Hlutfall bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklings, fellt úr gild.
Nr. 62 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 22. ágúst 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 62/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 27. maí 2003 umsókn A um atvinnuleysisbætur, dags. 25. apríl 2003.  Jafnframt ákvað nefndin að bótaréttur A skyldi vera 26% með vísan til 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga svo og 1. tölul. 2. gr. fyrri reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga, en í reglum þessum er kveðið á um að bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli reiknast samkvæmt skilum á tryggingagjaldi í hlutfalli við reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds í viðkomandi starfsgrein.

 

2.

A kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 7. júní 2003.  Hún segist hafa skráð sig atvinnulausa þann 25. apríl s.l. í Hafnarfirði.  Þegar henni hafi ekki borist greiðslur á réttum tíma hafi hún farið að athuga hvað stæði í veginum.  Hún hafi komist að því að skjölin hennar hefðu fyrir mistök ekki borist V.R. fyrr en eftir 9. maí s.l., en þá tók ný reglugerð gildi.  Vegna þessa hafi hún aðeins fengið hluta af þeim greiðslum sem henni bar og biður hún um að þetta verði leiðrétt og að hún fái fullar bætur.

 

 

3.

            Í gögnum málsins kemur fram að A rak verslun í Hafnarfirði.  Opnunartími verslunarinnar var frá kl. 11 til 18 virka daga og 11 til 16 á laugardögum eða samtals 40 stundir í viku.  Einnig kemur fram að A starfaði ein í versluninni.   Samkvæmt upplýsingum skattstjóra fékk A heimild skattstjóra til að reikna sér kr. 75.000 í endurgjald á mánuði allt árið 2002 og stóð hún í skilum með greiðslu tryggingagjalds af þeirri fjárhæð.  Í janúar 2003 er reiknað endurgjald hennar hækkað í kr. 81.000 á mánuði og gerir hún skil á tryggingagjaldi í samræmi við það.  Frá því í febrúar 2003 þar til hún skráir sig hjá svæðisvinnumiðlun þann 25. apríl 2003 reiknar hún sér ekkert endurgjald og greiðir ekki tryggingagjald.   Þann 1. maí 2003 tilkynnir hún rekstarlok til skattstjórans í Reykjanesumdæmi.   Fram kemur að virðisaukaskattnúmeri hefur verið lokað.

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið í samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

Samkvæmt 3. gr. laganna sem fjallar um geymdan bótarétt heldur sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér í allt að 24 mánuði frá því hann hvarf af vinnumarkaði. 

 

2.

Kærandi sækir um atvinnuleysisbætur þann 25. apríl 2003. Ný reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003 tók gildi þann 9. maí 2003.  Eldri reglugerð nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga gildir því um umsókn kæranda.

Í 1 tölul. 2. gr. reglu­gerðar nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga úr At­vinnu­leysis­trygginga­sjóði segir orðrétt:

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur greitt tryggingagjald mánaðarlega af reiknuðu endurgjaldi miðað við fullt starf, sbr. 4. gr., vegna síðustu 12 mánaða fyrir skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, á hann rétt á hámarksbótum, sbr. 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hlutfallslega ella miðað við fjölda mánaða sem tryggingagjaldi var skilað.  Hafi umsækjandi dregið greiðslu tryggingagjalds lengur en þrjá mánuði fellur bótaréttur niður vegna viðkomandi tímabils.

4. gr. reglugerðarinnar kveður á um útreikning bótahlutfalls.  Í greininni segir m.a.:

Þegar bótahlutfall umsækjanda er ákveðið, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, skal byggja á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, um ákvörðun á endurgjaldi sem maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal reikna sér sem laun.  Hafi fullt tryggingagjald miðað við lámark reiknaðs endurgjalds í viðkomandi starfsgrein verið greitt skal það talið jafngilda fullri vinnu þann mánuð.

Hafi fullt tryggingagjald ekki verið greitt skal upphæðinni sem greiða átti deilt í upphæðina sem greidd var og þannig fengið út starfshlutfall viðkomandi fyrir þann mánuð.

 

3.

Samkvæmt auglýsingu frá ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald 2002  fellur starfsemi kæranda undir flokk B (4) þ.e. starfsmaður við verslun sem greiðir laun sem samsvara minna en árslaunum 2 starfsmanna.  Kærandi átti samkvæmt þessu að reikna sér kr. 250.000 í endurgjald á mánuði á árinu 2002.  Með reglum um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2003 er fjárhæð þessi komin upp í kr. 270.000 á mánuði.  Kærandi fékk hins vegar heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald á þeim grundvelli að rekstur hennar stæði ekki undir hærri launum.  Hún fékk heimild til að reikna sér kr. 75.000 endurgjald á mánuði  á árinu 2002 og kr. 81.000 fyrir janúar 2003 og greiddi tryggingagjald af þessum fjárhæðum.   Reiknað endurgjald hennar var því 30% af viðmiðunarfjárhæð skattstjóra og vinnuhlutfall samkvæmt reiknireglum reglugerða nr. 740/1997 og 316/2003 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga því í samræmi við það..  Þrátt fyrir lægra reiknað endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um var kærandi í fullu starfi þennan tíma. 

 

Sækja verður um heimild til skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um.  Skattstjóri heimilar einstaklingi aðeins að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir ef tekjur af rekstrinum standa ekki undir hærra endurgjaldi og er fylgst með því við skil rekstrarreiknings ársins að tekjur hafi verið í samræmi við veitta lækkunarheimild.  

 

4.

Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ef einstaklingur í sjálfstæðum rekstri fær heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um vegna þess að reksturinn stendur ekki undir hærri tekjum, þá beri að líta svo á að einstaklingurinn hafi verið í því starfshlutfalli sem hann raunverulega var í þrátt fyrir reiknireglur reglugerða nr. 740/1997 og 316/2003.  Enda segir einungis í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar, að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.  Ekki er áskilið að miða skuli við viðmiðunarfjárhæðir skv. reglum fjármálaráðherra, samkvæmt orðanna hljóðan má miða við það endurgjald sem einstaklingurinn fær heimild skattstjóra til að reikna sér.  Orðalag reglugerðanna er íþyngjandi miðað við orðalag laganna hvað þetta varðar.  Ástæða þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur stöðvar rekstur er yfirleitt sú, að reksturinn stendur ekki undir sér.  Ferillinn er venjulega sá að við samdrátt í rekstri fær einstaklingurinn heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um.  Þetta ástand stendur oft yfir í fleiri mánuði, jafnvel ár, áður en rekstur er endanlega stöðvaður.  Einstaklingur stöðvar venjulega ekki rekstur á meðan hann skilar arði og stendur undir fullu reiknuðu endurgjaldi samkvæmt viðmiðunarreglum fjármálaráðherra.  Loks þegar hann stöðvar rekstur þá væri hann samkvæmt reiknireglu 5. og 6. gr. rgl. 316/2003 og 4. gr. rgl. 740/1997 talinn hafa að vera í hlutastarfi til lengri tíma án tillits til raunverulegs starfshlutfalls hans, sem leiðir til þess að hlutfall bótaréttar hans hefur lækkað verulega.   Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings skerðist því ef hann þarf að lækka launin sín þrátt fyrir það að hann sé í fullri vinnu.  Bótaréttur launþega tekur hins vegar ekkert mið af launum hans.  Þetta þykir úrskurðarnefndinni fara í bága við jafnræðisreglu sem almennt gildir í íslenskum rétti sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þó er það mat úrskurðarnefndarinnar að setja verði ákveðið lámark reiknaðs endurgjalds til að um 100% starfshlutfall geti verið að ræða.  Nefndin telur í því sambandi eðlilegt að miða við greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins hverju sinni til ellilífeyrisþega sem búa einir og eru tekjulausir að öðru leyti  Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar er fjárhæð þessi miðað við árið 2003 kr. 94.090 á mánuði, árið 2002 kr. var hún 86.053 og árið 2001 var hún 79.312 á mánuði.  Ef heimild hefur fengist til lækkunar reiknaðs endurgjalds umfram þessar fjárhæðir þá lækkar starfshlutfallið sem því nemur.  Að auki telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef fyrir liggja upplýsingar um það að öðru leyti.   

 

5.

Viðmiðunartímabil bótaréttar er sem áður segir tólf mánuðir fyrir skráningu hjá vinnumiðlun sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. rgl. nr. 740/1997.  Samkvæmt 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt heldur sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt þeim rétti sem hann hafið áunnið sér í allt að 24 mánuði frá því hann hvarf af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki beri að skila af launum hans tryggingagjaldi.  Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um 26% bótahlutfall kæranda og er málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar hlutfalls bótaréttar kæranda samkvæmt ofangreindu.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 27. maí 2003 um 26% bótarétt A til atvinnuleysisbóta er felld úr gildi og málið sent úthlutunarnefndinni til endurávörðunar.     

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Þuríður Jónsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni