Endurgreiðsla ofgreiddra bóta
Nr. 42 - 2003
Úrskurður
Hinn 19. maí 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 42/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 10. mars 2003 að A bæri að endurgreiða fjárhæð sem næmi ofgreiddum atvinnuleysisbótum í 5,5 daga eða 44 klst. með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun. Jafnframt var bótaréttur hennar felldur niður í tvo mánuði þar að auki.. Úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp með vísan til 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 þar sem segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot 1-2 ár. Ákvörðun nefndarinnar var byggð á upplýsingum um að A hefði verið í starfi hjá X samhliða því sem hún þáði atvinnuleysisbætur.
2.
A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 15. apríl 2003. Í bréfi sínu segist hún hafa verið í vinnu hjá Z. til 26. ágúst 2003 og skráð sig atvinnulausa þann 27. ágúst og fengið atvinnuleysisbætur. Lokauppgjör Z hafi dregist nokkuð og hafi hún fengið greiðslur frá þeim vegna þessarar vinnu bæði 1. september og 1. október s.l sem gerði það að verkum að hún komst á skrá hjá RSK yfir fólk sem hefur laun á sama tíma og það fær bætur. Hún hafi haft samband við úthlutunarnefndina 4. febrúar s.l. til að forvitnast um hvers vegna hún hefði ekki fengið greiddar bætur þann 30. janúar og þá hafi hún fengið að vita að hún væri komin í greiðslustöðvun vegna launa í september og október. Í framhaldi af þessu hafi hún látið senda í faxi yfirlit yfir vinnu sína hjá X tímabilið 3. október til 5. desember s.l., alls 44 kennslustundir. Hún mótmælir því að hún sé sett á tveggja mánaða bið. Hún hafi sjálf upplýst um vinnu sína hjá X og lagt fram vottorð þar að lútandi og fer hún því fram ákvörðun um tveggja mánaða bið verði dregin til baka. Einnig fer hún fram á að kennslustundum verði breytt í vinnustundir sem gerir 30 klst. í stað 44. klst. eða tæpir 4 vinnudagar í bótalausa skráningu í stað 5,5 daga.
3.
Í staðfestingu frá X kemur fram að A hafi kennt á námskeiði í þ á haustönn 2002. Námskeiðið byrjaði 3. október og lauk 5. desember. Samkvæmt framlögðum reikning var um alls 44 tíma að ræða og þáði Una kr. 112.200 í laun fyrir þessa vinnu. Samkvæmt greiðslusögu frá úthlutunarnefnd dags. 28. apríl þáði A jafnframt atvinnuleysisbætur allt þetta tímabil.
Niðurstaða
1.
Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Einnig segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár.
Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt: Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
Í 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta segir: Nú á Atvinnuleysistryggingasjóður útistandandi kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta þá heimilt að nota þá kröfu til skuldajöfnunar á móti atvinnuleysisbótum að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt. Skulu þá bætur fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd.
2.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi þáði laun að fjárhæð kr. 112.200 fyrir 44 tíma í kennslu hjá X tímabilið 3. október til 5. desember 2002. Jafnframt þáði kærandi atvinnuleysisbætur. Kærandi tilkynnti úthlutunarnefnd ekki um vinnu sína hjá skólanum fyrr en greiðslur höfðu verið stöðvaðar til hennar eða um mánaðarmótin janúar/febrúar 2003. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi hafi leynt upplýsingum um hagi sína með því að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða því sem hún var í vinnu hjá X. Samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er ótvírætt að í slíkum tilvikum skuli bótaréttur felldur niður í 2-6 mánuði. Kærandi er látin sæta tveggja mánaða niðurfellingu sem er vægustu viðurlög samkvæmt greininni. Samkvæmt 2. gr. 27. gr. laganna er úthlutunarnefnd heimilt að endurkrefja bótaþega um allt að tvöföldum ofgreiddum bótum. Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar er kærandi einungis krafin um einfalda endurgreiðslu fyrir þá 44 tíma sem hún fékk greidda. Ekki þykir tilefni til að verða við ósk kæranda um reiknaðar verði einungis þær mínútur sem hver kennslustund varir, um tímakaup er að ræða og miðast útreikningur ofgreiddra bóta við það. Kæranda er hins vegar veitt heimild til að skrá sig bótalaust hjá vinnumiðlun í 45 daga, þar af 5 daga til greiðslu ofgreiddra bóta. Er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar bætur með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun sbr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og 14. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, auk þess sem bótaréttur hennar er felldur niður í 2 mánuði sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 10. mars 2003, um að A skuli endurgreiða ofgreiddar bætur sem jafngilda 44 klst. með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, auk þess sem bótaréttur hennar er felldur niður í tvo mánuði, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka