Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna höfnunar á starfstilboði.
Nr. 46 - 2003
Úrskurður
Hinn 19. maí 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 46/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 7. apríl 2003 að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, þar sem kveðið er á um að það valdi missi bótaréttar í 40 bótadaga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að A hafnaði vinnutilboði dags. 6. mars. 2003 frá versluninni X.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 25. apríl 2003. Í bréfinu segist hún hafa fengið vinnu í versluninni X. Hún hafi starfað þar 8. og 10 mars s.l. í nokkra klst. og ekki litist á vinnuna. Hún hafi því sagt upp og fengið vinnu nokkrum dögum síðar á H og á S þrjú kvöld í viku. Hún segist engan veginn sátt við að hafa misst einn mánuð á bótum, þ.e. marsmánuð, vegna vinnu sem hún var í smástund. Þessi búð sé lokuð í dag og telur hún að hún opni ekki á næstunni. Henni finnst ekki að fólk á bótum verði að taka vinnu sem því lítist ekki á að vinna við. Í bréfi dags. 6. apríl s.l. til úthlutunarnefndar segist hún hafa verið á sjúkrabótum til 26. febrúar s.l. og eftir það á atvinnuleysisbótum. Þann 7. mars fái hún atvinnutilboð sem henni leist mjög vel á í versluninni X. Hún hafi verið ráðin frá kl. 13:30 til 18:00 og annan hvern laugardag. Fyrsta daginn kom einn kúnni inn sem keypti vöru á kr. 690, næsta dag komu 6 manneskjur inn en kr. 600 í kassann. Hún hafi orðið mjög efins um framtíð sína á þessum vinnustað og sagt upp daginn eftir. Búðin hafi lokað stuttu síðar og sé lokuð enn þann dag í dag.
3.
Í gögnum málsins kemur fram að A hafi fengið tilboð um vinnu sem afgreiðslukona í versluninni X þann 6. mars s.l. Hún vann þar í tvo daga og hætti svo þar sem henni leist ekki á starfið. Samkvæmt bréfi frá vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði hafa tvær konur síðan byrjað og hætt í versluninni og hefur verslunin ekki verið opin undanfarið. Nokkru síðar hafi A þegið 75% starf við ræstingar á H auk þess sem hún vinni á nýjum veitingastað nokkur kvöld í viku.
Niðurstaða
1.
Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit. Í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst. Yfirlýsing bótaþega um að hann hafni tilboði um vinnu hefur þau áhrif að hann telst ekki uppfylla skilyrði bótaréttar samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr., sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Samkvæmt 1. gr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980. 5. mgr. 13. gr. kveður á um að ákvæði 4. tölul. 5. gr. gildi að öðru leyti um missi bótaréttar samkvæmt greininni.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjendur um atvinnuleysisbætur hafa sagt lausu því starfi sem þeir höfðu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta, en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Við mat á hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Einnig er kannað hvort bótaþegi, að öðru leyti vinnufær, búi yfir þeirri menntun og/eða fyrri starfsreynslu sem vinnuveitandi gerir kröfu um. Uppfylli hinn atvinnulausi þessi almennu skilyrði er hafni engu að síður tilboði um vinnu leiðir það almennt til þess að viðkomandi missir rétt til atvinnuleysisbóta. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 7. apríl 2003 um að A skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka