Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga, hættir starfi.
Nr. 29 - 2003
Úrskurður
Hinn 7. apríl 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 29/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 24. febrúar 2003 að samþykkja umsókn A um atvinnuleysisbætur. Með tilvísun til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 28. nóvember 2002 um starfslok A á leikskólanum X var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, en í ákvæðinu er kveðið á um að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu á gildra ástæðna skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga. Úthlutunarnefndin tók mál A aftur fyrir á fundi sínum þann 10. mars s.l. og staðfesti fyrri úrskurð sinn.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 11. mars 2003 og vísar í fyrirliggjandi bréf sitt til úthlutunarnefndar dags. 4. mars. 2003. Í bréfi sínu segist hún hafa unnið hálfan daginn á leikskólanum í tvö ár. Á þessum tíma hafi hún smám saman farið að sökkva í þunglyndi, í fyrstu án þess að gera sér grein fyrir því. Síðustu vikur fyrir uppsögn hafi hún margoft samið uppsagnarbréf í huganum án þess að láta verða af því. Svo hafi komið að því það henni fannst hún verða að velja á milli vinnunnar annars vegar og andlegrar heilsu sinnar hins vegar og þann 29. nóvember s.l. hafi hún tekið af skarið og sagt upp. Heilsa hennar hafi þá verið orðið svo tæp að stöðugur kvíði ásamt magaverkjum hafi kvalið hana. Ástæða þessa álags hafi þó ekki verið vinnan sjálf heldur einelti á vinnustað, ekki síst af hendi forstöðukonunnar. Af þeim ástæðum hafi hún gefið henni aðra ástæðu fyrir uppsögn sinni. Hún hafi ekki leitað strax til læknis því hún hafi viljað komast til geðlæknis. Ekki hafi verið hlaupið að því að komast á fund geðlæknis en þegar það hafi tekist hafi læknirinn úrskurðað að veikindi hennar stöfuðu af einelti og úrskurðað hana óvinnufæra í 6-8 vikur.
3.
Haft var samband við forstöðumann leikskólans X varðandi starfslok A. Forstöðumaðurinn sagði að A hefði gefið upp þá ástæðu fyrir uppsögn sinni að sér liði illa á vinnustað. Engum hefði þó dulist að hún hafi verið þunglynd og ekki ráðið við starfið þess vegna hafi hún sagt upp starfinu.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.
7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta kveður um ástæður sem teljast gildar fyrir starfslokum þannig að úthlutunarnefnd sé heimilt að ákveða að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli ekki missa rétt til bóta skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ástæður þessar eru eftirfarandi:
a. Maki umsækjanda hefur farið til stafa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af he89slufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorðið þessu til staðfestingar.
2.
Samkvæmt forstöðukonu leikskólans sem kærandi starfaði hjá gat engum dulist að kærandi hafi átt við þunglyndi að stríða síðustu starfsmánuði sína. Þetta hafi valdið því að hún ætti erfitt með að sinna starfi sínu og hafi að lokum leitt til þess að kærandi sagði upp starfi sínu. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta er rétt að taka tillit til þessa og líta svo á kærandi hafi sagt sig frá þeirri vinnu sem hún var í af heilsufarsástæðum og að vinnuveitanda hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hún lét af störfum, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. rgl. nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta og því sé um gilda ástæðu fyrir starfslokum að ræða í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 felld úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 24. febrúar 2003 um að A skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka