Bótaréttur fyrst að loknum uppsagnarfresti.
Nr. 36 - 2003

 

Úrskurður

 

Hinn 7. apríl 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í málum nr. 33-36/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

 

1.

Á fundi sínum þann 10. febrúar 2003 ákvað úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið að samþykkja umsókn A, B, C og D um atvinnuleysisbætur.   Með vísan til bréfs Eflingar dags. 8. febrúar 2003 og 18. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta var hins vegar ákveðið að greiðslur  atvinnuleysisbóta hæfust fyrst að loknum uppsagnarfresti hjá X  eða þann 8. ágúst 2003. 

 

2.

Ákvörðun úthlutunarnefndar var kærð með bréfi Eflingar stéttarfélags mótt. 6. mars 2003.  Aðallega er krafist þess að A, B, C og D verði ákvarðaðar atvinnuleysisbætur strax frá upphafi bótatímabils, en til vara að henni verði ákvarðaðar atvinnuleysisbætur að teknu tilliti til missis bótaréttar í 40 bótadaga.  Um aðdraganda málsins segir í bréfinu  að A, B, C og D starfsmönnum á Leikskólanum X verið sagt fyrirvaralaust upp starfi þann 14. janúar 2003.  Umræddan dag hafi starfsmennirnir haldið til stutts fundar utan leikskólans, eftir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir á leikskólanum og að undangenginni tilkynningu til leikskólastjórans.  Tilefni fundarins hafi verið langvarandi óánægja með starfshætti á leikskólanum og rekstur hans.  Beiðnum þeirra um starfsmannafund með leikskólastjóranum hafi verið hafnað og því hafi þær ákveðið að halda fund í hádeginu sem sé rólegasti tími dagsins.  Að fundi loknum hafi þær haldið aftur til vinnu en þá hafi þeim verið vikið fyrirvaralaust út starfi og athent bréf dags. sama dag því til staðfestu.  Starfsmennirnir hafi leitað til Eflingar stéttarfélags sem hafi mótmælt uppsögnum þessum fyrir þeirra hönd sem ólögmætum með bréfi dags. 15. janúar s.l. og skorað á leikskólann að draga uppsagnirnar til baka.  Af hálfu leikskólans hafi ekki orðið við áskorunni.  Ágreiningur sé uppi um kröfu A, B, C og D um laun á uppsagnarfresti.   Fyrirsjáanlegur sé málarekstur fyrir dómstólum vegna ólögmætra uppsagna.  Ef niðurstaða dómstóla verður sú að uppsögnin hafi verið lögmæt eigi A, B, C og D rétt á atvinnuleysisbótum, hugsanlega að teknu tilliti til 40 daga biðtíma í samræmi við ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997.  Ef niðurstaðan verði hins vegar sú að uppsögnin hafi verið ólögmæt eigi A, B, C og D rétt á að fá skaðabætur úr hendi vinnuveitanda sínum sem nema ígildi launa á uppsagnarfresti.  Beri henni þá lögum samkvæmt ekki réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil.  Fái A, B, C og D greidd laun á uppsagnarfresti skuldbinda þær sig til þess að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem þær fái greiddar.

 

Niður­staða

 

1.

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er kveðið á um að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur misst vinnu af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.

Fyrir liggur í máli þessu að á leikskólanum þar sem kærendur störfuðu hafi verið langvarandi óánægja meðal starfsmanna með starfshætti stjórnenda og rekstur leikskólans.  Starfsmenn höfðu beðið um starfsmannafund án árangurs.  Haldinn hafi verið starfsmannafundur þar sem aðeins helmingur starfsfólksins var kallaður til. Þeir fimm starfsmenn sem ekki voru boðaðir brugðu því á það ráð að halda sér starfsmannafund á heimili eins starfsmanns að undangenginni tilkynningu til leikskólastjóra og eftir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir á leikskólanum.  Af þessum fimm starfsmönnum höfðu þrír verið í starfi þennan dag, einn starfsmannanna var veikur heima eða á þeim stað sem fundurinn var haldinn og annar hafði farið heim til að sinna veiku barni.  Starfsmennirnir snéru síðan aftur til vinnu að einum og hálfum tíma liðnum.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hefur ekki verið sýnt fram á að fjarvera kærenda vegna starfsmannafundarins hafi skapað það ástand á leikskólanum  að kærendur hafi misst starfið af ástæðum er þeir átti sök á skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Hinn helmingur starfsfólksins virðist hafa verið áfram við vinnu eða um fimm manns. Að mati úr­skurð­ar­n­efndar þykir því ekki vera tilefni til að beita ákvæði 4. tölul. 5. gr. um niðurfellingu bótaréttar kærenda í 40 bótadaga.

 

2.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta á umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem á kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur vinnuveitanda sem ekki hefur verið úrskurðaður gjaldþrota ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en uppsagnarfresturinn er liðinn.  Kærendum var sagt fyrirvaralaust upp starfi og neitað um laun í uppsagnarfresti.  Fyrirsjáanlegur er málarekstur fyrir dómstólum til að skera úr um rétt kærenda til launa í uppsagnarfresti. Ef niðurstaðan verður sú að kærendur eigi rétt á launum í uppsagnarfresti hafa þeir skuldbundið sig til að endurgreiða Aðvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem þær fá.  Að teknu tilliti til þessa og til málsástæðna allra er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um að bótaréttur kærenda hefjist fyrst að liðnum uppsagnarfresti úr gildi.  Greiðsla atvinnuleysisbóta til kærenda er þó háð því skilyrði að komi til þess að kærendur fái greidd laun í uppsagnarfresti samkvæmt dómsákvörðun eða á annan hátt þá verði þær bætur sem til falla innan þess tíma endurgreiddar.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið dags. 10. febrúar 2003 um að A, B, C og D skuli fyrst frá atvinnuleysisbætur að loknum uppsagnarfresti er felld úr gildi.  Greiðsla atvinnuleysisbóta er þó háð þeim fyrirvara að komi til greiðslu launa í uppsagnarfresti skuli Þær endurgreiða þær bætur er falla innan þeirra tímamarka.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni