Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga staðfest. Sagt upp starfi, eigin sök.
Nr. 70 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 22. ágúst 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 70/2003.

Máls­at­vik og kæru­efni

1.

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti  á fundi sínum þann 24. júní 2003 umsókn A um atvinnuleysisbætur.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 10. júní 2003 um starfslok hennar hjá X ehf. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.  Ákvörðunin var tekin á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 sem kveður á um að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.  Úthlutunarnefndin tók málið fyrir aftur á fundi sínum þann 7. júlí og staðfesti fyrri ákvörðun sína.

2.

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 22. júlí 2003. Í bréfi sínu mótmælir hún því að hún hafi verið óstundvís.  Hún sé einstæð móðir.   Starfssamningur hennar hafi hljóðað upp á vinnu hvern virkan dag og aðra hverja helgi.  Hún hafi getað staðið við samninginn fyrstu 5 mánuðina, en þá hafi hún misst barnapíuna og reynst erfitt að fá aðra í staðinn.  Fjölskyldumeðlimur hafi aðstoðað hana með pössun henni að kostnaðarlausu.  Launin hennar hafi verið það lág að erfitt var fyrir hana að greiða fyrir barnagæslu.  Af þessum sökum hafi það verið frekar erfitt fyrir hana að mæta til vinnu um helgar.  Að öðru leyti hafi mæting hennar verið góð.  Því til sönnunar lætur hún fylgja afrit af yfirliti yfir vinnutíma sína.  Vinnuveitanda hennar hafi verið kunnugt um aðstæður hennar áður en hann sagði henni upp.  Í framhaldi af því fer hún fram á að 40 daga bið eftir bótum verði felld úr gildi.

 

3.

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá X ehf. dags. 10. júní 2003 þar sem segir að A hafi verið sagt upp vegna óstundvísi.  Starfsmaður svæðisvinnumiðlunar hafði samband við vinnuveitanda sem staðfesti það að ástæða uppsagnarinnar hafi verið óstundvísi.  Vinnutími A hafi átt að vera frá kl. 8:30 til 17:00.  Samkvæmt vinnuyfirliti fyrir tímabilið 1. apríl  til 1. júní 2003 kemur fram að A mætti iðulega seinna en kl. 8:30 til vinnu, allt frá nokkrum mínútum upp í einhverja klukkutíma.  Af 36 dögum á þessu tímabili var hún 9 sinnum mætt kl. 8:30.

 

Niður­staða

1.

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum  sem þeir sjálfir eiga sök á.  Réttur til bóta fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur.  Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.

 

Samkvæmt vinnuveitandavottorði var kæranda sagt upp störfum vegna óstundvísi.  Vinnuyfirlit sýnir hvenær starfsmaður stimplar sig inn og úr vinnu.  Samkvæmt upplýsingum vinnuveitanda átti kærandi að mæta til vinnu kl. 8:30.  Samkvæmt vinnuyfirliti kæranda kemur hún iðulega seinna til vinnu en 8:30.  Ekki verður talið að skortur á barnagæslu eða dagheimilisplássi á venjulegum dagvinnutíma, þ.e. frá kl. 08:00 til 17:00 eða 09:00 til 18:00, geti verið gild ástæða í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Að teknu tilliti til þessa er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi hafi sjálf átt sök á því að hún missti vinnuna.  Er ákvörðun úthlutunarnefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 24. júní 2003 um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga því staðfest.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 24. júní 2003 um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga með vísan til  4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni