Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur vegna þess að vinna á viðmiðunrtímabili nái ekki lágmarki. Synjun felld úr gildi.
Nr. 54 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 23. júní 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 54/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

            Málsatvik eru á þá leið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið hafnaði á fundi sínum þann 24. mars 2003, umsókn E um atvinnuleysisbætur, dags. 22. janúar 2003. Í bréfi úthlutunarnefndar til E er vísað til þess að vinna hennar á viðmiðunartímabili bótaréttar nái ekki því lámarki sem kveðið væri á um í 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.  Samkvæmt nefndu ákvæði er skilyrði bótaréttar að umsækjandi hafi á síðustu 12 mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingaskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.

 

2.

            E kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 20. maí 2003.  Í bréfi sínu segist hún hafa flutt til Íslands árið 1990 og unnið eftir það í sjö ár í hraðfrystihúsi.  Síðan hafi hún fengið starf á leikskóla og starfað þar uns hún varð þunguð af sínu fyrsta barni árið 1998.  Meðgangan hafi gengið erfiðlega og fljótlega hafi  hún orðið óvinnufær og þurfti að liggja á spítala síðustu vikur meðgöngunnar.    Þann 2. janúar 1999 fæddi hún svo stúlkubarn.    Hún varð þunguð á ný í apríl sama ár og fæddi tvíbura 27.  nóvember árið 2000.  Fæðingarorlofi hafi lokið í júlí 2001.  Eftir fæðingarorlofið hafi hún ákveðið að vera heimavinnandi án þess að detta í hug að sækja um atvinnuleysisbætur.  Hún hafi því verið tekjulaus í 20 mánuði eftir að fæðingarorlofi lauk.  E biður um að ákvörðun úthlutunarnefndar verði endurskoðuð með tilliti til aðstæðna hennar.  

 

  3.

            Í gögnum málsins liggja fyrir tvö vinnuveitendavottorð, annars vegar frá G hf. fyrir tímabilið 1. maí 1996 til 1. maí 1997, og hins vegar frá Í fyrir tímabilið 19. ágúst 1997 til 21. október 1998, starfshlutfall á báðum stöðum 100%.  Fram kemur að E hefur ekki verið starfandi á vinnumarkaði síðan.

 

 

Niður­staða

 

1.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, er kveðið á um að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Í 2. gr. laganna er fjallað um ýmis lágmarksskilyrði sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur verður að uppfylla. Í 4. tölul. 2. gr. er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.   Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna reiknast hámarksbótaréttur hafi umsækjandi starfað í fullu starfi síðustu tólf mánuði fyrir umsókn.

            Í 3. gr. laganna um geymdan bótarétt segir:

Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður. Með sama hætti skal farið með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs. Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

Í 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Ef sá sem hefur áunnið sér rétt til bóta verður óvinnufær af völdum sjúkdóms eða slyss og verður að hverfa frá vinnu heldur hann þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann að hann hafi verið óvinnufær með læknisvottorði þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.

 

2.

            Kærandi skilaði inn vinnuveitendavottorðum fyrir tímabilið 1. maí 1996 til 21. október 1998 er hún varð óvinnufær vegna veikinda á meðgöngu.  Fram hefur komið að kærandi varð þunguð á ný stuttu eftir fæðingu barnsins og ól  tvíbura 27. nóvember 2000.  Frá því fæðingarorlofi lauk í júlí 2001 þar til hún  skráir sig hjá vinnumiðlun og sækir um atvinnuleysisbætur þann 22. janúar 2003 er hún utan vinnumarkaðar.  Með tilliti  til þess að fram hefur komið að kærandi varð óvinnufær vegna veikinda er stöfuðu af meðgöngunni er hún gekk með fyrsta barnið og að fljótlega eftir fæðingu þess varð hún þunguð af tvíburum, er lagt fyrir úthlutunarnefndina að taka mál kæranda til endurskoðunar og kanna hvort hún hafi á þeim tíma sem hún var utan vinnumarkaðar vegna meðgöngu og fæðingarorlofs verið óvinnufær vegna veikinda í meira mæli en fram hefur komið sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og að það tímabil teljist þá utan þeirra 24 mánaða tímabils sem heimilt er að geyma áunninn bótarétt skv. 3. gr. laganna.

 

3.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur úr gildi.  Lagt er fyrir úthlutunarnefndina að taka bótarétt  kæranda til endurákvörðunar m.t.t. óvinnufærni vegna veikinda á því tímabili sem hún var utan vinnumarkaðar  sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 24. mars 2003 um synjun á umsókn E um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og er málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 12/1997.

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni