Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga
Nr. 31 - 2003
Úrskurður
Hinn 7. apríl 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 31/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 24. febrúar 2003 að samþykkja umsókn A um atvinnuleysisbætur. Með tilvísun til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 12. febrúar 2003 um starfslok A hjá X. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, en í ákvæðinu er kveðið á um að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu á gildra ástæðna skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með kæru dags. 13. mars 2003 sbr. bréf dags. 7. mars 2003. Í bréfi sínu segir hún það ekki rétt að hún hafi sagt starfi sínu lausu án gildandi ástæðna. Hún hafi farið í barnsburðarleyfi í apríl 2001 og ekki snúið aftur til vinnu. Enda hafi ekki verið óskað eftir því af hálfu vinnuveitanda, m.a. vegna verkefnaskorts að því er henni skildist. Hún hafi litið þannig á að samkomulag hafi verið milli sín og vinnuveitanda um að starfslok yrðu eftir barnsburðarleyfið. Hún hafi ekki talið að hún hafi verið að segja upp, heldur að engin vinna væri fyrir hendi fyrir hana er hún snéri aftur á vinnumarkað.
3.
Á vinnuveitandavottorði dags. 12. febrúar 2003 kemur fram að A starfaði við fiskvinnslu hjá X ehf. í 100% starfshlutfalli frá árinu 1999 til 15. apríl 2001 er hún fór í fæðingarorlof. Í gögnum málsins kemur fram að A hafi verið í fæðingarorlofi tímabilið 15. apríl 2001 til 15. október 2001. Einnig kemur fram í umsókn til svæðisvinnumiðlunar að A sækir fyrst um atvinnuleysisbætur þann 10. febrúar 2003 eða einu ári og fjórum mánuðum eftir að fæðingarorlofi lauk.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.
7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta kveður um ástæður sem teljast gildar fyrir starfslokum þannig að úthlutunarnefnd sé heimilt að ákveða að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli ekki missa rétt til bóta skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ástæður þessar eru eftirfarandi:
a. Maki umsækjanda hefur farið til stafa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af he89slufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorðið þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi fyrst um atvinnuleysisbætur er hún hafði verið atvinnulaus í eitt ár og fjóra mánuði eða 16 mánuðum eftir að fæðingarorlofi lauk. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta er rétt að taka tillit til þessa er metið er hvort kærandi skuli sæta niðurfellingu bóta samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 felld úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 24. febrúar 2003 um að bótaréttur A til atvinnuleysisbóta skuli felldur niður í 40 bótadaga er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka