Ágreiningur um nýtta bótadaga á bótatímabili.
Nr. 32 - 2003
Úrskurður
Þann 17. mars 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr.32/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru á það leið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið úrskurðaði á fundi sínum þann 4. febrúar 2003 að fjöldi nýttra bótadaga A væru 1198 á bótatímabilinu. Málsatvik eru þau að á greiðsluseðli dags. 3. desember 2002 segir að nýttir bótadagar hennar séu 459. Á greiðsluseðli dags. 17. desember 2003 kemur hins vegar fram að nýttir bótadagar hennar eru 1198 talsins. Í úrskurði úthlutunarnefndar er ástæða þessa mismunar sögð mistök í færslu, A eigi nýtta bótadaga hjá báðum úthlutunarnefndum höfuðborgarsvæðisins. Þannig séu nýttir bótadagar hennar hjá nefnd nr. 2 459 dagar en hjá nefnd nr. 1 höfðu áður verið nýttir 739 bótadagar á tímabilinu.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 11. febrúar 2003. Í bréfinu vísar hún í bréf sitt dags. 15. janúar 2003 þar sem hún fer fram á að útreikningur nýttra bótadaga á bótatímabilinu verið ákveðnir eins og sagði á greiðsluseðli dags. 3. desember 2002, þ.e. að nýttir bótadagar teljist 459 og ónýttir dagar 841. Einnig fer hún fram á í bréfi sínu að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 106/2002 þar sem staðfest var ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um 83% bótahlutfall hennar verði tekið upp að nýju og endurskoðað.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar skal bótatímabil að hámarki vera fimm ár. Fimm ára bótatímabil samsvarar 1300 bótadögum. Fái maður sem byrjaður er á bótatímabili launaða vinnu þá framlengist bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum. Nýtt bótatímabil getur fyrst hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda eigi maður að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að bótatímabili lauk.
Nýttir bótadagar koma til frádráttar heildar bótarétti hvers tímabils. Skiptir þá ekki máli þótt bótadagarnir séu nýttir hjá fleiri en einni úthlutunarnefnd. Á landinu öllu starfa 9 úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir að einstaklingur flytjist til annarar úthlutunarnefndar stofnast ekki nýtt bótatímabil. Nýttir bótadagar samtals hjá öllum úthlutunarnefndum á bótatímabilinu eru taldir saman og koma til frádráttar við útreikning á heildarbótarétti einstaklings. Þó mistök séu gerð við talningu nýttra bótadaga á greiðsluseðli til bótaþega þá stofnast ekki aukinn bótaréttur þeim einstaklingi til handa sem mistökunum nemur.
Heildarbótaréttur kæranda var endurútreiknaður af þeim starfsmanni Vinnumálastofnunar sem sér um tölvukerfi það sem í eru skráðir nýttir bótadagar. Þar kom fram að nýttir bótadagar kæranda voru í samræmi við ákvörðun úthlutunarnefndar eða 1198 og ónýttir bótadagar þar af leiðandi 102. Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri útreikning úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta sem fram kom á greiðsluseðli dags. 17. desember 2002 um að nýttir bótadagar kæranda séu 1198.
2.
Varðandi kröfu kæranda um að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 106/2002 þar sem staðfest var ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um 83% bótahlutfall verði tekið upp að nýju og endurskoðað er vísað í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar sem kveður á um að úrskurðir nefndarinnar séu endanleg stjórnvaldsákvörðun og verður því að synja kröfu kæranda að þessu leyti.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 4. febrúar 2003 um að nýttir bótadagar A væru 1198 er staðfest. Kröfu um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar í máli nr. 106/2002 er hafnað.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka