Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga, segir upp starfi.
Nr. 61 - 2003
Úrskurður
Þann 23. júní 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 61/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 5. maí 2003 umsókn B um atvinnuleysisbætur. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði, dags 23. apríl 2003, um starfslok hans hjá O ehf., var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
B kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 19. maí 2003. Í bréfi sínu segist hann hafa sagt lausu starfi sínu hjá O. Ástæða uppsagnarinnar hafi verið óþolandi vinnuumhverfi. Vinnuandinn hafi verið afskaplega slæmur og keyrt um þverbak á þeirri vakt sem hann var á. Samstarfsmanneskja hans hafi nánast lagt hann í einelti, honum hafi liðið illa í vinnunni og kviðið fyrir því að sækja vinnu að morgni. Hann hafi því tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu og reyna fyrir sér á öðru sviði. Honum finnist ákvörðun sín fyllilega réttlætanleg. Hann hafi margoft rætt vandamálið við yfirmann sinn en ávalt fengið svipuð svör um að þetta lagast og er þetta nokkur svo slæmt. B fer fram á að úrskurðarnefndin afturkalli ákvörðun úthlutunarnefndar um 40 daga niðurfellingu bóta.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölu. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Í gögnum málsins kemur fram að B starfaði hjá O ehf. tímabilið 30. nóvember 2002 til 12. apríl 2003 er hann sagði sjálfur upp starfi sínu. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Ágreiningur milli starfsmanna eða yfirmanna og starfsmanna ellegar almenn óánægja í starfi flokkast ekki undir gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.
Úrskurðarorð:
Úrskurðarorð hljóðar svo: Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 5. maí 2003 um að B skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
Formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka