Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna höfnunar vinnutilboðs, staðfest.
Nr. 63 - 2003

 

Úrskurður

 

Hinn 18. júlí maí  2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 63/2003.

 

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta á Vestfjörðum ákvað á fundi sínum þann 18. mars 2003 að réttur B til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr.  4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, þar sem kveðið er á um að það valdi missi bótaréttar í 40 bótadaga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að M hafnaði vinnutilboði dags. 7. mars 2003 frá K ehf.

 

2.

B kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 20. júní 2003.  Í bréfi sínu segist hann alla tíð hafa haft næga atvinnu og frekar verið eftirspurn eftir starfskröftum hans en hitt.  Á þessu hafi orðið breyting síðastliðið haust þegar bílasala er hann vann við hætti rekstri.  Síðustu 15 ár hafi hann einungis þrisvar þurft að skipta um starf.  Hann hafi ætíð verið vel liðinn í starfi og aldrei verið sagt upp störfum.  Eftir rúma fjóra mánuði í árangurslausri atvinnuleit hafi hann leitað á náðir svæðisvinnumiðlunar og sótt um atvinnuleysisbætur. Eftir nokkurn tíma hafi honum verið tjáð að allir sem væru á skrá hjá svæðisvinnumiðlun Vestfjarða ættu að hafa samband við K ehf. sem er í um 25 km fjarlægð frá heimili hans X.  Þrátt fyrir þá staðreynd að hann hafi verið að leita að starfi á X og að hann hafi aldrei starfað við fiskvinnslu ákvað hann að hafa samband við verkstjórann í von um vinnu.  Strax í upphafi viðtalsins hafi honum verið tjáð að búið væri að ráða í öll störf nema snyrtingu og pökkun og jafnframt að frekar væri verið að leita að kvenfólki í þau störf, en vegna reglna sem í gildi væru mætti ekki sérstaklega falast eftir kvenfólki í vinnu.  Hann hafi í framhaldinu upplýst verkstjórann um þau störf sem hann hafði áður stundað og kvaðst þá verkstjórinn meta það sem svo að hann væri ekki að leita að slíkri vinnu er hann hafði upp á að bjóða.  Einnig kvaðst verkstjórinn meta það svo að ef hann byði honum vinnu væri það líklega einungis tímabundið þar sem hann væri frekar að leita sér að vinnu sem hentaði sinni reynslu og myndi hverfa frá fiskvinnslunni ef annað betra byðist.  Hann hafi ekki getað annað en verið sammála verkstjóranum að þessu leyti og sá ekki ástæðu til að skrökva að honum að svo væri ekki.  Úthlutunarnefndin hafi síðan mistúlkað orð þessi sem það væru hans eigin orð en ekki verkstjórans.  B fer fram á að úrskurðarnefndin endurskoði þetta mál og að hann fái að njóta réttar síns eins og annað fólk.  Í bréfi til svæðisvinnumiðlunar dags. 24. mars 2003 segir hann að honum hafi aldrei boðist þetta starf.  Sú skýring, að hann hafi orðið af vinnu hjá K vegna þess að hann hafi sagt í viðtali við yfirverkstjóra sannleikann um að hann væri í raun að leita eftir vinnu af öðrum toga en við snyrtingu og pökkun á sjávardýrum og einnig að ef hann yrði ráðinn til þeirra starfa þá myndi hann hverfa frá því starfi strax ef annað betra byðist, væri hrein fásinna.  Sú staðreynd að hann hafi ekki menntun eða kunnáttu við snyrtingu og pökkun á sjávardýrum hefði ekki komið í veg fyrir að hann myndi þiggja starfið ef það hefði á annað borð boðist.

 

 

3.

            Í gögnum málsins liggur fyrir Í atvinnuumsókn B hjá svæðisvinnumiðlun dags. 15. janúar 2003.  Í umsókninni er farið fram á að umsækjendur telji upp störf sem þeir telja sig hafa reynslu og/eða hæfni í.  B telur upp ýmis störf s.s. bókhaldsstörf, ritvinnslu, tölvuvinnslu, sölumennsku, verkstjórn, framkvæmdastjórn og fjármálastjórn.  Í umsókninni eru þó ekki gerðar sérstakar óskir um starf utan þess að óskað er eftir fullri vinnu.  Samkvæmt vinnuveitandavottorði starfaði B síðast við bílasölu og var sagt upp vegna samdráttar.  Atvinnutilboð frá  K ehf. er dagsett 7. mars 2003 og samkvæmt starfslýsingu er um að ræða sérhæft starf við fiskvinnslu, ótilgreint.  B undirritaði móttöku vinnutilboðsins sama dag eða þann 7. mars 2003.  Þann 10. mars sendir K ehf. atvinnutilboðið aftur til svæðisvinnumiðlunar með þeim orðum að atvinnuleitandi hafi ekki látið í sér heyra. Fram kemur í bréfi svæðisvinnumiðlunar dags. 24. júní s.l. að B hafi haft samband við K ehf eftir 10. mars er honum hafði verið bent á að málið yrði sent til úthlutunarnefndar.  Þá hafi K verið búinn að ráða í önnur störf en snyrtingu og pökkun.  Svæðisvinnumiðlunin sendi K ehf fyrirspurn vegna þessa og óskaði eftir upplýsingum um samskipti fyrirtækisins og B.  Í svari K segir að B hafi verið tjáð að aðallega vantaði fólk í snyrtingu.  B hafi talið að slík vinna mundi ekki henta sér.  Því hafi þeim komið saman um að hann yrði látinn vita ef eitthvað annað starf losnaði hjá fyrirtækinu. 

 

 

Niður­staða

 

1.

Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit.  Í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst.  Yfirlýsing bótaþega um að hann hafni tilboði um vinnu hefur þau áhrif að hann telst ekki uppfylla skilyrði bótaréttar samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr., sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að eiga rétt á bótum:

-          að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

-          að vera fullfær til vinnu.

-          að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

2.

 

Samkvæmt 1. gr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.  5. mgr. 13. gr. kveður á um að ákvæði 4. tölul. 5. gr. gildi að öðru leyti um missi bótaréttar samkvæmt greininni, en þar er kveðið á um að bótaréttur falli niður í 40 bótadaga ef um­sækjendur um at­vinnu­leysis­bætur hafa sagt lausu því starfi sem þeir höfðu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir:  Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

           

 

3.

 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær skýringar sem kærandi gefur ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997.  Hann sinnti ekki atvinnutilboði fyrr en seint um síðir er hann hafið verið áminntur um afleiðingar sem af því gætu hlotist og virðist hafa gefið til kynna í atvinnuviðtalinu að hann kysi heldur aðra vinnu. Að mati úrskurðarnefndar jafngildir þetta höfnun vinnutilboðs.  Ekki hafi verið um það að ræða að hann hefði annað vinnutilboð undir höndum.  Við mat á hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður bótaþegi að vera reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.  Um var að ræða tilboð um starf sem uppfyllir þessar kröfur.  Kærandi hafði þegið bætur í meira en fjórar vikur er atvinnutilboðið barst.  Ekki voru taldar miklar líkur á því að kærandi fengi starf sem væri í samræmi við uppgefna fyrri reynslu/hæfni.  Þó atvinnutilboð  K ehf. hafi gert ráð fyrir sérhæfðu starfi (sérhæft starfsfólk) þá hafi hann síðar verið boðið almennt starf án sérhæfingar.  Kæranda bar samkvæmt þessu að þiggja starfið.  Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Vestfjörðum um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, staðfest.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta á Vestfjörðum frá 18. mars 2003 um að B skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Þuríður Jónsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

 

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni