Mistök við útreikning nýttra bótadaga, greiðsla bóta án skráningar.
Nr. 60 - 2003

 

 

Úrskurður

 

Hinn 23. júní 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 60/2003.

 

 

Málsatvik og kæruefni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Austurland ákvað á fundi sínum þann 14. maí 2003 að Á hefði ranglega verið sviptur bótarétti þann 15. júlí 2002 með vísan til þess að 1300 daga bótatímabili hans væri lokið.  Við endurskoðun greiðslusögu hans hafi komið í ljós að rof hefði orðið í bótasögu hans og að hann ætti 140 bótadaga eftir af 1300 bótatímabilinu.  Úthlutunarnefndin ákvað því að greiða Á 100% bætur í 140 daga að frádregnum vinnudögum, ef verið hafa, og greiðslum frá eftirlaunasjóðum skv. reglum þar um.

 

2.

 

Atvinnuleysistryggingasjóður kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 18. júní 2003.  Í bréfinu segir að mál Á hafi verið tekið fyrir á fundi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þann 26. maí 2003.  Málið hafi borist til stjórnarinnar frá forstöðumanni svæðisvinnumiðlunar Austurlands sem hafi vakið athygli á að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta ákvað að greiða Á 140 bótadaga sem hann skráði sig ekki atvinnulausan.  Honum hafi áður verið tjáð að 5 ára atvinnuleysistímabili hans væri lokið en í ljós hafi komið að hann átti 140 daga eftir af bótatímabilinu.  Stjórnin ákvað að vísa málinu til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta þar sem hún telur að óheimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur án skráningar.

 

 

3.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir bréf  frá forstöðumanni svæðisvinnumiðlunar Austurlands til Á dags. 12. júní 2002 þar sem honum er tilkynnt að samkvæmt upplýsingum um fjölda skráðra daga á atvinnuleysisbótum muni bótatímabil hans skv. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 renna skeið sitt á enda í byrjun júlí 2002.  Einnig er Á tilkynnt í bréfinu að nýtt bótatímabil geti fyrst hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lýkur að því tilskyldu að maður eigi að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir lok bótatímabils. 

Forstöðumaðurinn ritaði Á annað bréf dags. 15. janúar 2003 þar sem fram kemur að ástæða hafi þótt til að endurskoða bótatímabil hans með tilliti til þess hvort orðið hafi rof á bótasögu hans og bótadagarnir því ranglega taldir.  Er farið var í gegn um bótasögu hans hafi komið í ljós að mistök hafi verið gerð við útreikning nýttra bótadaga og að hann ætti ónýtta 140 bótadaga.  Var honum tjáð að honum gæfist kostur á að skila inn nýrri umsókn og vinnufærnivottorði ásamt launaseðlum.

 

 

4.

 

            Á sótti aftur um atvinnu og atvinnuleysisbætur með umsókn dags. 19. mars 2003.  Hann skilaði inn tveimur læknisvottorðum um vinnufærni sína, annars vegar vottorð, dags. 6. febrúar 2003, og hins vegar vottorð trúnaðarlæknis, dags. 2. maí 2003.  Í báðum vottorðunum var staðfest að þótt Á hefði að einhverju leyti skerta vinnuhæfni og væri hættur að þola erfiðisvinu, þá gæti hann unnið létt líkamleg störf. 

 

 

Niðurstaða

 

1.

 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar eiga þeir einstaklingar sem eru atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir því sem mælt er fyrir í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

 

Í 9. gr. laganna segir að bótatímabil skuli að hámarki vera fimm ár. Þessi tími samsvarar 1300 bótadögum. Ef maður sem byrjaður er á bótatímabili fær launaða vinnu þá framlengist bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum.  Viðkomandi getur því verið um tíma á atvinnuleysisbótum, síðan um tíma í vinnu og svo koll af kolli.  Fimm ára bótatímabilið er fyrst liðið þegar hann hefur þegið atvinnuleysisbætur í  1300 bótadaga eða fimm ár,  hvort sem það er samfellt tímabil eða ekki.

9. gr. kveður einnig á um að nýtt bótatímabil geti fyrst hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að fyrra bótatímabili lauk.  Auk þess verður viðkomandi að eiga að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að fyrra bótatímabili lauk.

 

2.

 

Fram kemur að bótatímabil Á hófst þann 30. júní 1997.  Þann 1. júlí 2002 hefði bótatímabil hans því runnið sitt skeið á enda að því tilskyldu að hann hefði verið samfellt á bótum allt tímabilið.  Í bótasögu hans koma hins vegar fram rof, samtals í 140 bótadaga og framlengist bótatímabil hans sem því nemur. Það að hann skráði sig ekki allt bótatímabilið má alfarið rekja til þess að hann hafði fengið tilkynningu frá svæðisvinnumiðlun um að bótatímabil hans væri útrunnið og að hann ætti ekki rétt á frekari atvinnuleysisbótum fyrr en eftir tólf mánuði að því tilskyldu að hann hefði unnið í a.m.k. sex mánuði á því tímabili.  Að teknu tilliti til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um að umsækjandi eigi rétt á að fá greiddar 100% atvinnuleysisbætur í 140 daga frá þeim tíma er hann var sviptur bótum eða þann 15. júlí 2002, að frádregnum unnum dögum en einhverjir hafa verið og greiðslum frá eftirlaunasjóðum samkvæmt reglum þar um.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Úrskurðarorð hljóðar svo:  Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Austurland frá 14. maí 2003 um greiðslu atvinnuleysisbóta til Á í 140 bótadaga án skráningar, er staðfest.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

Formaður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni