Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna fjarveru frá starfsleitarnámskeiði.
Nr. 47 - 2003
Úrskurður
Hinn 19. maí 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 47/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra ákvað á fundi sínum þann 1. apríl 2003, að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Vísað var til upplýsinga frá svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra um að A hefði einungis mætt fyrsta daginn á námskeið samkvæmt starfsleitaráætlun og ekki gefið neinar skýringar á því.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 7. maí 2003. Í bréfi sínu segist hún hafa samþykkt að fara á námskeiðið. Hún sé hins vegar búin að vera með veikt barn sem hún hafi þurft að vera mikið með hjá læknum og hafi hún sagt þeim á vinnumiðlun frá því. Hún hafi bara mætt í einn tíma, eftir það hafi hún reynt að ná í ráðgjafann og beðið um skilaboð til hans, en aldrei náð í hann þar sem hann hafi alltaf verið upptekinn. Hún sé einstæð móðir með tvö börn og þurfi á þessum pening að halda. Henni finnst óréttlátt að taka fólk út af skrá í 40 daga ef það mætir ekki í alla tíma námskeiðs.
3.
Í bréfi svæðisvinnumiðlunar Norðurlands eystra dags. 25. mars 2003 segir að þann 18. mars hafi A skrifað undir samning þess efnis að taka þátt í námskeiðinu Sjálfsefling sem stóð frá 26. febrúar til 18. mars s.l., alls 27 klst. Hún hafi mætt fyrsta daginn en eftir það ekki og engar skýringar gefið á því. Fyrir liggur í gögnum málsins samningur um námskeið nr. 3.1 dags. 18. febrúar í sjálfseflingu, skyndihjálp, samvinnu/samskiptum og heilbrigðum lífstíl. Í samningnum er tekið fram að námskeiðið verði haldið dagana 26. febrúar til 18. mars 2003. Námskeiðið sé alls 27 klst. og kennt sé fyrir hádegi tvo daga vikunnar. Samningurinn er undirritaður af A þann 18. febrúar s.l. Í samningnum segir með breiðu letri að undirritaður staðfesti með undirskrift sinni að áætlun þessi sé gerð með hans samþykki og vilja, auk þess sem undirritaður staðfesti vilja sinn til að fylgja áætlun þessari af heiðarleika og samviskusemi . Einnig segir að ef atvinnuleitandi fylgi ekki áætlun þessari að mati umsjónarmanns falli hún úr gildi og geti það varðað missi bótaréttar í 40 bótadaga.
Í bréfi úthlutunarnefndar dags. 12. maí s.l. segir varðandi það atriði að A hafi ekki náð í ráðgjafa til að tilkynna forföll sín, að ráðgjafar svæðisvinnumiðlunar séu með símatíma tvisvar á dag í klukkutíma í senn. Síðan sé alltaf hægt að ná í þá með tölvupósti. Það hafi ekki verið vandamál fyrir atvinnuleitendur að ná til þeirra. Hins vegar sé mikið að gera hjá þeim og þeir taka ekki síma þegar þeir eru í viðtölum. Hafi verið lögð skilaboð til þeirra þá svara þeir þeim. Samkvæmt upplýsingum frá ráðgjafa sem var umsjónarmaður námskeiðsins hafði A sýnt námskeiðinu mikinn áhuga og sótt það stíft að fara á það. Áður hafði hún ákveðið að sækja námskeið í vinnuklúbbnum, en gat það ekki vegna veiks barns. Því hafi ráðgjafinn gefið henni kost á að sækja næsta námseið þar á eftir, en þegar til kom að bjóða upp á námskeið í sjálfseflingu hafi hún frekar viljað sækja það en að fara á námskeið í vinnuklúbbnum.
Niðurstaða
1.
Í IV. kafla reglugerðar nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um skyldur atvinnuleitanda samkvæmt starfsleitaráætlun. Í 13. gr. segir að markmið með gerð starfsleitaráætlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, sé að aðstoða atvinnuleitanda við að finna starf við sitt hæfi. Skal starfsleitaráætlun vera með þeim hætti að þegar atvinnuleitandinn fylgir henni aukist líkur hans á að fá vinnu. Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skal atvinnuleitandi sem er með samþykkta starfsleitaráætlun vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst ef hann er ekki í sérstökum úrræðum samkvæmt starfsleitaráætlun. Skylda þessi nær einnig til þess að taka þátt í námskeiðum sem hann er boðaður á af svæðisvinnumiðlun. Í 14. gr. segir að samkomulag um starfsleitaráætlun skuli útfæra sem skriflegan samning milli aðila.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar um nám eða starfsþjálfun skv. e. lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
2.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti aðeins einn dag á námskeið samkvæmt starfsleitaráætlun án þess að gefa skýringar á því. Um var að ræða námskeið tvisvar í viku fyrir hádegi tímabilið 26. febrúar til 18. mars, alls 27 klst. eða sjö dagar. Kærandi hafði samþykkt að fara á námskeiðið og undirritað samnings þess efnis. Í samningnum kom fram að ef áætluninni væri ekki fylgt að mati umsjónarmanns félli hún úr gildi og gæti það varðað 40 daga niðurfellingu bótaréttar. Engar viðhlítandi skýringar liggja fyrir af hálfu kæranda um hvers vegna hún hafi ekki tilkynnt forföll. Að mati úrskurðarnefndar ber því að staðfesta ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra frá 1. apríl 2003 um að A skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka