Synjun á bótarétti sjálfstætt starfandi einstaklings
Nr. 11 - 2003
Úrskurður
Hinn 24. febrúar 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 11/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra ákvað á fundi sínum þann 10. desember 2002 að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 8. nóvember 2002 með vísan til 1. og 11. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga. Úthlutunarnefndin tók málið aftur fyrir á fundi þann 7. janúar 2003 og staðfesti fyrri ákvörðun sína.
2.
A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 22. janúar 2003 og gerir kröfu um að úrskurður nefndarinnar verði felldur úr gildi. Til vara gerir hún þá kröfu að henni verði úrskurðaðar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. nóvember 2002 til 1. maí 2003. Í bréfi sínu mótmælir hún því að reglugerð 740/1997 geti átt við sig, hún hafi aldrei unnið sem sjálfstætt starfandi, heldur hafi hún starfað sem launþegi við rekstur manns síns. Eiginmaður hennar sé verktaki hjá X og hefur m.a. tekið að sér verkefni í Z. Rekstur hans hafi ávallt verið á hans kennitölu. Hún hafi starfað hjá honum síðast liðin sumur og þegið venjuleg laun verkamanna fyrir. Starfsemi hans fari einungis fram á sumrin eða frá miðjum maí og fram á haust. Hann hafi greitt launatengd gjöld vegna hennar og annarra starfsmanna. Það sé mat hennar að ekki sé hægt að greina á milli réttar til atvinnuleysisbóta hjá henni eða öðrum starfsmönnum hans.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er félagsmálaráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og vera atvinnulausir. Í 6. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði segir orðrétt:
Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst vera atvinnulaus, þegar hann uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
1. Er hættur rekstri, sbr. 7. - 10. gr.,
2. hefur ekki tekjur af rekstri,
3. hefur ekki hafið störf sem launamaður,
4. er sannanlega í atvinnuleit og er reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa,
5. hefur tilkynnt lok rekstrarins til opinberra aðila, sbr. 7. gr.
Í 7. gr. er kveðið á um að til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þurfi hún að bera með sér að:
1. Lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðandaskrá Ríkisskattstjóra og
2. virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi verið hætt.
Í 5. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að árstíðabundin stöðvun starfsemi eða tímabundin hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veiti sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki rétt til atvinnuleysisbóta.
2.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er ekki kveðið sérstaklega á um réttarstöðu þeirra sem eiga hlut í og/eða eru aðilar að stjórnun fyrirtækja. Í reglugerð nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga segir hins vegar orðrétt í 11. gr.:
Um þá sem starfa hjá fyrirtæki sem þeir eiga hlut í og/eða stjórna.
Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur, einn eða ásamt maka sínum, eða við starfsemi sem hann rekur í sameign með öðrum aðila eða sem fer fram á vegum lögaðila sem hann á jafnframt 50% eða meiri eignarhluta í og/eða er aðili að stjórnun fyrirtækisins, skal ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Sama gildir um þann sem vinnur við eigin atvinnurekstur og á, einn eða ásamt maka, börnum eða öðrum nákomnum sbr. 3. tölul. 1. gr., 10 % eða meiri eignarhluta í fyrirtæki gegni hann jafnframt stöðu framkvæmdastjóra, hafi prókúru þess eða á sæti í stjórn þess.
Til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta verður hlutaðeigandi að sýna fram á að hann hafi framselt eignarhluta sinn og/eða sagt sig í raun frá stjórn fyrirtækisins að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 9. gr. og að hann uppfylli að öðru leyti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og þessarar reglugerðar fyrir bótarétti.
3. mgr. 9. gr. kveður síðan á um að ekki er hægt að uppfylla skilyrði um framsal eða lokun reksturs með því að afhenda reksturinn nákomnum.
Ljóst er samkvæmt skilgreiningu 11. gr. reglugerðarinnar að kærandi á 50% eignarhluta í fyrirtæki því sem hún vann hjá og skráð er á nafn eiginmanns hennar. Samkvæmt reglugerðinni skal hún ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum nema hún geti sýnt fram á að hún hafi framselt eignarhluta sinn eða rekstri hafi verið hætt skv. 6. gr. reglugerðarinnar.
3.
Með vísan til fyrirliggjandi gagna um stöðu og tengsl A við fyrirtæki það sem hún starfaði hjá svo og til þess sem að framan segir um réttarstöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur uppfylli ekki skilyrði laga um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Ber af þeim sökum að staðfesta úrskurð úthlutunarnefndar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra frá 10. desember 2002 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka