þær sem kærandi gefur upp fyrir uppsögn sinni séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra frá 21. mars 2007 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka