Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna höfnunar á starfstilboði.
Nr. 50 - 2003

 

Úrskurður

 

Hinn 23. júní maí  2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 50/2003.

 

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 5. maí 2003 að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr.  4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, þar sem kveðið er á um að það valdi missi bótaréttar í 40 bótadaga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að A hafnaði vinnutilboði dags. 9. apríl 2003 frá X hóteli.

 

2.

A kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótteknu dags. 23. maí 2003.  Í kærunni vísar hún í bréf til úthlutunarnefndar dags. 14. maí 2003 um málsatvik.  Þar segir að um misskilning hafi verið að ræða.  Hún hafi mikla reynslu og einhverja menntun sem starfsmaður leikskóla í heimalandi sínu.  Hún hafi mikinn áhuga á að starfa á þeim vettvangi og töluverðar líkur hafi verið á að staða á einkareknum leikskóla myndi losna í byrjun maí.  Ekki hafi síðan orðið úr því að staða þessi losnaði.  Hún hafi ekki hafnað þessi atvinnutilboði heldur aðeins sagt frá þessum áhuga sínum á að starfa á leikskóla.  Einnig hafi hún verið orðin þreytt á að vinna um helgar, en hafi þó ekki neitað að vinna um helgar.  Eftir þetta hafi starfsmannastjóri hótelsins slitið viðtalinu og sagt að hún hentaði ekki til starfa hjá þeim þar sem þeir væru að leita að starfsfólki sem hefðu mikinn áhuga á að vinna hjá þeim til framtíðar.

 

 

3.

            Í atvinnuumsókn A hjá svæðisvinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins kemur fram að A óskar eftir framtíðarstarfi og að helst óski hún eftir starfi sem þerna eða bakari.  Einnig segist hún í umsókninni hafa reynslu af störfum við ræstingar og afgreiðslu.    Í málinu liggur fyrir læknisvottorð dags. 30. apríl s.l., eftir að A hafnaði framkomnu atvinnutilboði, þar sem segir að hún hafi króníska verki í baki og hafi átt erfitt með að stunda vinnu sem feli í sér að standa langtímum saman, bogra og lyfta hlutum. Enginn fyrirvari um störf kemur þó fram í atvinnuumsókn hennar. Samkvæmt samtali við starfsmannastjóra X hótels sagðist A í atvinnuviðtalinu vera orðin þreytt á því að vinna vaktavinnu.  Að auki sagðist hún eiga von til að fá vinnu á leikskóla í lok maí.  Hann hafi því talið að lítill samningsgrundvöllur væri fyrir hendi, hann hefði verið að leita að starfskrafti til frambúðar en ekki eins mánaðar.  Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvinnumiðlun var A enn atvinnulaus þann 20. júní.

 

Niður­staða

 

1.

Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit.  Í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst.  Yfirlýsing bótaþega um að hann hafni tilboði um vinnu hefur þau áhrif að hann telst ekki uppfylla skilyrði bótaréttar samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr., sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Samkvæmt 1. gr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.  5. mgr. 13. gr. kveður á um að ákvæði 4. tölul. 5. gr. gildi að öðru leyti um missi bótaréttar samkvæmt greininni, en þar er kveðið á um að bótaréttur falli niður í 40 bótadaga ef um­sækjendur um at­vinnu­leysis­bætur hafa sagt lausu því starfi sem þeir höfðu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir:  Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

2.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær skýringar sem kærandi gefur ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997.  Hún virðist hafa gefið skýrt til kynna í atvinnuviðtalinu að hún kysi heldur aðra vinnu. Ekki hafi verið um það að ræða að hún hefði annað ákveðið vinnutilboð undir höndum heldur virtist aðeins vera um óljósa von um aðra vinnu sem henni hugnaðist betur en fékk síðan ekki.  Við mat á hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga.  Einnig er kannað hvort bótaþegi, að öðru leyti vinnufær, búi yfir þeirri menntun og/eða fyrri starfsreynslu sem vinnuveitandi gerir kröfu um.  Uppfylli hinn atvinnulausi þessi almennu skilyrði er hafni engu að síður tilboði um vinnu leiðir það almennt til þess að viðkomandi missir rétt til atvinnuleysisbóta. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, staðfest.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 5. maí 2003 um að A skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni