Synjun á útgáfu E-303 vottorðs til atvinnuleitar á Evrópska Efnahagssvæðinu á atvinnuleysisbótum.
Nr. 49 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 23. júní kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 49/2003.

 

1.

Málsatvik eru þau að Atvinnuleysistryggingasjóður ákvað að synja B um útgáfu vottorðs E-303 til atvinnuleitar á Evrópska efnahagssvæðinu á atvinnuleysisbótum, sbr. bréf sjóðsins dags. 28. apríl 2003, með vísan til þess að samkvæmt upplýsingum frá Skattstjóra Reykjavíkur hafi B hvorki verið skráður launþegi hjá skattyfirvöldum né sjálfstætt starfandi einstaklingur, og átti því ekki rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi.  Þar sem eitt helsta skilyrði útgáfu E 303 vottorðs er að fyrir hendi sé bótaréttur á Íslandi við brottför var umsókn B synjað.

2.

            B kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótteknu dags. 5. maí 2003.  Í bréfi sínu segist hann hafa verið  ásamt konu sinni í fullum rekstri með X ehf og unnið við reksturinn tímabilið 16. desember 1999 til maí 2002.  Enginn annar hafi verið á launaskrá hjá fyrirtækinu  og í maí 2002 hafi þau neyðst til að selja reksturinn með tapi.  Þá hafi hann sótt um atvinnuleysisbætur en ekki fengið þar sem kvittanir fyrir tryggingagjöldum hafi ekki verið til staðar.  Því hafi hann orðið að leita til Félagsþjónustunnar.  Síðan hafi hann fengið atvinnuleysisbætur í mars á þessu ári er hann hafi haft kvittanir fyrir tryggingagjöldum og afsal eignarhluta síns og rekstur einkahlutafélagsins X dags. 12. júlí 2002.  Síðan hafi hann farið fram á að fá E-303 pappír til atvinnuleitar erlendis á atvinnuleysisbótum frá Íslandi, en þá hafi bótaréttur hans verið dreginn til baka á þeim forsendum að skattaframtal hans hafi ekki fundist.  Hann segir að það sé nokkuð ljóst að framtal þetta sé einhverstaðar í kerfinu þar sem hann hafi ekki fengið áætlaða skatta á sig.  Einnig hafi hann látið fylgja umsókninni afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrá staðgreiðslu dagsettri 17. júlí 202 stimplað og vottað af Deloitte & Touce.

 

3.

Fram kemur í gögnum málsins að X sækir um atvinnu og atvinnuleysisbætur hjá svæðisvinnumiðlun Reykjavíkur þann 10. mars 2003.  Þann 26. mars sækir hann um vottorð E-303 til atvinnuleitar innan Evrópska efnahagssvæðisins í þrjá mánuði á atvinnuleysisbótum frá Íslandi.  Í bréfi dags. 23. apríl 2003 undirritað af starfsmanni Atvinnuleysistryggingasjóðs, segir að fram hafi komið við samanburð á skattagögnum frá árinu 2002 að hann hafi hvorki verið skráður launþegi hjá X ehf. né hafi hann verið skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á því ári.  Hann hafi því ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum og hafi fyrir mistök verið ákvarðaðar atvinnuleysisbætur hjá úthlutunarnefnd 2 á höfuðborgarsvæðinu.  Af þessum sökum eigi hann ekki heldur rétt á að fá vottorð E-303 til atvinnuleitar erlendis. 

 

Niður­staða

 

1.

Helstu skilyrði fyrir greiðslu bóta í öðru EES-landi og útgáfu vottorðs E-303 eru eftirfarandi:

1.  Ríkisborgararéttur í EES-ríki.

2.  Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta á Íslandi við brottför.

3.  Samfellt skráning hjá vinnumiðlun síðustu fjórar vikur fyrir brottfarardag.

4.  Að umsækjandi sé algjörlega atvinnulaus.

5.  Að umsækjandi hafi gefið kost á sér í vinnu í fjórar vikur fyrir brottfarardag.

6.  Að umsækjandi ætli í virka atvinnuleit erlendis.

7.  Umsókn skal að jafnaði lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottfarardag.

 

2.

            Kærandi sækir um atvinnuleysisbætur þann 10. mars s.l.  Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar hafa þeir rétt til lágmarksbóta bóta samkvæmt lögunum sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldskyldri vinnu, en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. Þannig gefur fullt starf í 12 mánuði rétt til hámarksbóta samkvæmt lögunum sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

            Samkvæmt upplýsingum Skattstofu Reykjavíkur og Tollstjóra hefur kærandi ekki verið með reiknað endurgjald árin 2001, 2002 og 2003 og ekki heldur verið skráður sem launþegi. Hann hafi fengið áætlun á staðgreiðslu fyrir tekjuárið 2001 sem hann skuldar enn ásamt tryggingagjaldi.  Það sama gildir fyrir tekjuárið 2002.  Tekið er fram að fyrst verður að gera upp eldri skuld hjá skattinum áður en hægt er að gera upp nýrri skuld.   Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar fékk kærandi greiðslur frá borginni bæði á árinu 2002 og 2003 og var um að ræða félagslegar greiðslur til framfærslu en ekki launagreiðslur.

 

 

 

3.

Samkvæmt ofansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 til að eiga rétt á lágmarksbótum samkvæmt lögunum og á því ekki rétt á að fá útgefið vottorð E-303 til atvinnuleitar erlendis á atvinnuleysisbótum frá Íslandi.  Hann var hvorki skráður sem launþegi né sjálfstætt starfandi einstaklingur í meira en tvö ár áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur. Það að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í skamman tíma á árinu 2003 veitir honum ekki frekari rétt.  Það skal tekið fram að samkvæmt greiðsluyfirliti frá Tollstjóranum í Reykjavík fyrir árið 2002 voru heildargreiðslur tryggingagjalds X ehf á árinu 2002 kr. 8.186 sem gera um 150.000 kr.  heildarlaunagreiðslur fyrirtækisins á árinu.

 

4.

            Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 28. apríl 2003 um synjun á umsókn B um útgáfu vottorðs E-303 til atvinnuleitar erlendis.   

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 28. apríl 2003 um synjun á umsókn B um útgáfu vottorðs E-303 sem veitir rétt til atvinnuleysisbóta til atvinnuleitar erlendis er staðfest. 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Þuríður Jónsdóttir

 

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni