Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga felld úr gildi. Segir starfi sínu lausu.
Nr. 73 - 2003
Úrskurður
Hinn 22. ágúst 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 73/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Á fundi sínum þann 22. júlí 2003 samþykkti úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið umsókn B um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 28. febrúar 2003 um starfslok hans hjá X ehf. var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem segir að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga. Úthlutunarnefndin tók málið aftur fyrir þann 19. ágúst og staðfesti fyrri ákvörðun sína.
2.
B kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 6. ágúst 2003. Í bréfinu segist hann hafa sagt upp starfi sínu sem verslunarstjóri X í febrúar s.l. og hætt störfum 1. mars. Orsök uppsagnarinnar segir hann vera að aðstæður hafi breyst mikið frá upphaflegri ráðningu. Það átti að lækka laun hans umtalsvert en þrátt fyrir það átti hann að halda sömu ábyrgð og áður. Mikil átök voru orðin milli hans og eigenda og starfsumhverfið því fremur eitrað. Engin framtíð hafi verið í þessu starfi. Hann telji sig því hafa haft gildar ástæður til að segja upp. Í bréfi B til Verslunarmannafélags Reykjavíkur í júlí s.l. segir hann málavexti hafa verið þá að hann hafi verið ráðinn sem verslunar- og innkaupastjóri fyrir verslanir X sem voru tvær á þeim tíma. Í janúar á þessu ári urðu erfiðleikar í rekstri og fyrirtækið breytti um stefnu. Þegar hann var ráðinn hafi verið talað um að setja kraft í fyrirtækið, endurbyggja verslanirnar og móta þær upp á nýtt. Síðan var stefna tekin sem var öfugt við það sem áður hafði verið ákveðið. Hann hafi verið lækkaður í tign og launum og einn þriggja eigenda settur í starf hans sem að hans mati olli ekki starfinu. Ástandið hafi verið orðið óbærilegt. Honum hafi í raun verið bolað úr starfinu og því sá hann ekki ástæðu til að vera að berjast fyrir því. Hann hafi hætt 1. mars og leitað fyrir sér að starfi en ekki gengið. Hann hafi fyrst skráð sig atvinnulausan og sótt um atvinnuleysisbætur þann 10. júlí s.l. Það hafi verið síðasta úrræðið og fer hann fram á að fá undanþágu frá 40 daga niðurfellingu bóta.
3.
Fram kemur að B skráir sig fyrst hjá svæðisvinnumiðlun þann 10. júlí s.l. eða næstum 4 ½ mánuðum eftir að hann verður atvinnulaus. Í gögnum málsins liggur fyrir samkomulag dags. 28. febrúar 2003 milli B og X ehf. um að B hætti störfum að eigin ósk og að starfslok hans verði sama dag eða 28. febrúar. B fái greidd laun fyrir febrúarmánuð ásamt áunnu orlofi vegna starfa sinna hjá versluninni s.l. 4 mánuði. Samkomulagið er undirritað af báðum aðilum og sagt að ekki verði frekari kröfur um greiðslur gerðar milli aðila. Einnig liggur fyrir yfirlýsing frá X ehf. þar sem segir að B hafi verið boðin laun sem væru yfir lágmarkslaunum samkvæmt VR eða um það bil kr. 900 á tímann sem gera um kr. 150.000 á mánuði miðað við 40 stunda vinnuviku. Í símtali við B sagði hann að honum hafi verið boðin um kr. 160.000 til 180.000 í föst laun og enga yfirvinnu. Hann átti þó áfram að vera yfir verslun og sjá um innkaup. Áður segist hann hafa haft kr. 200.000 í föst laun og fengið alla yfirvinnu greidda, heildarlaun allt að kr. 400.000 á mánuði. B lagði fram afrit af launaseðlum þessu til staðfestingar.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Kærandi sækir fyrst um atvinnuleysisbætur tæpum fjórum og hálfum mánuði eftir að hann hættir störfum hjá X. Almenn lagarök mæla með því að viðurlagaheimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um 40 daga niðurfellingu bóta skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur, þ.e. að líta megi svo á að viðkomandi hafi í stað þess að vera í starfi tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu og valið þann kost að fara á atvinnuleysisbætur til lengri eða skemmri tíma. Að auki kemur fram að kæranda var boðið til muna lakari kjör en hann hafði verið ráðinn á í upphafi þrátt fyrir það að hann virðist hafa átt að sinna sama eða svipuðu starfi og áður. Þetta jafngildi í raun uppsögn. Að teknu tilliti til ofangreinds er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um 40 daga niðurfellingu bótaréttar kæranda úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 22. júlí 2003 um niðurfellingu bótaréttar B í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka