Synjun á umsókn sjálfstætt starfandi einstaklings um atvinnuleysisbætr, fellt úr gildi.
Nr. 64 - 2003
Úrskurður
Hinn 22. ágúst 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 64/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið synjaði á fundi sínum þann 10. júní 2003 umsókn A um atvinnuleysisbætur, dags. 16. maí 2003. Ákvörðun nefndarinnar var byggð á því að A væri sjálfstætt starfandi einstaklingur og að bótaréttur hennar væri því byggður á skilum á tryggingagjaldi síðustu tólf mánuði fyrir skráningu hjá svæðisvinnumiðlun. Skil hennar á tryggingagjaldi vegna sjálfstæðrar starfsemi næðu ekki lágmarki bótaréttar.
2.
A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 9. júlí 2003. Í bréfi sínu segist hún hafa verið við nám í Háskóla Íslands skólaárið 2002-2003. Hún hafi áður verið verktaki í nuddi en ekki getað greitt sér nema 72.000 í mánaðarlaun. Hún hafi þó unnið allan daginn, bæði til að vera við símann og svo til að taka þau verkefni sem bárust, en það hafi ekki verið mikið að gera. Hún segist hafa starfað við reksturinn frá júlí 2001 til febrúarloka 2002 er hún fór í fæðingarorlof. Hún hafi verið á hálfum fæðingarorlofslaunum út febrúar 2003.
3.
Í gögnum málsins kemur fram að A var skráður nemandi við Háskóla Íslands skólaárið 2002-2003. Tímabilið mars 2002 til febrúar 2003 var hún í fæðingarorlofi og fékk greitt hálft fæðingarorlof í 12 mánuði. A greiddi tryggingagjald vegna sjálfstæðrar nuddstarfsemi í júlí til desember árið 2001 og janúar og febrúar 2002. Reiknað endurgjald fyrir sambærilega starfsemi samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra á þessum tíma var kr. 140.000 á mánuði árið 2001 og kr. 160.000 á mánuði árið 2002. Samkvæmt upplýsingum skattstjóra fékk A heimild skattstjóra til að reikna sér kr. 65.000 í endurgjald á mánuði árið 2001 og kr. 72.000 á mánuði árið 2002 þar sem reksturinn stóð ekki undir hærra endurgjaldi þótt hún ynni allan daginn á nuddstofu sinni. Einnig kemur fram að tímabilið febrúar til júní 2001 var hún launþegi í 33% starfi hjá Reykjavíkurborg, alls í fimm mánuði. Ekki liggja fyrir frekari vinnuveitendavottorð í málinu.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingasjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.
Samkvæmt 3. gr. laganna sem fjallar um geymdan bótarétt heldur sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér í allt að 24 mánuði frá því hann hvarf af vinnumarkaði. Með sama hætti skal fara með þann sem hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs.
2.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur vera í fullu starfi ef hann greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfgrein. Samkvæmt 6. gr. telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef hann greiðir staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein. Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar.
3.
Kærandi var í fæðingarorlofi frá febrúar 2002 til febrúar 2003. Að auki var hún skráður nemandi við Háskóla Íslands skólaárið 2002-2003. Hún fékk greiðslur úr fæðingarorlofssjóði tímabilið mars 2002 til febrúarloka 2002 og getur því ekki samtímis fengið skólanám metið til bótaréttar skv. 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi starfaði síðast við sjálfstæðan rekstur í febrúar á árinu 2002 og telst því hafa stöðvað rekstur þá. Bótaréttur hennar reiknast eftir starfshlutfalli hennar á viðmiðunartíma sem eru tólf mánuðir fyrir þann tíma ásamt skilum á tryggingagjaldi.
Samkvæmt auglýsingu frá ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald 2002 fellur starfsemi kæranda undir flokk E(2), þ.e. ýmis starfsemi ófaglærðra einyrkja, en samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra nuddara er ekki um löggilta iðn að ræða. Reiknað endurgjald við starfsemi í flokki E(2) var á árinu 2002 kr. 160.000 á mánuði. Kærandi reiknaði sér kr. 72.000 í endurgjald á árinu 2002 samkvæmt heimild skattstjóra og stóð í skilum með tryggingagjald vegna þeirrar fjárhæðar í janúar og febrúar. Árið 2001 reiknaði hún sér kr. 65.000 í endurgjald samkvæmt heimild skattstjóra og stóð í skilum með tryggingagjald fyrir tímabilið júlí til desember eða í fjóra mánuði. Samkvæmt auglýsingu fjármálaráðherra var viðmiðunarfjárhæðin það ár 140.000.
Skattstjóri heimilar einungis sjálfstætt starfandi einstaklingi að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir ef tekjur af rekstrinum standa ekki undir hærra endurgjaldi og er fylgst með því við skil rekstrarreiknings ársins að tekjur hafi verið í samræmi við veitta lækkunarheimild. Þrátt fyrir lægra reiknað endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um var kærandi í fullu starfi þennan tíma.
4.
Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ef einstaklingur í sjálfstæðum rekstri fær heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um vegna þess að reksturinn stendur ekki undir hærri tekjum, þá beri að líta svo á að einstaklingurinn hafi verið í því starfshlutfalli sem hann raunverulega var í þrátt fyrir 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 316/2003. Enda segir í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Ekki er áskilið að miða skuli við viðmiðunarfjárhæðir skv. reglum fjármálaráðherra, allt eins virðist mega miða við raunverulegt reiknað endurgjald. Ástæða þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur stöðvar rekstur er venjulega sú að reksturinn stendur ekki undir sér. Ferillinn er venjulega sá að við samdrátt í rekstri fær einstaklingurinn heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir segja til um. Þetta ástand stendur venjulega yfir í fleiri mánuði, jafnvel ár, áður en rekstur er endanlega stöðvaður. Einstaklingur stöðvar venjulega ekki rekstur á meðan hann skilar arði og stendur undir fullu reiknuðu endurgjaldi samkvæmt viðmiðunarreglum. Loks þegar hann stöðvar rekstur þá væri hann samkvæmt reiknireglu 5. og 6. gr. rgl. 316/2003 talinn hafa að vera í hlutastarfi til lengri tíma án tillits til raunverulegs starfshlutfalls hans, sem leiðir aftur til þess að hlutfall bótaréttar hans hefur lækkað verulega. Í tilviki kæranda sem fékk heimild til að reikna sér kr. 70.000 á mánuði í stað kr. 160.000 þá væri bótahlutfall hennar 44%. Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklinga væri því venjulega verulega skertur ef hann þarf að lækka launin sín þrátt fyrir það að hann sé í fullri vinnu, en bótaréttur launþega tekur ekkert mið af launum. Þetta þykir úrskurðarnefndinni fara í bága við jafnræðisreglu sem almennt gildir í íslenskum rétti sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er mat úrskurðarnefndarinnar að reiknað endurgjald megi þó ekki fara undir ákveðin mörk til að fullur bótaréttur skapist. Eðlilegt væri að setja slíkar lámarksviðmiðanir í reglugerðir um atvinnuleysistryggingar. Þar til það hefur verið gert telur úrskurðarnefndin eðlilegt að miða við greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins hverju sinni til ellilífeyrisþega sem búa einir og eru tekjulausir að öðru leyti Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar er fjárhæð þessi miðað við árið 2003 kr. 94.090 á mánuði, árið 2002 kr. var hún 86.053 og árið 2001 var hún 79.312 á mánuði. Ef heimild hefur fengist til lækkunar reiknaðs endurgjalds umfram þessar fjárhæðir þá lækkar starfshlutfallið sem því nemur. Einnig telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef fyrir liggja upplýsingar um það að öðru leyti.
5.
Viðmiðunartímabil bótaréttar er sem áður segir tólf mánuðir fyrir skráningu hjá vinnumiðlun sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. rgl. nr. 740/1997 að teknu tilliti til 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt. Á þessu tímabili var kærandi í fjóra mánuði í 33% starfshlutfalli sem launþegi og í átta mánuði í 100% starfshlutfalli sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar samkvæmt ofangreindu.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 10. júní 2003 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
Formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka