Synjun á bótarétti vegna sjálfstæðrar starfsemi felld úr gildi
Nr. 57 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 18. júlí 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 57/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Suðurland synjaði á fundi sínum þann 13. maí 2003 umsókn B um atvinnuleysisbætur frá 15. janúar 2003.  Ákvörðun nefndarinnar var  byggð á því að B væri sjálfstætt starfandi einstaklingur og var vísað til 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar sem kveðið er á um að skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist vera atvinnulaus .

 

2.

 

B kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 2. maí 2003.  Í bréfi sínu segist hann hafa opnað skóvinnustofu í X í nóvember 1999.  Fljótlega hafi orðið ljóst að tekjur verkstæðisins rétt dygðu fyrir rekstri og afborgun lána.  Hann hafi því ákveðið að fara að vinna hálfan daginn og halda rekstri verkstæðisins áfram eftir hádegi.  Hann hafi starfað hjá G ehf. til áramóta 2000-2001 er hún var seld og var hann atvinnulaus allt árið 2001 og alveg tekjulaus.  Þá hafi honum verið synjað um atvinnuleysisbætur vegna þess að hann væri með eigin rekstur.  Hann hafi samt haldið rekstri skóvinnustofunnar áfram þótt engar tekjur hafi verið af rekstrinum og skuldir hafi hlaðist upp.  Í byrjun ársins 2002 fékk hann vinnu hjá A við útkeyrslu.  Fyrirtækið hafi fljótlega farið á hausinn og öllu starfsfólki verið sagt upp.  Í þetta sinn hafi hann ekki reynt að sækja um bætur.  Nokkrum vikum seinna fékk hann vinnu við N en vegna samdráttar var öllum ófagmenntuðum starfsmönnum sagt upp um áramótin 2002-2003.  Hann hafi síðan farið að lesa sér til um rétt sinn og fundið grein í lögunum sem segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti átt rétt á bótum ef sýnt þyki að tekjur af rekstri séu að jafnaði minni en fullar atvinnuleysisbætur.  Skuli þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna.  Þetta hafi hann túlkað sem svo að þar sem verkstæðið hans hafi aldrei gefið af sér neinar tekjur, samanber skattskýrslur árin 2000, 2001 og 2002, þá eigi hann rétt á atvinnuleysisbótum.   Hann telur einnig að við fyrri umsóknir hans hafi verið brotið á rétti sínum og fer því fram á að umsóknir hans um atvinuleysisbætur verði teknar til endurskoðunar á þeim forsendum að hann hafi ekki haft tekjur af verkstæði sínu og verið sannarlega atvinnulaus og í atvinnuleit á þeim tíma er hann sótti um bætur.

 

3.

 

            Haft var samband við Skattstjórann í Z varðandi tekjur B af sjálfstæðri starfsemi á árunum 2000 til 2003.    Samkvæmt skattframtali 2002 fyrir tekjuárið 2001 voru heildartekjur hans af rekstrinum kr. 21.568 það ár.  Tekjuárið 2000 hafði hann engar tekjur af rekstrinum.  Ekki hefur verið skilað framtali fyrir tekjuárið 2002.  Samkvæmt upplýsingum skattstjóra hefur B ekki verið á launagreiðendaskrá tekjuárin 1999 til 2003 og ekki greitt tryggingagjald vegna sjálfstæðrar starfsemi þessi ár.

Í gögnum málsins liggja fyrir tvö vinnuveitendavottorð.  Samkvæmt vinnuveitandavottorði dags. 17. janúar 2003 frá N var B í 63% starfshlutfalli hjá fyrirtækinu tímabilið 4. mars 2002 til 31. desember 2002 er honum var sagt upp vegna samdráttar.  Samkvæmt vinuveitandavottorði dags. 18. janúar 2003 frá A var B í 60% starfshlutfalli hjá fyrirtækinu tímabilið 28. janúar til loka febrúar 2002 er fyrirtækið hætti rekstri. 

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið í samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingasjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

Sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar er fé­lags­mála­ráð­herra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skil­yrðum sjálf­s­tætt starf­andi einstaklingar skulu full­nægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skil­yrðum menn verða að full­nægja til þess að teljast sjálf­s­tætt starf­andi og vera at­vinnu­lausir.  

Kærandi sækir síðast um atvinnuleysisbætur þann 15. janúar 2003. Ný reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003 tók gildi þann 9. maí 2003.  Eldri reglugerð nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga gildir því um umsóknir kæranda um atvinnuleysisbætur.

 

2.

 

Í 10. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga segir:

Einstaklingur sem hefur haldið áfram starfi sínu við rekstur eftir að hafa byrjað í launavinnu telst ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þó hann missi launavinnuna  nema hann uppfylli skilyrði 6. sbr. 7. gr. eða sýnt þyki að reksturinn framfleyti aðeins öðrum aðila sem hefur starfað að fullu við reksturinn.

Miða skal við að hreinar tekjur af atvinnurekstri og reiknuð laun fyrir hvern þann aðila, sem hefur tekjur af rekstrinum og er í fullu starfi við hann, séu að jafnaði minni en fullar atvinnuleysisbætur á mánuði.  Skal því til sönnunar lagt fram vottorð frá skattstofu.

Í 1. mgr. 6. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar nr.12/1998 segir:

Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur misst starf sitt að hluta og haldið fastráðningu í hlutastarfi eða ráðist í fast hlutastarf, sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans, er úthlutunarnefnd heimilt að ákvarða honum bætur sem nema mismun bótaréttar hans og þess starfshlutfalls sem hann gegnir.

Í 4. gr. reglugerðarinnar um útreikning bótahlutfalls segir:

Þegar bótahlutfall umsækjanda er ákveðið, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, skal byggja á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um ákvörðun á endurgjaldi sem maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal reikna sér sem laun.  Hafi fullt tryggingagjald miðað við lágmark reiknaðs endurgjalds í viðkomandi starfsgrein verið greitt skal það talið jafngilda fullri vinnu þann mánuð.

Hafi fullt tryggingagjald ekki verið greitt skal upphæðinni sem greiða átti deilt í upphæðina sem greidd var og þannig fengið út starfshlutfall viðkomandi fyrir þann mánuð.

Hafi umsækjandi einnig verið launamaður skal heimil að leggja saman starfshlutfall hans sem launamanns við starfshlutfall hans sem sjálfstætt starfandi við endanlega ákvörðun bótahlutfalls, þó að hámarki samanlagt sem nemur 100% starfi í sama mánuði.

 

3.

 

Samkvæmt upplýsingum á vinnuveitendavottorðum var kærandi launþegi í 63% starfshlutfalli tímabilið  4. mars 2002 til 31. desember 2002  og 60% starfshlutfalli tímabilið 28. janúar til loka febrúar 2002.   Kærandi hefur ekki staðið skil á tryggingagjaldi af sjálfstæðum atvinnurekstri vegna tekjuáranna 2000 til 2003 og reiknast því ekki aukið bótahlutfall vegna sjálfstæðrar starfsemi á þessum tíma.  Samkvæmt upplýsingum skattstjóra hafði kærandi samtals kr. 21.568 í rekstrartekjur af sjálfstæðum rekstri sínum á tekjuárinu 2001.  Kærandi hefur ekki haft frekari tekjur af rekstri sínum.  Þegar litið er til alls þessa er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að 10. gr. svo og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga, eigi við um kæranda og ber að reikna honum bótarétt samkvæmt því.  Samkvæmt ofangreindu er ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur felld úr gildi og er mál kæranda sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar á bótarétti kæranda og til endurskoðunar fyrri umsókna hans um atvinnuleysisbætur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

 

Úrskurðarorð hljóðar svo:  Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Suðurland frá 13. maí 2003 um synjun á umsókn B um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi og er málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni