Niðurfelling á bótarétti í 40 bótadaga, hættir starfi
Nr. 4 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 29. janúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 4/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 2. desember 2002, að réttur A skyldi felldur niður í 40 bótadaga með vísan í 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul., 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, en þar segir að það valdi missi bótaréttar í 40 daga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar.  Í bréfi úthlutunarnefndar, dags. 4. desember s.l. er vísað til upplýsinga frá vinnumiðlun um að A hafi hafnað tilboði um atvinnu, dags. 26. nóvember 2002.

 

2.

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 10. desember 2002. Í bréfi hennar segist hún vera ósátt við að missa bætur vegna þessa atvinnutilboðs þar sem vinnutíminn sé umfram vistunartíma dagmæðra, leikskóla og skóladagheimila.  Þar sem hún sé þriggja barna móðir telji hún ekki réttlætanlegt að bjóða henni þessa vinnu og þennan vinnutíma.

 

3.

            Fram kemur í gögnum málsins að atvinnutilboð það sem A hafnaði var afgreiðslustarf í verslun að ástæðan hafi verið að hún hefði ekki barnagæslu til kl. 18.  Í bréfi frá úthlutunarnefnd dags. 16. desember s.l. segir, að samkvæmt atvinnuumsókn A hjá vinnumiðlun óski hún eftir 100% starfi og að hún óski m.a. eftir afgreiðslustarfi í verslun. 


 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.

Þá er einnig bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.

 

2.

 Ekki verður talið að skortur á dagheimilisplássi á venjulegum dagvinnutíma, þ.e. frá kl. 08:00 til 17:00 eða 09:00 til 18:00, geti verið gild ástæða í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á það er bent að þetta er sá dagvinnutími sem bótaþegar verða að vera reiðubúnir að vinna á og geta þeir því ekki hafnað slíkum störfum sem til þeirra er miðlað af vinnumiðlun er falla innan þessara tímamarka. Að sama skapi geta umsækjendur um atvinnuleysisbætur ekki borið fyrir sig að þessi vinnutími hafi ekki hentað þeim og þeir af þeim sökum sagt starfi sínu lausu. Í báðum tilvikum geta einstaklingar ekki borið fyrir að skortur á dagheimilisplássi hafi ráðið ákvörðun þeirra um að hafna starfa eða segja upp starfi. Þá er einnig á það að líta að vandamál er varða skipan dagheimilismála í Reykjavík verða ekki leyst af Atvinnuleysistryggingasjóði.

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 2. desember 2002 um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni