Sumarlokun leikskóla veitir ekki rétt til atvinnuleysisbóta
Nr. 61 - 2002
Úrskurður
Hinn 17. september 2002 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 61/2002.
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 29. júlí 2002, að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur.
2.
A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 10. ágúst 2002. Í bréfi sínu greinir hún frá því að hún hafi verið ráðin í starf við leikskólann M frá 23. nóvember 2001. Hún hafi ekki áunnið sér fullan orlofsrétt og því verið launalaus í 18 daga við sumarleyfislokun leikskólans tímabilið 12. júlí til 12. ágúst 2002. Hún hafi sótt um ýmis störf á þessum tíma en engin tilboð fengið. Henni hafi af þessu tilefni verið sagt að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum.
Niðurstaða
1.
Í 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, segir að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Í 5. tölul. 2. gr. laganna er það eitt af skilyrðum bótaréttar að umsækjandi hafi í upphafi bótatímabils verið skráður sem atvinnulaus í þrjá daga samfellt.
Í máli þessu liggur fyrir að A var á því tímabili sem sótt var um atvinnuleysisbætur með gildan ráðningarsamning við leikskólann M. A er því ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sbr. 1. gr. laganna. Það að áunninn orlofsréttur hennar hafi verið minni en samsvaraði sumarlokun leikskólans veitir henni ekki rétt til atvinnuleysisbóta.
2.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða útskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 29. júlí 2002 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæði frá 27. júlí 2002, um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest..
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka