Bótahlutfall hækkað úr 45% í 50%
Nr. 38 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 19. maí 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 38/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

            Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið hafnaði umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 21. mars. 2003 á fundi sínum sem haldinn var þann 1. apríl 2003.  Vísað var til þess að bótaréttur A væri 45%, en þar sem hún væri í 50% starfi drægist það frá bótarétti skv. 1. mgr. 6. gr. a í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.

 

2.

            A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 8. apríl s.l. Í bréfi hennar segist hún hafa varið í barnsburðarleyfi í október árið 2000 en fram að því hafi hún verið í 100% starfi.  Þegar hún sneri til starfa á ný hafi hún samið við yfirmann sinn um 50% starf um óákveðinn tíma.  Samkomulag þeirra, sem að vísu hafi aðeins verið munnlegt, hafi miðast við að hún gæti farið aftur í fullt starf þegar henni hentaði.  Fljótlega eftir að hún hafi hafið 50% starf hafi orðið mikill samdráttur hjá fyrirtækinu.  Því hafi ekki verið hægt að verða við ósk hennar um fullt starf er hún leitaði eftir því í september 2001. Hún hafi síðan ítrekað óskað eftir 100% starfi án árangurs.

 


 

Niður­staða

 

1.

            Í 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir orðrétt:

Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður. Með sama hætti skal farið með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs. Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

 

Tilgangur þessarar reglu er m.a. sá að veita þeim sem áunnið hafa sér rétt til atvinnuleysisbóta með vinnu hér landi möguleika til geyma þann rétt. Áunninn réttur til atvinnuleysisbóta á þannig ekki að falla niður eða skerðast þó að viðkomandi einstaklingur taki þá ákvörðun að hverfa af innlendum vinnumarkaði. Þessi réttur er þó takmarkaðar í tíma að því leyti að hann fellur niður að tveimur árum liðnum frá starfslokum.

 

2.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins og vottorði vinnuveitanda, X. dags. 21. mars. 2003,  var kærandi í 100% starfi tímabilið 1. ágúst 1999 til 1. september 2000 er hún fór í fæðingarorlof.  Þann 1. júní 2001 hóf kærandi 50% starf hjá sama vinnuveitanda og hefur haldið því starfshlutfalli síðan.  Einnig kemur fram í vottorði vinnuveitanda að starfshlutfall hafi lækkað vegna samdráttar.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. lag um atvinnuleysistryggingar eig þeir rétt til bóta sem hafa að lágmarki á síðustu tólf mánuðum fyrir umsókn unnið í samtals a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef umhlutastarf hefur verið að ræða.  Hámarksbótarétt öðlast sá sem hefur unnið fullt starf síðustu tólf mánuði fyrir umsókn um atvinnueleysisbætur.

 

3.

Er kærandi hóf fæðingarorlof þann 1. september 2000 hafði hún áunnið sér 100% bótarétt.  Þessum bótarétti hefði hún getað haldið í allt að 24 mánuði eða til 1. september 2002.  Þann 1. júní 2001 er fæðingarorlofi lauk kaus hún að fara í 50% starfshlutfall.  Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. a hefði hún getað sagt hlutastarfi sínu lausu fyrir 1. september 2002 og haldið 100% geymdum bótarétti samkvæmt 3. gr. laganna.  Kærandi ákvað fremur að halda 50% starfi sínu áfram.  Samkvæmt upplýsingum starfsmanns úthlutunarnefndar var kæranda gert grein fyrir nefndum ákvæðum laganna.  Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar er kæranda ákvarðað 45% bótahlutfall.  Kærandi hóf 50% starf hinn 1. júní 2001 sem hún gegnir enn.  Samkvæmt 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar greiðast þeim hámarksbætur sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði.  Sé því skilyrði ekki fullnægt lækkar bótafjárhæð í hlutfalli við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum.  Kærandi hafði verið í 50% starfshlutfalli í síðustu tólf mánuði fyrir umsókn.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta er hlutfall bótaréttar hennar því 50%.  Að öðru leyti er ákvörðun úthlutunarnefndar í máli þessu staðfest.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið í máli kæranda A frá 1. apríl s.l. er staðfest utan þess að bótaréttur hennar ákveðst 50% bótahlutfall.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni