Endurgreiðsla ofgreiddra bóta með bótalausri skráningu í 63 daga. Staðfest.
Nr. 68 - 2003
Úrskurður
Hinn 22. ágúst 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 68/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 30. júní 2003 umsókn K um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda dags. 20. maí 2003 frá X kom hins vegar í ljós að k var í vinnu á sama tíma og hún stimplaði sig og þáði atvinnuleysisbætur, eða tímabilið 26. mars 2003 til 28. apríl 2003. Úthlutunarnefndin ákvað því að K bæri að endurgreiða ofgreiddar bætur með einfaldri endurgreiðslu og sæta 2 mánaðar niðurfellingu bótaréttar eða skrá sig bótalaust hjá vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins í 63 bótadaga. Greiðslur atvinnuleysisbóta hefjist fyrst er hún hefur skráð sig bótalaust í 63 daga. Mál K var tekið aftur fyrir á fundi úthlutunarnefndar þann 1. júlí 2003 og var fyrri ákvörðun nefndarinnar staðfest.
2.
K kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 22. júlí 2003. Í bréfi sínu segist hún hafa byrjað að vinna hjá X. Hún hafi verið ráðin þar til reynslu og því verið í lausu lofti um hvort hún fengi vinnuna. Því hafi hún gert þau mistök að stimpla sig hjá vinnumiðlun því hún varð að hafa einhverjar tekjur þar sem hún vissi ekki hvort hún fengi áframhaldandi vinnu. Hún segist ekki hafa vitað betur og vonast til að tekið verði tillit til mistaka sinna.
3.
Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð vinnuveitanda dags. 20. maí 2003 þar sem fram kemur að K var í starfi hjá X tímabilið 26. mars til 23. maí 2003. Í yfirliti um greiðslusögu K kemur í ljós að hún stimplaði sig hjá svæðisvinnumiðlun og þáði atvinnuleysisbætur til 28. apríl 2003 er greiðslur til hennar voru stöðvaðar.
Niðurstaða
1.
Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Einnig segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár.
Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt: Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
Í 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta segir: Nú á Atvinnuleysistryggingasjóður útistandandi kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta þá heimilt að nota þá kröfu til skuldajöfnunar á móti atvinnuleysisbótum að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt. Skulu þá bætur fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd.
2.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var í vinnu og þáði laun hjá X tímabilið 26. mars 2003 til 28. apríl 2003 jafnframt því sem hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi hafi leynt upplýsingum um hagi sína með því að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða því sem hún var í vinnu. Það að hún vissi ekki betur afsakar ekki gjörðir hennar Er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar auk tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar. Endurgreiðslan skal þó vera einföld en ekki tvöföld eins og heimilt er, og skal henni gefinn kostur á að endurgreiða ofgreiddar bætur til Atvinnuleysistryggingasjóðs ásamt 2ja mánaða niðurfellingu bótaréttar með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun sbr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og 14. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 í 63 bótadaga.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 30. júní 2003 um að K skuli greiða skuld sína við Atvinnuleysistryggingasjóð með 63ja daga bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka